Fara í efni

ÁKALL!

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03/04.03.18.
Barnaverndarmál hafa verið mjög til umræðu. Sú umræða hefur verið allhávær að undanförnu og stundum óvægin.

Ekki svo að skilja að það kalli ekki á stór orð þegar í ljós kemur að á vegum sveitarfélags hefur verið starfandi fólk sem á að vera börnum til verndar en hefur síðan sjálft orðið uppvíst að því að beita varnarlausa skjólstæðinga sína ofbeldi.

En þýðir það að allt starf sem unnið er á vegum barnaverndaryfirvalda hjá sveitarfélögum sé í molum? Að sjálfsögðu ekki. Það er ekki að undra að grandvöru fólki sem unnið hefur störf sín af alúð og trúmennsku sárni alhæfingarnar. Öllu og öllum er hrært saman í einn graut.

Í þeim graut er einnig Barnaverndarstofu að finna. Hún starfar á landsvísu og hefur með höndum ráðgjafar- og aðhaldshlutverk. Hún hefur eðli máls samkvæmt iðulega gagnrýnt aðkomu sveitarfélaganna að þessum málum, bæði almennt en einnig einstökum málum.

Barnaverndarstofa hefur stundum sætt gagnrýni fyrir að fara svo  hart fram að undan hefur sviðið. Ábendingarnar hafa einnig stundum þótt orka tvímælis í héraði. Hvernig á annað að vera í erfiðasta málaflokki sem til er? Nú hefur velferðarráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, stigið fram og skýrt frá því að hann vilji gaumgæfa þennan núning allan, samskiptareglur og form. Það er vel, þótt þar með verði ekki allur ágreiningur úr sögunni. Það verður hann aldrei. Hér er hins vegar stigið heillavænlegt og lofsvert skref.

Eftir stendur að í þessum málaflokki verður enginn aðili, hversu faglegur sem hann er, óskeikull. Og þar sem kvikan í lífi fólks, tengsl við börn sín við erfiðustu aðstæður sem hugsast getur, eru annars vegar, hljóta iðulega að koma upp sárindi og reiði í garð einstaklinga og stofnana. Og þar sem þær eru ekki óskeikular þurfa þær, sem og kerfið allt, að vera opnar fyrir gagnrýni og aðhaldi utan úr þjóðfélaginu.

En gagnrýnandinn hefur líka skyldur. Sérstaklega ef um er að ræða þau sem kjörin eru til slíkra verka. Þeim er ætlað að fara fram af þekkingu og yfirvegun í þessum viðkvæma málaflokki. Ég efast um að ég sé sá eini sem hef orðið hugsi yfir ýmsum yfirlýsingum alþingismanna og reyndar stundum framsetningu fréttamiðla sumra. Ég hef trú á því að þegar málin eru skoðuð fordómalaust muni  koma í ljós að þegar á heildina er litið hafi samskipti barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu verið góð og yfirleitt mjög góð í tímans rás.

En einn er sá þáttur í starfi Barnaverndarstofu sem ónefndur er og það eru barnahúsin svokölluðu. Með tilkomu Barnahússins íslenska voru rannsóknir á meintum brotum gegn börnum færð úr lögreglustöðvum og dómssölum í barnvænlegt, vinsamlegt og faglegt umhverfi. Upphafsmaður þessa fyrirkomulags  er forstjóri Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson. Hann hefur verið fenginn til að fara víða um lönd að kynna Barnahúsið og verið sérstaklega boðið að vera við opnun barnahúsa sem nú eru starfrækt í um 60 borgum í 13 löndum, öll að íslenskri fyrirmynd. Bragi hefur jafnframt verið í forsvari fyrir svokallaðri Lanzarote-nefnd Evrópuráðsins sem framfylgir og þróar mannréttindasáttmála barna.

Hvers vegna skyldi ég skrifa um þetta efni með þessum hætti? Það er vegna þess að ég hef kynnst þessu starfi bæði sem mannréttindaráðherra og í starfi mínu innan Evrópuráðsins. Þess vegna fagnaði ég því þegar ákveðið var að gera Braga Guðbrandsson að frambjóðanda Íslands í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.

Ég er ekki að biðjast vægðar fyrir hönd forstjóra Barnaverndarstofu í umræðu um skipulag barnaverndarmála og samskipti hans við sveitarfélög og stundum pólitískt valdafólk fyrr og nú. Þetta er hins vegar ákall um að hann fái notið sannmælis fyrir þau verk sín sem óumdeild eru og að sú umræða sem nú á sér stað varpi ekki rýrð á þau og eyðileggi þar með möguleika  Íslands að gera sig gildandi á því sviði mannréttindamála þar sem við helst vildum vera: í vörninni og sókninni fyrir börn í vanda.