Fara í efni

ÁHYGGJUR OKKAR MÓU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30/01. 09/10.23.
Móa væri barnabarn mitt væri hún barn. Það er hún hins vegar ekki heldur tík sem heyrir til fjölskyldu dóttur minnar. En þar sem ég er nánast afi hennar veitir hún mér þann heiður annað veifið að taka mig í göngutúra. Á þessum göngutúrum hef ég kynnst hverfinu okkar nokkuð vel.
Ég þekki orðið nánast alla ketti sem þar búa og það sem meira er, hvernig þeir eru skapi farnir, rólegir og umburðarlyndir eða hið gagnstæða, svoldið lúmskir og stríðnir, jafnvel hrokafullir. Þeir vita að þeim er engin hætta búin af hundi í ól og leyfa sér fyrir vikið að glotta ögrandi þegar við Móa förum hjá.

Svo eru það allir hundarnir í hverfnu, einnig þeir eru mismunandi. Sumir læra seint að umgangast aðra hunda, gelta og vilja jafnvel smá slagsmál þegar þeir mæta öðrum hundum en reynslan kennir víst að oftar en ekki eldist slíkt af þeim. Móa er ung að árum og á enn sitthvað ólært í umgengnisháttum. En allt er þetta þó að koma enda Móa bæði greind og góðviljuð þótt ekki hafi hún alltaf fullt taumhald á sjálfri sér, ekki fremur en afi hennar og svo margir aðrir.

En það var nú ekki beinlínis þetta sem ég ætlaði að fjalla um heldur hina miklu uppgötvun okkar Móu um skipulag eldri hverfa í Reykjavík, en við búum einmitt í einu slíku. Okkur telst til að á göngusvæði okkar séu hvorki meira né minna en sex opin svæði með leikvöllum fyrir börn og bekki til að tylla sér. Þar fyrir utan er svo sjávarsíðan en við Móa búum einmitt nærri henni. Þar er búið að útbúa aðstöðu fyrir sjósundfólk og gott ef ég sá ekki tillögu um eins konar útivistargerði fyrir hunda. Það er góð hugmynd. Þarna er einnig knattspyrnuvöllur og fleira gott. Til dæmis er verið að endurgera gamla grásleppuskúra til að færa söguna inn í samtímann.

Fyrir allt þetta ber að þakka og síður en svo að hafa þurfi nokkrar áhyggjur af því sem hér er upp talið. Þvert á móti vekja öll þessi opnu svæði bara gleði – ánægju og ekkert nema ánægju.

Ekki veit ég hvort Móa hefur skilið mig til fulls þegar ég hef verið að hrósa þessu skipulagi, sem að miklu leyti er arfleifð fyrri tíðar, eða þegar ég hef verið að muldra með sjálfum mér um nýju hverfin sem eru hönnuð eftir allt annarri forskrift, nefnilega þessari: Hvernig má byggja sem hæst og þéttast svo fá megi sem allra mest fyrir lóðir og síðan sem allra mest fasteignagjöld.

Reyndar er formúlan ekki alveg einhlít að þessu leyti. Ef mið væri tekið af fjárhagslegum hagsmunum skattgreiðenda, tæki borgin til sín - það er að segja til okkar, íbúanna - svæðin sem þær bensínstöðvar eru á sem nú er verið að loka hverri á fætur annarri, í stað þess að færa bröskurum þessar lóðir á silfurfati. Ekki verður annað séð en að það sé gjafagjörningur á kostnað íbúa Reykjavíkur.

En nákvæmlega þarna er einmitt komið að áhyggjum okkar Móu. Og þetta held ég að Móa skilji. Ég ætla að skýra hvers vegna ég tel hana vera með á nótunum.
Á göngusvæði okkar Móu eru tvær bensínstöðvar með dágóð opin svæði umhverfis. Báðar eru þær komnar á dauðalistann. Við því væri lítið að segja væru ekki braskarar komnir fram í boði borgaryfirvalda með tillögur um ævintýralegan byggingarmassa á þessum svæðum. Enginn róló þar fyrir okkur Móu og það sem verra er, sólskinið er tekið frá nærumhverfinu sem samkvæmt þessum tillögum verður að eins konar skúrabyggð í bakgarði stórblokka.

Hvers vegna ætla ég að Móa hafi skilið þetta? Það er vegna þess að ég sá hve vel hún hlustaði þegar ég nýlega tók íbúa í væntanlegum sólarlausum bakgarði tali. Ég spurði hvað hann vissi um þessi áform. “Ég veit allt um þessi áform”, sagði hann, “og það gerum við öll hér í nágrenninu.” Nú vildi ég fá að vita hvers vegna íbúarnir hefðu ekki látið frá sér heyra.

“Við erum búin að láta í okkur heyra”, sagði viðmælandi minn. “Við skrifuðum bréf til borgaryfirvalda.” Og viðbrögðin, hver voru þau? “Engin, það voru engin viðbrögð. Við þykjum ekki svaraverð”.

Þannig lauk samtalinu og við Móa héldum áfram göngu okkar. “Þetta er ekki gott”, sagði ég stundarhátt, nú alveg hættur að muldra. “Ég hef áhyggjur af þessu”, bætti ég við og horfði beint augu Móu. Ekki var um að villast að hún skildi alvöru málsins, og það sem meira er, hún hafði líka af þessu þungar áhyggjur.

Svo ég spurði bara hreint út: “Hvað með helgarpistil í Morgunblaðið þar sem við lýsum áhyggjum okkar?”
Nú kinkaði Móa kolli – ég sá ekki betur.