AÐ HAFA VIÐURVÆRI AF GLÆPUM
Við gleðjumst þegar landanum gengur vel á erlendri grundu, hvort sem það er í vísindum, íþróttum, listum eða viðskiptum. Útrás í viðskiptum hefur verið mjög í brennidepli á undanförnum misserum. Allir voru stoltir af Marel og Össuri, ekki bara vegna velgengni fyrirtækjanna heldur líka vegna þess að við höfðum það á tilfinningunni að fyrirtækin væru að stuðla að mikilvægum nýjungum og uppbyggilegri starfsemi. Sömu tilfinningu hef ég fyrir Bakkavararbræðrum og reyndar ýmsum öðrum fyrirtækjum sem gera garðinn frægan nú um stundir.
Útrás fjármálafyrirtækjanna tel ég mig ekki hafa nema takamarkaðar forsendur til að meta nema að takmörkuðu leyti á þessari stundu þótt ekki efist ég um að í mörgum tilvikum eru þau að gera góða hluti auk þess sem þau sjálf gera það gott. Ekki held ég þó að það sé einhlítt. Og margar fjárfestingar Íslendinga erlendis þola ekki skært kastljós. Áður hef ég oft fjallað um fjárfestingar Íslendinga á Balkanskaga og annars staðar í Austurvegi þar sem fjársterkir aðilar hafa slegist í för með öðrum fjölþjóðakapitalistum, sett fátækum þjóðum stólinn fyrir dyrnar og bókstaflega þröngvað þeim til að láta samfélagseignir af hendi í þvingaðri einkavæðingu. Búlgarski síminn er dæmi um þetta.
Nýjasta dæmið um útrás landans er þó af allt öðrum toga. Sú útrás snýr að því að nýta sér spilafíknina á alþjóðavísu. Hér á ég við 28,10 % eignarhlut Straums-Burðaráss í Betsson netspilavítinu en vel að merkja þá eru þessir íslensku fjárfestar langstærstu eigendur spilabúllunar!
Þetta kemur mér upp í hugann nú þegar ég sit við norskan sjónvarpsskjá á ferð minni til Noregs. Í auglýsingu sem birtist á milli dagskrárliða er fólk hvatt til að heimsækja heimasíður spilavítisins. Þegar það er gert geta menn valið um ein átta tungumál, þar á meðal ástkæra ylhýra málið. Þegar komið er inn á íslensku síðuna blasir nú aldeilis við gósenland. Þar erum við frædd um að 6 milljón manns taki þátt í pókerspilinu enda sé þetta “frábær skemmtun”. Þarna erum við hvött til að setjast við rúllettuborð með þessum orðum. “Þú leggur undir við látum þig hafa peningana!” Hvílkt kostaboð! Spilavítið lýsir sér nánast sem góðgerðastofnun sem lætur fé af hendi rakna. Auðvitað er þessu þveröfugt farið. Hér er um að ræða frumstæða glæpastarfsemi sem gerir út á veikindi fólks, féflettir þá sem haldnir eru spilafíkn, spilar á neyð þeirra. Auðvitað væri nær að leggja fólkinu sem Betsson gerir út á, slagorð fyrirtækisins í munn: “Við borgum þú spilar!”
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra upplýsti í svari við fyrirspurn á Alþingi að lögreglan hefði hafið rannsókn á auglýsingum Betsson í lok mars. Það er vel. Ég vona að rannsókninni verði hraðað. Sjálfum þykir mér varla þurfa frekar vitnanna við. Fjárhættuspil eru bönnuð á Íslandi með afmörkuðum undantekningum. Betsson fer ekkert í launkofa með sitt hlutverk og lýsir sér sjálft sem spilavíti. Fyrst eigendurnir eru þannig innstilltir að þeir geta hugsað sér að hafa viðurværi af glæpum er ekki um annað að gera en að dómsvaldið taki fram fyrir hendur þeirra.