Fara í efni

AF HVERJU BORÐA FORYSTUMENN FRAMSÓKNAR TINDABIKKJU?

Spakur maður sagði forðum að maðurinn lifði ekki á orðum sínum einum saman þótt vissulega þyrfti hann stundum að borða þau. Þetta á einkar vel við forystumenn Framsóknarflokksins þessa dagana og reyndar gott betur. Þeir hafa ekki við að éta ofan í sig alls kyns yfirlýsingar út og suður – vambirnar eru bókstaflega útkýldar. Nýjasta dæmið hér um er Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra og snýst um nokkurra daga gamla yfirlýsingu hennar um einkavæðingu Landsvirkjunar. Hún kannast varla við orð sín lengur og reynir án afláts að éta ofan í sig einkavæðingar-óþverrann. Þessi viðleitni Valgerðar væri auðvitað afar virðingarverð ef hún héldi draslinu niðri. En reynslan segir okkur að það mun hún ekki gera. Hjá núverandi forystu Framsóknarflokksins er það nefnilega viðtekin venja að kasta óþverranum aftur upp yfir landslýð, þegar minnst varir. Af þessum sökum einkum þurfa framsóknarmenn á einhverri annarri næringu að halda en eigin orðum og yfirlýsingum. Þess vegna hittast þeir stundum og snæða saman tindabikkju eins og þeir gerðu nú á dögunum til að þóknast Kristni H. Gunnarssyni. Verður sá réttur, ósoðinn og með roði, haus og hala, að teljast einkar viðeigandi og hentugur fyrir kok og meltingarfæri Framsóknarforystunnar.
Þjóðólfur