Æskudýrkun
Birtist í Mbl
Ekki alls fyrir löngu hitti ég kunningja minn sem sagt hafði verið upp störfum á vinnustaðnum þar sem hann hafði unnið um árabil. Ástæða uppsagnarinnar var sögð „65 ára reglan!“
„Hvaða regla er það nú eiginlega?“ spurði kunningi minn, enda hafði hann ekki heyrt þessarar reglu getið. „Það er ný regla sem við höfum sett,“ svaraði vinnuveitandinn og gerði grein fyrir því að hann vildi hafa á vinnustaðnum „unga og hressa“ starfsmenn eins og það var orðað. Kunningi minn fyllti ekki lengur flokk hinna ungu og var að mati vinnuveitandans ekki nægilega „hress“ fyrir þá ímynd sem hann vildi hafa á fyrirtæki sínu. Leiðin var greið, uppsagnarrétturinn fyrir hendi og ekki vafðist fyrir atvinnurekandanum að beita honum þótt viðkomandi hafi varið nánast allri starfsævi sinni í dygga þjónustu fyrir þetta fyrirtæki.
Um mörg fyrirtæki á við, að það er af sem áður var þegar þroski og starfsreynsla þóttu helstu kostir starfsmanna. Nú skal í engu hallað á glæsilegt, ungt og vel menntað fólk sem er að hefja starfsferil sinn eða draga úr möguleikum þess til að öðlast reynslu af störfum á vinnumarkaðnum - reynslu sem er oft dýrmætari en langt skólanám. Hins vegar virðist mörgum að hætt sé við því að fyrirtæki gangi of langt í æskudýrkun sinni og ofurkappi í þá veru að ráða eingöngu til starfa ungt og fallegt starfsfólk - en sneiða hjá þeim sem ekki uppfylla skilyrðin um æsku og útlit.
Ráðningarfesta
Samhliða þessari þróun hefur losnað um ráðningarfestu á vinnumarkaðnum og er víða mikið gegnumstreymi í mannahaldi. Hjá opinberum starfsmönnum þar sem ráðningarfesta hefur verið hvað traustust hafa orðið miklar breytingar. Hlutafélög í eigu ríkisins hafa jafnvel gengið svo langt að taka upp þá stefnu að segja fólki upp störfum þegar það hefur náð tilteknum aldri, langt innan við aldursmörk sem tíðkast hefur að virða og hafa einnig átt stoð í lögum og samningum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að þegar lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt árið 1996 var tekin upp sú nýbreytni að ráða embættismenn aðeins til fimm ára í senn. Þetta á einnig við um heilar starfsstéttir og má þar nefna lögreglumenn, tollverði og fangaverði.
Allt þetta hefur valdið miklu óöryggi hjá starfandi fólki sem tekið er að fullorðnast - og ekki að ástæðulausu. Vanlíðan í vinnunni, óttinn við að standast ekki sömu kröfur og gerðar eru til ungmennanna, angistin yfir því vita ekki hvað við tekur - og nánast fullvissa um að ekki komi til greina að fá annað starf á öðrum stað, háir skiljanlega mörgum.
Þingsályktun um nýja lagasetningu
Undirritaður hefur lagt til á Alþingi að ríkisstjórnin hefji undirbúning að lagasetningu með það að markmiði að fólk sé ekki látið gjalda aldurs síns á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Mikilvægt er að sjálfsögðu að það verði gert í nánu samstarfi við samtök launafólks. Sjálfsagt er einnig að í því starfi verði tryggt að mjög veigamikil rök yrðu að vera fyrir því að launamenn sem starfa samkvæmt framangreindri fimm ára reglu fái ekki endurráðningu. Því miður var þingsályktunartillagan ekki samþykkt á þessu þingi. En hún verður endurflutt og allt kapp lagt á að vinna henni brautargengi þannig að komið verði í veg fyrir uppsagnir fólks eða mismunun í starfi vegna aldurs.
Staðreyndin er sú að málið snýst ekki aðeins um að gæta réttarstöðu eldra fólks, heldur koma vitinu fyrir misvitra stjórnendur sem skilja ekki hver verðmæti felast í reynslu og þroska.