ÁFRAM !
19.02.2010
Sveitarstjórnarkosningar nálgast. Flokkarnir eru þessa dagana að velja frambjóðendur á lista. Á ýmsu hefur gengið. Sitt sýnist hverjum um uppröðun á listana. Það á við norðan heiða og sunnan. Hvernig ætti annað að vera? „Ég styð hana eða hann, þú styður hann eða hina". Og sannfæring okkar er mikil. Sums staðar hefur verið deilt um framkvæmd í prófkjöri eða forvali. Það tekur á þegar félagar deila. Svo lýkur því. Einsog nú í Reykjavík.
Þar hafnaði kröftug ung kona, Sóley Tómasdóttir í fyrsta sæti. Í öðru sæti minn góði vinur, Þorleifur Gunnlaugsson.
Ég hugsa með hlýhug og þakklætti til þeirra sem unnu málstað okkar vel í Reykjavík á því kjörtímabilinu sem er að renna sitt skeið á enda: Auk Þorleifs og Sóleyjar koma upp í hugann nöfn Hermanns Valssonar, Friðriks Dags Arnarssonar og margra fleiri....
Nú reynir á að við fylkjum liði. Höldum áfram að vinna einsog gert hefur verið: Í þágu tekjulágra, atvinnulausra, húsnæðislausra, í þágu jafnréttisbaráttu, í þágu jafnaðar, í þágu umhverfisverndar, í þágu skynsemi og lýðræðis, gegn peninga - og forræðishyggju.
Nú segjum við öll, stuðningsmenn VG í Reykjavík: Áfram. Fram til sigurs!