Fara í efni

AÐ KUNNA AÐ ÁVAXTA SITT PUND

Bjarni Ármannsson var ráðinn í stjórn REI án auglýsingar eða umræðu. Haukur Leósson, sem mun vera gamall félagi Vilhjálms borgarstjóra til margra ára, (sem væntanlega skýrir af hverju Haukur dúkkaði upp sem stjórnarformaður OR) hringdi einfaldlega í Bjarna og bauð honum stjórnarformennsku í REI. Bjarni hugsaði sig um í viku og setti síðan skilyrði fyrir því að hann taki við starfinu, þess efnis að hann fái að kaupa hlutafé fyrir 500 milljónir krónar. Það er reynt að fegra þá aðgerð með að halda því fram að þetta sýni traust Bjarna á fyrirtækinu! Hjörleifur B. Kvaran settur forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, samþykkti laun Bjarna Ármannssonar og heimild hans til kaupa á 500 milljóna króna hlut á sérkjörum. Hjörleifur er settur í stól Guðmundar Þóroddsonar tímabundið, meðan að sá síðarnefndi gegnir forstjórastarfi REI. Og það verður að hafa í huga að Guðmundur ætlaði sér að kaupa hluti fyrir 100 milljónir og Hjörleifur átti einnig að njóta sérkjara.

Bjarni gerist svo stjórnarformaður REI og sem slíkur sest hann niður og ákveður, með lægra settum stjórnarmönnum, hvert gengið á hlutabréfum REI eigi að vera. Þar með á Bjarni sjálfur beinan þátt í að  hækka verðgildi eigin bréfa um 500 milljónir króna samkvæmt fréttum.  Er þessi framkoma sæmandi? Hún þarf reyndar ekki að koma á óvart því Bjarni Ármannsson er einn helsti upphafsmaður að því að innleiða þann kúltur í opinberri stjórnsýslu/bönkunum að greiða stjórnendum alls kyns bónusa tengdum árangri. Það var þegar hann var yfir atvinnuvegasjóðunum eftir að þeim hafi verið steypt saman í FBA, Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Gallar við þessar bónusgreiðslur eru að sjálfsögðu fjölmargir, hvort sem er siðferðilega eða beint út frá hagsmunum fyrirtækisins. Ef ég man rétt, var það gagnrýnt á sínum tíma, þegar Bjarni komst í fréttir fyrst fyrir að fá tugmilljóna bónusgreiðslur, að sá bónus hafi verið að mestu tilkominn vegna eignasölu bankans sem skilaði síðan jákvæðari niðurstöðu í reikningum hans.

Eftir að hafa starfað í nokkur ár sem launamaður í banka munu eignir Bjarna Ármannssonar vera taldar í milljörðum króna.
Grillir