Fara í efni

AÐ SKILJA OG MISSKILJA

Kæri Ögmundur.
Eftir að hafa lesið svar þitt við grein Árna sem birt var á Smugunni þá efast ég um að þú skiljir að fullu hversu alvarlegt málið er... Það er nokkuð ljóst að mál "Mark Kennedy" sýnir og sannar að forvirkar persónujósnir hafa verið stundaðar á Íslendingum á Íslandi, þrátt fyrir að það sé ekki löglegt. Það virðist enginn bera ábyrgð.
Eigum við að trúa því að þessar njósnir hafi ekki verið í samstarfi við Ríkislögreglustjóra? Ef enginn vissi neitt, hver ber ábyrgð á þvílíku klúðri? - Mun fyrirhugað frumvarp þitt um forvirkar heimildir gera ráð fyrir því að óháðir aðilar stundi forvirkar rannsóknir á Ríkislögreglustjóra og lögreglunni almennt, sem og Alþingismönnum? Eða má Ríkislögreglustjórinn gera samninga við erlend ríki um forvirkar njósnir á Íslendingum? Hefur hann leyfi til að neita ráðherrum, eins og þér, um upplýsingar, og bera við þagnarskyldu við erlendu ríkin? Hvað þarf til þess að reka Ríkislögreglustjórann?
Annað mál. Nú birtist grein í Fréttablaðinu er nefnist "hvernig á lögreglumaður að haga sér", þar sem lögreglumaður óskar eftir sérstöku fagráði sem mundi fara yfir kærumál áður en þau fara raunverulega til lögreglunnar....svona eins og prestar hafa vanist. Ég verð að segja þér svona okkar á milli að mér varð flökurt að lesa þetta, því ég hef kynnt mér pínulítið kærumálin sem hafa hrannast gegn lögreglunni síðustu ár, allt frá barsmíðum til kynferðisofbeldis uppá stöð, og ég veit að það er staðreynd að það er nánast vonlaust mál að fá dæmt í þessum málum, eins og tölurnar staðfesta....um 97% af þessum kærumálum týnast í kerfinu...og þetta fær almenningur að heyra frá lögfræðingum þegar hann leitar aðstoðar.
Ég sé einnig á skrifum þínum að þú hefur ekki kynnt þér þessi mál, og þú telur eflaust að ég sé að ýkja. - En þrátt fyrir að dæmt sé í innan við 3% af kærumálum gegn lögreglunni, þá sér þessi lögreglumaður ástæðu til þess að væla yfir vondri meðferð á lögreglunni í dómstólum. Og það sem meira er þá virðist viðkomandi vera á þeirri skoðun að það sé við hæfi að biðja um "fagráð" til að vernda lögregluna.
Og svona til að krydda þetta enn meira þá er íslenska lögreglan laus við "innra eftirlit", og hefð er fyrir því dæmdir lögreglumenn séu ráðnir til starfa aftur, sbr nýlega frétt. Viltu ekki gera samantekt á því hvernig Ríkislögreglustjóri hefur staðið sig í því að sinna "innra eftirliti"?
MBK.
Símon Falkner
PS. umhverfisverndar-samtök og -mótmæli geta flokkast sem hryðjuverkastarfsemi skv breskum og bandarískum hryðjuverkalögum....hvernig ætlar þú að koma í veg fyrir sömu þróun hér á landi....með það í huga að "hugsjónarmenn" eins og Björn Bjarnason og co geti tekið aftur við völdum.

Sæll og þakka þér bréfið.
Þú telur að ég hafi ekki kynnt mér mál og sé að miskilja. Sem betur fer held ég þetta sé rangt hjá þér og að það sé ég sem er að skilja en þú að misskilja. Þannig er það rangt hjá þér að njósnir við Kárahnjúka hafi verið lögbrot árið 2005. Eftir því sem ég best veit voru njósnir þá í þessu samhengi EKKI lögbrot. Eftir að reglugerð mín sem ég undirritaði nú fyrir helgina tekur gildi við birtingu í Lögbirtingarblaðinu, verður það hins vegar orðið lögbrot að njósna um samtök af því tagi sem mótmæltu við Kárahnjúka.
Óhugnaðurinn sem eftir situr er að hugtakið "njósnir" kunni stundum að vera misvísandi orð því flugumenn virðast iðulega hafa verið notaðir sem skemmdarverkamenn til að eyðlieggja góðan málstað. Vísa ég til nýlegrar umræðu um þessi mál sem ég hef gefið netslóðir á, einkum í breska stórblaðinu Guardian: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/vitt-sjonarhorn-i-mannrettindabarattu-eda
Fyrirhugað frumvarp mitt um forvirkar rannsóknir, sem þú spyrð um, er ALGERLEGA einangrað við glæpahópa enda er ásetningurinn að styðja lögregluna í baráttu hennar gegn glæpahópum ótvíræður og hefur þegar birst í auknu fjárframlagi í þessu augnamiði.
Ögmundur