Fara í efni

AÐEINS EINN SKOÐANAHÓPUR GERIR ÚT FJÖLMIÐLA Á ÍSLANDI!


Það er ekkert nýtt á Íslandi að fólk komist yfir miklar eignir. Tvennt greinir þó auðmenn samtímans frá auðmönnum fyrri tíðar. Í fyrsta lagi eru eignirnar meiri að vöxtum en áður þótt hitt kunni líka að vera rétt að gengi auðmanna kunni að vera fallvaltara. Í öðru lagi hefur auðmönnum nú verið skapað meira andrými en lengstum var á síðustu öld. Með uppbyggingu velferðarkerfis og samfélagsþjónustu sem öllum er opin og með tilkomu mikilvægra stofnana einsog banka og sparisjóða  í eigu samfélagsins voru auðmönnum settar ákveðnar skorður.  Þarna voru svið sem þeir komust ekki inn á nema með takmörkunum. Þessar takmarkanir og skorður er nú verið að fjarlægja eina af annarri. Þar með er dregið úr lýðræðinu en vald auðsins aukið að sama skapi.

Einn skoðanahópur gerir út fjölmiðlana

Svo eru það fjölmiðlarnir. Fyrr á tíð gáfu skoðanahópar, það er stjórnmálaflokkarnir, út dagblöð. Nú gerir einn skoðanahópur út  fjölmiðla. Það eru talsmenn einkavæðingar og markaðshyggju; sömu mennirnir og eiga fjármagnið, einkavædda bankana og nú líka alla helstu fjölmiðla landsins að undanskildu  RÚV ohf sem enn er í eigu ríkisins.
Í Fréttablaðinu kemur fram að þeir feðgar, Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson eigi nú meira en helming í Árvakri sem gerir út Morgunblaðið, 24 stundir og mbl.is.  Blaðið segir að þeir feðgar hafi verið að auka eignarhlut sinn en „það sé í takt við þá þróun sem orðið hafi í eignarhaldi  á fjölmiðlum. Viðskiptablokkir ráði miðlunum. Baugsfjölskyldan sé ráðandi í 365 samsteypunni og Bakkavararbræður eigi Viðskiptablaðið. Hver þessara blokka um sig er einnig ráðandi í bankaheiminum, Björgólfsfeðgar ráða Landsbankanum, Baugsfjölskyldan Glitni og Bakkavarabræður Kaupþingi og Spron." Þetta segir í umfjöllun Fréttablaðsins og er vitnað beint og óbeint í Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Nokkrar spurningar og svör


Hvað er til ráða? Davíð vildi setja lög sem takmörkuðu eignarhald auðmanna á fjölmiðlum. Við vildum mörg hver efla Ríkisútvarpið. Hvorugt gerðist. Lagafrumvarp um eignarhald á fjölmiðlum náði ekki fram að ganga og Ríkisútvarpið var fært fjær eiganda sínum, þjóðinni, nær markaðnum.  
*Þurfa stjórnmálaflokkar að koma sér upp fjölmiðlum að nýju? Það væri æskilegt að heimurinn væri jafnan skoðaður út frá  sem flestum pólitískum sjónarhornum.
* þarf að færa Ríkisútvarpið aftur nær þjóðinni? Já, það liggur fyrir prýðilegt frumvarp þessa efnis.
*Þarf að stofna þjóðbanka? Því ekki? Fyrsta skref er þó að banna viðskiptabönkum að standa í fjárfestingabraski. Raunveruleg samkeppni í bankastarfsemi er æskileg, starfsemi sem einstaklingar komust reyndar ekki á flot með fyrr en þeim voru færðir ríkisbankarnir á silfurfati. Við hlið einkabankanna er nauðsynlegt aðhald frá ríkinu - hvort sem það er með þjóðbanaka eða ströngu laga- og reglugerðarverki. Síðan þarf að standa vörð um lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð.
* þurfa fréttamenn að efla sig? Aðvitað gera margir fréttamenn og fréttastofur oft vel í sínu starfi. Stundum mög vel. En við ramman reip getur verið að draga þar sem eigendavald og stjórnunarvald er annars vegar. Fréttamenn þurfa að efla sig félagslega og faglega inni á fjölmiðlunum og meðvitað þurfa þeir að standa gegn allri misbeitingu valds og fjármagns.

Meiri efasemdir en ekki minni

Eitt er víst að með eigendavaldi eru stjórnendur ráðnir.  Með breyttum stjórnendum, t.d. á Morgunblaðinu nýlega hafa áherslur blaðsins breyst í ýmsum grundvallaratriðum: T.d. Evrópusambandsstuðningur þar sem andstaða við aðild var áður, eindreginn stuðningur við einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar, einkum heilbrigðisþjónustu. Gagnrýnar efasemdaraddir heyrast ekki í ritstjórnarpistlunum um þessi efni.
Þetta er vandinn. Efasemdunum fækkar eftir því sem eigendavaldið og stjórnunarvaldið verður einsleitara. Það er ekki gott fyrir lýðræðið. Þessu verðum við að breyta. Það þarf að fjölga gagnrýnu efasemdarfólki í fjölmiðlum.