ÆVINTÝRIN GERAST ENN
Forstjóri verslunarkeðjunnar Haga, Finnur Árnason, segir fyrirtæki sitt styðja frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um bann við aðkomu ríkisins að sölu áfengis. Hugmynd flutningsmanna þessa frumvarps er sem kunnugt er að loka ÁTVR og færa áfengissölunna inn í matvöruverslanir á borð við verslanir Haga.
Yfirlýsingin frá forstjóra Haga hefur að geyma þessa setningu:
„Hagar styðja frumvarpið og telja það þjóðhagslega hagkvæmt. Kostnaður ríkisins við sölu þessa vöruflokks mun minnka, hagkvæmni viðskiptavina mun aukast og Alþingi getur sett reglur um þá umgjörð sem þarf til að takmarka aðgengi, sé vilji til þess."
Andinn í þessari yfirlýsingu kemur eflaust fáum á óvart enda kappsmál helstu verslunarkeðjanna að komast yfir áfengissöluna. Það kann hins vegar að vekja undrun hve ævintýralega ósvífin yfirlýsingin er. Þrjár grundvallar rangfærslur eru í þessari einu setningu sem vísað er til hér að ofan.
a) Heilbrigðisyfirvöld, hérlend og á heimsvísu, fullyrða að rannsóknir bendi til þess að breytingin, sem frumvarpið hefði í för með sér, myndi vera bæði kostnaðarsöm fyrir samfélagið og heilsuspillandi. Ef þetta er rétt, sem ég véfengi ekki, þá er fráleitt að segja þessa breytingu þjóðhagslega hagkvæma!
b) Ríkissjóður myndi verða af beinum tekjum af verslunarreksrtrinum en þær tekjur nema á annan milljarð á ári hverju. Þannig er út í hött að fullyrða að kostnaður ríkisins muni minnka!
c) Hagkvæmni viðskiptavina mun ekki aukast með dýrara dreifingarfyrirkomulagi og minna vöruúrvali. Þetta segir forstjóri Haga þýða aukna hagkvæmni fyrir viðskiptavini!
d) Eftir að áfengið er komið í hillur verslana Haga getur Alþingi sett reglur um takmarkanir á aðgengi! Umræðan um þennan þátt gæti orðið fróðleg!
Talsvert hefur verið skrifað um þetta málefni hér á síðunni og eru hér nokkrar slóðir á slík skrif:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vidskiptabladid-fer-villur-vegar
https://www.ogmundur.is/is/greinar/afengisidnadurinn-frekur-og-fyrirferdamikill
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vilja-banna-rikinu-ad-annast-vinsolu
https://www.ogmundur.is/is/greinar/heilbrigdisradherra-getur-ekki-thagad-lengur
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hugsjonir-og-hagsmunir
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hlustum-a-arna
https://www.ogmundur.is/is/greinar/atvr-thjonar-skattgreidendum-og-neytendum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/atvr-i-thagu-neytenda-og-samfelags
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vin-i-matvoruverslanir-i-thagu-verslunareigenda-eda-neytenda
https://www.ogmundur.is/is/greinar/jon-snorri-asgeirsson-skrifar-ljott-frumvarp-um-afengis-mal