Fara í efni

ÁKALL: ÍSLAND RJÚFI STJÓRNMÁLASAMBAND VIÐ ÍSRAEL


Yfir helgina hafa okkur borist fréttir af „aðgerðum" Ísraelshers á Gaza svæðinu og „hernaðarátökum" þar. Þessi orðanotkun er villandi. Í reynd er hér verið að segja frá kaldrifjuðum árásum og morðum á óbreyttum borgurum. Í dag sendi formaður félagsins Ísland Palestína, Sveinn Rúnar Hauksson læknir, frá sér áskorun til íslenskra stjórnvalda og hvet ég lesendur til að kynna sér þessa yfirlýsingu. Ég hvet jafnframt allt fólk til að leita allra leiða til að vekja athygli á því svívirðilega ofbeldi sem Palestínumenn á Gaza svæðinu og annars staðar í Palestínu eru beittir. Því fyrr sem efnt er til opinberra mótmæla hér á landi því betra!

Ákall Sveins Rúnars Haukssonar, formanns félagsins Ísland Palestína:

" Ísraelsk stjórnvöld hafa haldið íbúum Gaza innilokuðum í níu mánuði og stöðugt verið hert að þannig að nauðsynjar eru af æ skornari skammti. Matvæli og mörg lyf eru ófáanleg, varahlutir í lækningatæki á sjúkrahúsin fást ekki flutt til svæðisins, rafhlöður fyrir heyrnartæki eru á bannlista og lokað hefur verið fyrir eldsneyti og rafmagn. Það síðastnefnda hefur í för með sér að vatnsdælur við brunna stöðvast og einnig dælur sem fjarlægja eiga skólpið. Vatnsskorturinn er bæði alvarlegur heilbrigðis- og mengunarvandi, sem valdið getur drepsótt. Það eru engu líkara en stefnan sé að breyta þessu risafangelsi í útrýmingarbúðir.

 Samhliða umsátrinu um Gaza hafa stöðugt verið gerðar árásir á íbúana úr lofti, af landi og láði og einstaklingar og fjölskyldur verið myrtar. Á þeim hefur verið hert síðustu daga með grimmilegum loft- og skriðdrekaárásum á íbúðahverfi. Síðustu fjóra daga hafa 98 Palestínumenn verið myrtir og þaraf 19 börn. Á einum degi, laugardeginum 1. mars, voru 67 drepnir. Þann dag féllu tveir ísraelskir hermenn og hafa ekki aðrir fallið úr árásarhernum þessa dagna. Átylla þess morðæðis sem gripið hefur Ísraelsher er dauði 47 ára gamals Ísraelsmanns í Sderot sem varð fyrir heimatilbúinni eldflaug og var það fyrsta mannfallið af slíkum völdum þar í níu mánuði.

 Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt árásir Ísraels og krafist þess að þeim linni. Ísraelsstjórn skellir skollaeyrum við slíku og Olmert forsætisráðherra Ísraels kallaði árásirnar "varnaraðgerðir" og sagði að ekki yrði gert einnar sekúndu hlé á árásunum. Evrópusambandið hefur mótmælt árásunum á Gaza en það virðist engu breyta. Abbas forseti Palestínu hefur slitið sambandið við ísraelsk stjórnvöld. En Bandaríkjastjórn stendur á bak við Ísraelsher með því að sjá honum fyrir vopnum og réttlætir þessar árásir í samhljóman við áróður Ísraelsstjórnar.

 Umheimurinn horfir upp á stríðsglæpi Ísraels og fær lítið gert til að stöðva grimmdarverkin. Í þessari stöðu verða ríki eins og Ísland að reyna að koma vitinu fyrir Ísraelsstjórn með því að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, þartil bundinn hefur verið endir á stríðsglæpina, hernáminu linnir og palestínsku þjóðinni verið tryggður réttur til lífs og friðar. Þjóðir Ísraels og Palestínu eiga ekki lífvænlega framtíð án friðarsamkomulags sem byggir á réttlæti og gagnkvæmri virðingu. Þjóðir heims verða að gera Ísraelsstjórn ljóst að nú er komið nóg.
Sveinn Rúnar Hauksson læknir.
Formaður Félagsins Ísland-Palestína

Gaza 4