AFHROÐ CORBYNS?
Í útvarpsfréttum á laugardag var okkur sagt að breski Verkamannaflokkurinn hefði kosið sér nýjan formann, Keir Starmer. Hann hefði hlotið 56% atkvæða og taki hann nú við af Jeremy Corbyn “sem sagði af sér eftir að flokkurinn galt afhroð í þingkosningunum í desember.”
Þetta höfum við fengið að heyra áður. Og þetta hafa Bretar oft fengið að heyra áður. Samanburður er sjaldnast rifjaður upp. Væri það gert myndu menn velja ósigri Corbyns í kosningum annað orð en “afhroð.”
Undir forystu þeirra Blairs, Browns, Milibands og Corbyns frá 2005 var gengi Verkamannaflokksins mest í tíð Corbyns í atkvæðum talið:
9,552,436 2005 Blair
8,609,527 2010 Brown
9,347,273 2015 Miliband
12,878,460 2017 Corbyn
10,269,076 2019 Corbyn
Síðan var það hitt sem einnig kom réttilega fram í frétt RÚV að Keir Starmer, hinn nýi formaður, hefði beðið gyðinga afsökunar á gyðingahatri innan Verkamannafloikksins: “Þá biður hann samfélag gyðinga afsökunar. Forveri hans Jeremy Corbyn hefur lengi verið sakaður um að leyfa gyðingahatri að viðgangast innan flokksins. Starmer segist ætla að afnema þennan stimpil sem flokkurinn hefur fengið á sig.”
Mikið rétt, Corbyn hefur verið sakaður um “að leyfa gyðingahatri að viðgangast innan flokksins.” En hér hefði mátt koma fram að aðrir telji að hann hafi ranglega verið borinn slíkum sökum. Svo eru einnig til hinir sem telja framgöngu Corbyns ámælisverða en undir gagnstæðum formerkjum. Í tíð Corbyns hafi verið látið undan offorsi þeirra sem jöfnuðu gagnrýni á Ísraelsríki við hatur á gyðingum en þessi öfl fengu því ágengt að nokkrir meintir “gyðingahatarar” voru reknir úr Verkamannaflokknum.
Einn þeirra var Chris Williamson, fyrrum þingmaður flokksins og um skeið í skuggaráðuneyti flokksins. Hann er í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum og vinstri sinnuðum gyðingum í Ísrael. Lýsti hann því opinberlega yfir að hann teldi útsendara Ísraels beita sér mjög í breskum stjórnmálum og liti hann á Ísrael fyrir bragðið sem óvinveitt ríki. https://www.thejc.com/news/uk-news/chris-williamson-hits-out-after-losing-his-seat-saying-foreign-government-mobilised-against-corby-1.494422
Ég kynntist Chris Williamson lítillega á fundi sem við báðir töluðum á í október á síðastliðnu hausti í Derry á Norður-Írlandi þar sem fjallað var um Wikileaks og ofsóknir á hendur Julian Assange.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gegn-heimsvaldastefnu-med-wikileaks
Ræddum við þessi mál talsvert fyrir og eftir fund. Chris Williamson sagði mér þá hve nærri sér hann tæki því að vera borinn sökum um andúð á gyðingum eða vændur um rasisma yfir höfuð. Allt sitt líf hefði hann barist gegn slíku, tekið þátt í útiföndum - og á sínum yngri árum stundum götubardögum ef því var að skipta - gegn rasisma og rasistum. Nú væri hann ómaklega kallaður slíkum nöfnum! Það sem fyrir sér vekti væri að andæfa mannréttindabrotum, aldrei myndi hann láta kúga sig til að þegja um þau.
Á öðrum fundi sem ég sótti, að þessu sinni í Brussel um mannréttindabaráttu Kúrda átti ég viðræður við skoska baráttukonu fyrir mannréttindum sem sagði mér að hún hefði sætt ofsóknum - alvöru ofsóknum - innan Verkamannaflokksins fyrir að halda uppi andróðri gegn stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum og mannréttindasinnum í Ísrlael. Hún hefði verið sögð haturskona gyðinga. Það segir sína sögu, sagði hún, hvernig komið er í Verkamannaflokknum, að ég skuli borin slíkum sökum því sjálf er ég gyðingur og stolt af því!
Og nú er okkur sagt að nýr foringi breska Verkamannaflokksins biðjist afsökunar á þessari konu, Chris Williamson og þeirra líkum; sá blettur sem þetta fólk hafi sett á flokkinn verði þveginn af honum.
Ég er hræddur um að eitthvað fleira kunni að skolast af breska Verkamannflokknum og að nú muni eflast að nýju krafan um afnám einmenningskjördæma svo vinstri sinnaðir kjósendur verði ekki dæmdir til að velja á milli tveggja afarkosta í kosningum. En það eru mín orð.