Fara í efni

AÐ SKJÓTA SJÁLFAN SIG Í FÓTINN

Framsóknarflokkurinn er afskaplega nýtinn flokkur. Margoft hefur komið fram hve vel hann nýtir völd sín – alveg til hins ítrasta. Til marks um þetta má nefna að hugtakið einkavinavæðing  varð til í stjórnartíð hans. Framsóknarflokkurinn er líka nýtinn hvað varðar kosningaloforð. Hann notar ítrekað sömu kosningaloforðin í aðdraganda kosninga. Kjörtímabilið notar hann síðan til að svíkja loforð sín en endurnýjar þau síðan í aðdraganda næstu kosninga. Þannig koll af kolli.

Flest met slógu þeir þó í sameiningu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur með hinum makalausu Landsímafjárlögum haustið 2005. Þá höfðu flokkarnir selt Landsímann í óþökk þjóðarinnar – um það báru skoðanakannanir vitni. Andvirði Símans átti að ráðstafa samkvæmt þessum sérstöku Landsímafjárlögum – aðeins var um að ræða vinsæl mál, ekkert NATÓ-framlag þar!
Þetta var að sjálfsögðu mjög ósvífið ráðslag, fyrst og fremst óljós loforð inn í framtíðina – inn á næstu kjörtímabil. Svo fór og að strax á fyrsta ári var farið að svíkja Landsímafjárlögin.
Eitt loforðið í Landsímafjárlögum sneri að geðfötluðum. Milljarður átti að ganga til sérstakra úrræða þeim til hagsbóta. Haustið 2005 var samþykkt að veita 200 milljónum vegna þessa og á þessu ári eiga að koma 200 milljónir til viðbóttar. Ekki kom króna á síðasta ári og útistandandi eru sex hundruð milljónir. Þær bíða fjárlaga komandi ára!

Á þessu vakti formaður Geðlæknafélags Íslands athygli. Fyrir vikið uppskar hann reiði félagsmálaráðherra sem beindi að honum föstum skotum í fréttatilkynningu frá ráðuneyti sínu, nokkuð sem vægast sagt orkar tvímælis af því að fyrst og fremst er um að ræða pólitískar skylmingar ráðherrans. Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir m.a. "Vegna ummæla formanns Geðlæknafélags Íslands í fjölmiðlum um framlög ríkisins til átaks í þjónustu við geðfatlaða 2006-2010 vill félagsmálaráðuneytið taka eftirfarandi fram: Ríkisstjórnin ákvað að leggja átakinu til 1 milljarð króna af söluandvirði Símans og 500 milljónir króna úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þessi framlög renna óskert til stofnkostnaðar og uppbyggingar á þjónustuúrræðum."

Þessi framlög renna "óskert til stofnkostnaðar og uppbyggingar..." Áður en Magnús Stefánsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, fullyrðir að framlögin til geðfatlaðra, sérstaklega milljarðurinn góði, renni óskertur til þeirra væri rétt að bíða eftir því að hann verði yfirleitt reiddur fram. Magnús Stefánsson miðaði á forsvarsmann geðlækna en ég sé ekki betur en hann hafi skotið sjálfan sig í fótinn.

Þetta gerði Geir H. Haarde, frambjóðandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, af svipuðu tilefni fyrir fáeinum dögum, sbr. HÉR.