Fara í efni

AÐSTAÐA HJÚKRUNARHEIMILA FYRIR ALDRAÐA VERÐI JÖFNUÐ!

Birtist í Morgunblaðinu 02.09.05
Í leiðara Morgunblaðsins föstudaginn 26. ágúst er fjallað um mönnunarvandamál á dvalarheimilum fyrir aldraða. Þar segir m.a. eftirfarandi: "Þótt þjónustan sé áfram fjármögnuð af almannafé, fer ekki á milli mála, eins og Morgunblaðið hefur margoft bent á, að með einkarekstri og samkeppni má tryggja betri nýtingu fjármuna, meiri sveigjanleika og betri kjör starfsmanna. Það er t.d. umhugsunarvert, sem kemur fram í Morgunblaðinu í dag, að hið einkarekna hjúkrunarheimili Sóltún hefur nú þegar mannað allar stöður fyrir veturinn og telur sig vel samkeppnisfært, þótt aðrir séu í
vandræðum."
Kvöldið áður var hamrað á því í Ríkissjónvarpinu að “hið einkarekna” Sóltún væri búið að leysa sín mönnunarvandamál. Öðru máli gegndi um aðrar stofnanir. Mjög eindregið var svo að skilja á fréttinni að allt væri þetta einkarekstri að þakka.
Nú skulum við láta liggja á milli hluta hvar einkarekstur eigi við og hvar ekki. Á því eru mismunandi skoðanir og því álitamál. Staðreyndir eru hins vegar ekki álitamál. Þess vegna eru þær kallaðar staðreyndir. Framhjá staðreyndum virðast mér bæði fréttastofa Sjónvarps og leiðarahöfundur Morgunblaðsins horfa í þessu máli. Sú staðreynd sem þessir aðilar horfa framhjá er sú að dvalarheimilum fyrir aldraða er gróflega mismunað af hálfu fjárveitingavaldsins.
Hlutafélagið Sóltún fær þannig hlutfallslega miklu meira fjármagn úr ríkissjóði en aðrar öldrunarstofnanir, hvort sem þær eru sjálfseignarstofnanir eða í öðrum samfélagslegum rekstri. Samningurinn er mun hagstæðari og allt vísitölubundið í bak og fyrir. Verði lyfjakostnaður meiri en gert er ráð fyrir í samningnum þá borgar ríkið, gagnstætt því sem gerist hjá öðrum stofnunum; allur byggingarkostnaður er greiddur gagnstætt því sem er hjá öðrum. Ég vil taka það skýrt fram að allt þykir mér þetta vera í lagi að því tilskyldu að mismunun gagnvart öðrum stofnunum verði afnumin.
Samningar við Sóltún og aðrar stofnanir eru ekki eins upp byggðir eins og að framan greinir og þarf nokkra yfirlegu til að rýna í samanburðinn.
Að mínu frumkvæði gerði Ríkisendurskoðun úttekt á þessum mismun á sínum tíma og staðfesti að um umtalsverðan mun væri að ræða. Og hver skyldi hafa verið skýring Ríkisendurskoðunar á því að ríkisvaldið var gjöfulla á skattfé til Öldungs hf  en til annarra dvalarheimila fyrir aldraða? Hin síðarnefndu, sagði Ríkisendurskoðun,  “eiga að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi fyrirtækisins.”
Þar fengum við það. Hlutafélagið átti m.ö.o. að fá meira skattfé en önnur heimili fyrir aldraða til að geta greitt hluthöfum arð!
Hvernig birtist svo þessi mismunun í raunveruleikanum? Skýra má muninn með því að bera saman framlög til Sóltúns og Vífilsstaða en bæði þessi heimili taka 90% nýrra innlagna beint af sjúkrahúsum. Þegar framlag á fjárlögum er skoðað til þessara tveggja stofnana, fjöldi vistmanna gaumgæfður og síðan reiknað út hvað Vífilsstaðir ættu að fá ef framlögin væru samkvæmt sömu forsendum og hjá Sóltúni ættu Vífilsstaðir að fá 76 milljónum krónum meira á ári en nú er raunin. Ef þessi samanburður væri heimfærður á Grund myndi sú stofnun fá 273 milljónum krónum meira en nú er.
Um þetta sagði yfirlæknirinn á Skjóli í ársskýrslu sem birt var 14. mars 2003: "Það er hins vegar mikið undrunarefni, hve mismunur milli heimila og vistmanna þeirra vex." Skýringin er augljós sagði hann ennfremur, "sá  óhjákvæmilegi munur hlýtur að vera augljós á verktakakostnaði aðila sem annars vegar reiknar sér og hluthöfum sínum15% arð af starfseminni og hins vegar sjálfseignarfélögum sem hafa það eitt á stefnuskrá að skrimta hallalaus frá ári til árs."
Ég hef oft vikið að þessu málefni í skrifum, m.a. hér í Morgunblaðinu. Sannast sagna hefur það komið mér á óvart hve lítinn áhuga fjölmiðlar hafa sýnt því hróplega ranglæti og mismunun sem dvalarheimili aldraðra búa við, að ekki sé minnst á hagsmuni skattgreiðenda. Ég vil leggja ríka áherslu á að ég sé ekki ofsjónum yfir framlagi til þeirrar ágætu stofnunar sem Sóltún er, að því undanskyldu að sjálfsögðu, að skattfé, sem varið er til velferðarmála á að mínu mati ekki erindi í vasa fjárfesta. Mér svíður hins vegar að ekki sé búið eins vel að öðrum stofnunum hvað opinber fjárframlög snertir.
Þetta misrétti má ekki líðast lengur. Þegar þetta hefur verið lagað verða fyrst komnar sanngjarnar forsendur fyrir samanburð af því tagi sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins og Fréttastofa Sjónvarpsins hafa gert að umtalsefni.