Ábyrgð verði öxluð
Flugslysið í Skerjafirði er enn í fjölmiðlum og ekki að ófyrirsynju. Aðstandendur hafa í raun staðið einir gegn kerfinu þegar hefur komið að því að gagnrýna verk þess, þó þeir hafi greinilega notið mikils stuðnings almennings. Nú þegar skýrsla Bretanna er komin og samgönguráðherra hefur loksins fallist á að málið verði skoðað að nýju með skipun nýrrar nefndar, þá er ástæða til að staldra við og spyrja hvert skuli haldið. Hvað er það sem hefur komið á daginn í kjölfar gagnrýni á flugmálayfirvöld? Fyrir utan málefnalega og vel grundaða gagnrýni, frá aðstandendum sem og bresku sérfræðingunum, sem virðist hafa leitt í ljós ýmsa vankanta í vinnubrögðum bæði Flugmálastjórnar og Rannsóknarnefndar flugslysa, þá er það sem upp úr stendur fyrst og fremst viðbrögð yfirvalda við þessari gagnrýni. Í stað þess að viðurkenna mistök og leita leiða til að leiðrétta þau, hafa allir opinberir aðilar frá samgönguráðherra til Flugmálastjórnar og rannsóknarnefndarinnar þverskallast við og þrætt fyrir hugsanleg misstök alveg fram á síðasta dag. Án þess að leggja endanlegan dóm á hver kann að hafa rétt fyrir sér í einstökum tæknilegum atriðum, þá færir þetta málið í annan og almennari farveg.
Að mínu mati er ljóst að “Flugslysið í Skerjafirði” snýst í dag fyrst og fremst um stjórnsýslulegan vanda. Hvernig taka menn á því þegar heilt kerfi þar sem allir aðilar hafa ákveðinna hagsmuna að gæta, frá ráðherra og niður úr, neitar að taka á gagnrýni en bregst þess í stað við með að hlaupa í vörn? Hvaða ráð hefur þjóðfélagið til að taka á því? Samgönguráðherra hefur þegar lýst yfir að það sé ekkert athugunarvert við embættisfærslur ráðuneytisins og því muni ný rannsóknarnefnd ekkert hafa þar að skoða. Flugmálastjórn vill takmarka rannsóknina við tæknileg smáatriði, ekki þurfi að skoða feril málsins í heild. Og Rannsóknarnefnd flugslysa vill frekari rannsókn inn í þröngan tæknilegan farveg.
Það er ljóst að Alþingi þarf að íhuga með hvaða hætti skuli tekið á málum af þessu tagi, því varla verður þetta mál hið eina sinnar tegundar um ókomna framtíð. Reyndar hafa oft komið upp mál sem hefði þurft að rannsaka af óháðum, sjálfstæðum aðilum. En farvegurinn hefur einfaldlega ekki verið til. Ríkisendurskoðun hefur of afmarkað verksvið fyrir rannsóknarvinnu af því tagi sem hér er til umræðu og í landinu er ekki hefð fyrir henni. Ef eitthvað þarf að rannsaka sem þykir ámælisvert af hálfu framkvæmdavaldsins hefur rannsóknin iðluega verið falin aðilum sem hallir eru undir þetta sama framkvæmdavald.
Hvað þetta tiltekna mál snertir þá er ljóst að ný rannsóknarnefnd flugslyssins þarf að fá umboð til að skoða allar stjórnsýsluaðgerðir flugmálayfirvalda sl. tvö ár. Að hefja rannsókn sem lýtur eingöngu að tæknilegum orsökum slyssins þýðir einfaldlega að verið er að forðast aðalatriði málsins. Það snýst um flugöryggi í landinu og ábyrgð þeirra sem hefur verið treyst til að fara með þau mál. Hafi menn með einhverjum hætti brugðist skyldum sínum eiga þeir að axla ábyrgðina. Úr því þarf að fá skorið.