Fara í efni

AÐ LOKINNI “HEIMSÓKN” TIL TYRKLANDS

 

 

Á sunnudag fyrir rúmri viku og svo á mánudeginum tók ég þátt í svokallaðri Imrali sendinefnd til Tyrklands. Heimsóknin var um netið í annað skiptið vegna ferða- og fundatakmarkana af völdum kóvid faraldursins. Í sendinefndinni voru átján fulltrúar og hefur hún ekki verið svo fjölmenn til þessa. Á myndinni má sjá hluta þátttakenda í umræðum.  

Imrali er fangaeyjan þar sem Abdullah Öcalan, leiðtoga Kúrda, hefur verið haldið í einangrun í 23 ár. Í febrúar 1999 var honum rænt í Nairóbi í Kenía þegar hann var á leið til Suður-Afríku í boði Nelsons Mandela sem einnig hafði verið haldið í fangelsi árum saman vegna frelsisbaráttu svartra gegn kynáttastefnunni. Þessum tveimur leiðtogum frelsishreyfinga hefur oft verið líkt saman. 

Mun þetta vera í fimmta skiptið sem ég tek þátt í ferð af þessu tagi sem er ætlað tvíþætt hlutverk, þrýsta á tyrknesk stjórnvöld að láta Öcalan lausan úr haldi og síðan afla upplýsinga um stöðu mannréttindamála í Tyrklandi.

Hvað fyrra atriðið snerti þá skrifaði sendinefndin dómsmálaráðherra Tyrklands bréf, óskaði að fá að heimsækja fangann Imrali eyju svo og að eiga orðastað við ráðherrann. Erindinu hefur enn ekki verið svarað.
Varðandi síðari þáttinn þá er skemmst frá því að segja að staða mannréttindamála er hörmuleg og fer versnandi ef það þá yfirleitt er hægt. Við ræddum við fulltrúa stjórnmálaflokka, mannréttindasamtaka, kvennahreyfina og hreyfingar aðstandenda fanga og hlýddum þar á frásagnir af hrottalegri meðferð á fólki.

Eftir ferðina birtum við yfirlýsingu sem fengið hefur mikla umfjöllun í miðlum Kúrda einkum utan Tyrklands eins og gefur að skilja. Að taka upp málstað Kúrda í Tyrklandi jafngildir því að vera sekur um hryðjuverk, vera terroristi. Á næstunni munum við senda frá okkur ítarlega skýrslu um hvers við urðum vísari í þessari heimsókn.

Ferðin var skipulögð af International Initiative, Freedom for Abdullah Öcalan, Peace in Kurdistan og Initiative Por Peace in Kurdistan svo og fjölmörgum verkalýðsfélögum, einkum breskum.

Hér eru tvær vefslóðir þar sem vísað er í framangreinda fréttatilkynningu okkar: 

https://www.freeocalan.org/news/english/international-peace-delegation-to-imrali-2022

https://www.peaceinkurdistancampaign.com/international-peace-delegation-to-imrali/