Fara í efni

AÐFÖRIN AÐ JÖKULSÁNUM Í SKAGAFIRÐI AFTUR Á FULLA FERÐ

Iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins er illa upplýstur og  fer með ósannindi um stöðu virkjanamála í Skagafirði.
Allt er til reiðu fyrir Villinganesvirkjun, aðeins skortir leyfi sveitarstjórna. Nýr meirihluti Samfylkingar og Framsóknar í sveitarstjórn Skagafjarðar hefur gefið grænt ljós á að fórna Jökulsánum  og vill heimila bæði Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun á skipulagi.
Í þættinum „Ísland Í  Dag“ á NFS  í gærkvöldi  var Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins spurður um afstöðu til virkjana í Jökulsánum í Skagafirði. Ráðherrann svaraði spurningunni á þann veg að virkjanaáformin í Jökulsánum  væru mjög skammt á veg komin og aðeins hefði verið veitt rannsóknaleyfi fyrir Villinganesvirkjun en virkjunarleyfi hefði ekki verið veitt.
Þetta er rangt hjá ráðherranum. Með lögum nr. 48 frá 1999 fengu Héraðsvötn ehf. leyfi iðnaðarráðherra til virkjunar við ármót Austari- og Vestari –Jökulsár,  milli bæjanna Villinganess og Tyrfingsstaða, s.k. Villinganesvirkjun.
Á árunum 1999- 2001 var svæðið rannsakað og  unnin skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Villinganesvirkjunar. Skipulagsstofnun úrskurðaði hinn 24. okt. 2001 að hún féllist á virkjunina með tilgreindum skilyrðum.  Mikil ónægja ríkti  með framkvæmd umhverfismatsins og niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Fjölmargir kærðu þann úrskurð til Umhverfisráðuneytis sem staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar 5.júlí 2002. Þar með höfðu virkjanaleyfishafar fengið öll tilskilin leyfi opinberra stjórnvalda nema sveitarstjórnanna í Skagafirði.

Hart sótt að sveitarstjórnum  Skagafjarðar um leyfi til framkvæmda

Hart var sótt á um  leyfi sveitarstjórna í Skagafirði að virkjunin færi inn á aðalskipulag  og framkvæmdaleyfi veitt. Um Villinganesvirkjun stóð slagurinn í Sveitarstjórn allt síðasta kjörtímabil þar sem fulltrúar Vinstri grænna lögðust gegn því að þessi leyfi yrðu veitt. Fór svo að fyrri sveitarstjórn í meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks hafnaði því að setja Villinganesvirkjun inn á skipulag.
Eftir sveitarstjórnarkosningar í vor mynduðu Framsókn og Samfylking meirihluta.
19. sept. sl. samþykktu fulltrúar þessara flokka  í skipulags- og bygginganefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar að bæði Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun færu inn á aðalskipulag sveitarfélagsins.  Staðan er því sú að fari Villinganesvirkjun inn á skipulag  er í raun ekkert að vanbúnaði að hefja þar framkvæmdir.
Um það er einmitt tekist þessa dagana.
Er furðulegt að iðnaðarráðherra skuli ekki vita betur og hreinlega fara með rangt mál um stöðu virkjanamála í Skagafirði sem svo hart er deilt um þessa dagana .

 Forystumenn Framsóknarflokksins  fara með leyfið fyrir  Villinganesvirkjun í  Skagafirði

Eignarhaldsfélagið Héraðsvötn sem eru í meirihluta eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Rarik hf eiga virkjunarréttinn í Villinganesvirkjun. Stjórnendur KS, flokksbræður ráðherra, þeir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri og Stefán Guðmundsson fyrrv. alþingismaður, formaður kaupfélagstjórnar og stjórnarmaður í Rarik hafa talað skýrt og krafist þess að fá að hefja framkvæmdir við virkjunina. Villinganesvirkjun er í raun lykillinn að vatnasvæði Héraðsvatna. Komist virkjunin inn á skipulag má selja virkjanaleyfið fyrir stórfé.
Nú virðist nýr meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar í sveitarstjórn Skagafjarðar reiðubúinn að veita tilskilin leyfi fyrir bæði Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.
Kaupfélag Skagfirðinga, RARIK ásamt Landsvirkjun hafa einnig sótt mjög fast á um rannsóknaleyfi til virkjunar við Skatastaði með forgangsrétt til virkjunar. Um það leyfi hefur verið tekist  á Alþingi undanfarna tvo vetur eins og alþjóð er kunnugt um þar sem þingmenn Vinstri grænna hafa barist gegn því  að rannsóknaleyfi fyrir Skatastaðavirkjun væri veitt.
Þá hafa þingmenn Vinstri grænna lagt fram frumvarp á Alþingi um að heimild til Villinganesvirkjunar verði felld brott úr lögum.
Eins og málum er háttað nú hafa Samfylking og Framsókn í Skagafirði hafið aðförina að Jökulsánum á fullu. Getur það verið að iðnaðarráðherra fari með blekkingar til að villa um fyrir fólki og dylja það sem í gangi er.
Skagfirðingur