AÐ HAFA ÞETTA "EITTHVAÐ"
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur þetta "eitthvað". Þetta sem er "eitthvað" umfram það sem aðrir hafa, þetta sem er öðru vísi, snjallara í framsetningu, með meira innsæi í tilveruna en aðrir hafa. Guðfríður Lilja er sem kunnugt er skákdrottning Íslands, formaður Skáksambandsins, bókmenntakona og heimspekingur, varaþingmaður VG... Ég var að lesa pistil hennar í laugardags-Mogga, Hver kyssir hvern? Dregin er upp mynd af pólitísku daðri og kossaflangsi samtímans. Hver er með hverjum...hver á hvern? Skrifað í eins konar stakkadó stíl. Pistillinn er hér. Heit kaldhæðni. Góða skemmtun:
Hver kyssir hvern?
Einn nánasti aðstoðarmaður sænska forsætisráðherrans sagði af sér um daginn. Hún sást vel hífuð kyssa fjölmiðlamann á bar. Það kom ekki strax fram hvort hún var á vakt sem yfirmaður öryggismála eða ekki, en það virtist ekki skipta máli. Út, þú kona daðurs, út!
Nú dreg ég ekki í efa að við heyrðum öll afar yfirborðskenndar fréttir af málinu enda dó það eins fljótt og það kom – eins og flestallar fréttir nú til dags.
En ég er fegin að geta staðið í þeirri trú að það skipti okkur hér litlu máli hver daðrar við hvern á bar úti í bæ. Slíkt er að sjálfsögðu efni í slúður og almennar kjaftasögur en það kemur ekki beinlínis neinum í opinberan bobba. Sem betur fer.
En er til einhvers konar kelerí ólíkra hagsmunaaðila sem ætti að vera umtalsefni en er það ekki? Um hvers konar kossa og funheit faðmlög er þagað á Íslandi?
Ekki veit ég hvernig kolkrabbar kyssast en svo mikið er víst að kolkrabbarnir á Íslandi hafa svo marga alltumlykjandi anga sem læsast svo vel saman að maður þekkir hvorki haus né sporð á einum né neinum. Þeir renna saman í eitt. Ekkert upphaf, engir endir, var það ekki sagt um guðleg allsráðandi öfl hér einu sinni?
Með jafnaðarmenn jafnt sem frelsishetjur í taktvissri sveiflu knúsar súper-dúper-risa-kolkrabbinn alla sem á vegi hans verða og innlimar þá beint inn í einhvern angann sem passar. Stjórnmál og peningaöfl, peningaöfl og stjórnmál, upphaf og endir, eggið og hænan.
Í einum anganum, tja, kannski nokkrum nálægt hjartanu, er faðmlagið svo náið að enginn veit hver á hvað í hverjum hve lengi og hvenær. A á í B sem á í C sem á í A sem á í E sem á í D sem á í B og C. D og A eiga svo í E og B sem eiga í A og D. Ha? Harðlæstir. „Markaðsráðandi öfl“, „fákeppni“, „eflum samkeppniseftirlitið“, „styrkjum lýðræðið,“ segir fólk brúnaþungt á tyllidögum. Svo heldur allt áfram eins og vanalega. Loppur læsast, hjartað slær. Nýi kolkrabbinn í góðum gír, súper-dúper. Við erum ein stór fjölskylda og við smyrjum vélina saman.
Einhvers staðar á mörkum anga A og E eru svo fjölmiðlarnir sem ilma af bisness jafnt sem pólitík og knúsast líkt og sænska kona öryggisins í funheitu faðmlagi. Ekki á bar, nei, þeir hafa vit á því. Kannski bara óeiginlega á blaðamannafundum, ósýnilega, kannski bara alls ekki. Hvað vitum við – allir angar snúast svo hratt og okkur er stöðugt sagt að allt sé þetta hlutlaust, gagnrýnið og sjálfstætt í glimrandi sveiflu. Allt sé bara lúrílúrí í besta gír lýðræðisins.
Í boði hvers er lýðræði dagsins? Væntanlega einhvers sem fær að fara í gegnum flýtidyr á flugvöllum.
Listageirinn? Hugvísindin? Er það ekki þar sem frelsið á að eiga sína raunverulegu málsvara? Er það ekki þar sem ögrunin á að eiga sér stað í einu og öllu, ekkert heilagt, allt skorað á hólm, allt og allir? Fólkið á fyrstu bekkjunum pússar lógóin á sýningarskránum og stendur svo upp fyrir forsetanum þegar hann mætir aðeins of seint. Hver bítur höndina sem fæðir okkur og klæðir? Ekki þú, ekki ég, hver þá?
Þarna standa þeir saman í útrásinni, með Hellisheiðina og íslenskar náttúruperlur á eina hlið, uppkeyptar jarðir bænda á hina. Bessastaðir bjóða til undirskrifta áður en þeir svo snara sér saman upp í einkaþotuna. Hvaða lógó er á brjóstvasanum?
Úps, þarna gerði ég eitthvað sem ég má víst ekki gera. Sumt á ekki að tala um á Íslandi. Vertu með, ekki vera púkó. Ætlarðu að enda í skammarkróknum? Tikk takk, hjartað slær.
Hvaða peningaöfl tilheyra helst hvaða flokkum, hvaða prófkjörum? Við þykjumst vita nokkuð um B og D. Hver ætli séu tengsl Jafnaðarmannaflokks Íslands við peningaöflin í landinu? Jafnaðarmannaflokks Íslands? Ha? Ætlaðu að endurtaka þetta, hvað segist hann heita, flokkurinn?
Allt það sem skiptir mestu máli að vita í nútímasamfélagi, samkrull ólíkra grunnstoða samfélagsins sem hafa það að verkefni sínu að veita hver annarri aðhald og fjarlægð í stað þess að faðma hver aðra með æ nánari hætti, þéttriðið net viðskipta-, stjórnmála- , markaðs- og fjölmiðlatengsla ólíklegustu fyrirbæra, allt þetta er í rauninni ekki svo mikið talað um. Nei, ekki hér hjá okkur. Við erum lítil. Við erum vön því að vera klíkusamfélag. Það er ekki til siðs að ráðast að friðhelgi valdatengslanna.
Er ég að fara yfir strikið? Langt yfir strikið? Já, auðvitað. Skamm. Þögnin hefur sín þægilegheit, sinn lúxus. En ég hef sagt það áður að laugardagar séu til þess gerðir að fara yfir strikið. Ef ekki í dag, hvenær þá?