Fara í efni

AÐGERÐIR RÍKISSTJÓRNARINNAR Í SKULDAMÁLUM

Húsin í bænum - skuldamál
Húsin í bænum - skuldamál

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum hafa framkallað mikil viðbrögð og ekki alltaf mjög yfirveguð. Að sama skapi veldur tímaþröng því að stjórnarflokkunum gefst ekki ráðrúm til að leiðrétta augljósa skafanka á tillögum sínum.

Það minnir á hve mikilvægt það er að tillögur um grundvallarmálefni fái tíma í opinberri umræðu til að leiða í ljós vankanta á lagafrumvörpum og varpa ljósi á ágreining, hvers eðlis hann er, hvort hann er vegna tæknilegrar útfærslu eða mismunandi pólitískrar afstöðu.

Mismunandi afstaða til skattafsláttar af séreignasparnaði er málefnaleg/pólitísk í eðli sínu í þeim skilningi að sumum þykir óeðlilegt að ríkisvaldið heimili skattaafslátt til þeirra sem vilja nýta sér slíkan sparnað til að færa niður höfuðstól húsnæðislána sinna. Ég er þessu hins vegar algerlega sammála og tel þetta skynsamlegt. Færði ég rök fyrir afstöðu minni í þingræðu um málið.
Í stuttu máli þá tel ég það vera æskilegt að stuðla að því að fólk færi sparnað sem (alltof stórir) lífeyrissjóðirnir höndla með á ótryggum fjármálamarkaði inn í öruggasta form sparnaðar sem gefst: heimilið. Og að þetta gerist framan af starfsævinni en ekki eftir að henni er lokið.
Ráðstafanirnar nú taka til þriggja ára en íhuga mætti að mínu mati hvort þetta form ætti að gilda til frambúðar. Sumum þykir miður er hve hátt skattleysismarkið er, þ.e. 750 þúsund á ári, sem þýðir að heimili með rúma milljón í brúttótekjur á mánuði getur nýtt sér afsláttinn að fullu. Þeir sem eru með slíkar tekjur eða umfram þetta og telja þær ekki fram - en þeir eru ófáir - njóta að sjálfsögðu ekki góðs af aðgerðinni.
Ræða mín um málið er hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20140513T133401


Hin meginaðgerðin snýr að lækkun á höfuðstól húsnæðislána. Ég styð meginhugsunina í þeim áformum en hún byggir á því að afnema skattundanþágu þrotabúa bankanna, sem að uppistöðu eru í eigu fjárfestingarspekúlanta og setja jafnframt skatt á fjármálafyrirtæki til að fjármagna aðgerðina. Þetta er í grunninn svipuð hugsun og fyrri ríkisstjórn hugðist byggja á við fjármögnun sérstakra vaxtabóta, að því leyti að hún vildi láta fjármálafyrirtækin kosta aðgerðina, sem gekk eftir að hluta til. Nema hvað nú á féð að renna til þess að lækka höfuðstól lána. Þessa munu njóta margir sem illu heilli fengu engar úrbætur með svokallaðri 110% leið og er það vel.

Að mínu mati skiptir ÖLLU máli að fyrirhuguð skattlagning gangi eftir. Hún er forsendan fyrir mínum stuðningi við málið.  Í öðru lagi VERÐUR að setja eignamörk inn í þessa ráðstöfun. Gangi það ekki eftir mun ég ekki greiða atkvæði með frumvarpinu heldur sitja hjá. Í þriðja lagi er fráleitt að draga sérstakar vaxtabætur frá í útreikningi á því hverjir skuli njóta aðgerðanna og hverjir ei. Vaxtabæturnar gengu nefnilega ekki til að lækka höfðustól lána og eiga því ALLS EKKI að koma þarna til frádráttar. Í síðasta lagi verður þetta aldrei ásættanlegt fyrr en hópar sem þarna eiga að vera inni fá aðkomu að þessum aðgerðum og nefni ég þar sem skýrt dæmi fólk í kaupleigufyrirkomulaginu einsog Búseta. Þá þarf sérstakar aðgerðir fyrir leigjendur.
Að lokum nefni ég mikilvægi þess að fá lausn í máli LÁNSVEÐSHÓPSINS. Það er grundavallar réttlætiskrafa sem óforsvaranlegt er að sinna ekki.
Ræða mín um þetta málefni er hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20140515T155742