Fara í efni

ÁKALL KRISTÍNAR SÓLVEIGAR

Kristín Sólveig Bjarnadóttir birtir í dag áhrifamikla sunnudagshugvekju á feisbókarsíðu sinni og biður okkur að hugleiða hana. Það hef ég gert og um leið og ég færi henni þakkir sendi ég hér með skilaboð hennar áfram. Þau eru þessi:

“ Öll mín kæru.

Slysaskot í Palestínu.
Þetta ljóð hér neðst sem þið þekkið vonandi öll, eftir Kristján frá Djúpalæk, hafði svo mikil áhrif á mig þegar ég las það fyrst sem unglingur að það breytti lífssýn minni til lífstíðar.

Mikið óskaplega sem miskunnarleysið hefur undið upp á sig síðan Kristjáni blöskraði svo að hann orti þetta einstaka sterka og sjónræna ljóð. Um daginn ætlaðu hermenn að drepa helling af börnum og foreldrum þeirra... drápu óvænt hamasleiðtoga í leiðinni. Í september hafði herinn drepið yfir 17.000 börn með miskunnarlausum og oft á tíðum afar kvalafullum hætti. Herinn drap 50 börn á 48 klst fyrir tveimur sólarhringum. Foreldrar þeirra á aldur við börnin mín. Mörg þeirra drepin líka. Svo eru það munaðarlausu börnin sem skipta tugþúsunum. Og börnin sem lifðu af en búa við fötlun til æviloka. Ég þekki persónulega einn ungling sem missti fótinn. Ég hef gert nokkrar tilraunir hér á síðunni minni til að lýsa eftir einhverjum sem sé til í að hjálpa mér með stuðning við hann, verða fb vinur hans eða að lið / hópur / klúbbur taki sig saman og útvegi gott framlag. Annað hvort vantar áhugann, getuna eða kjarkinn. Ég veit ekki. Og svo er það núna stefnan í þjóðarmorðinu að gera út af við sem allra flest á sama tíma. Að svelta börn og fullorðin. Vissuð þið að þeir ruddu niður ógrynni af ólífutrjám fyrr á þessu ári, svo ekki yrði uppskera í október? Og að á sama tíma, þegar vetrarkuldinn settist að fólki í tjöldum og allsleysi í upphafi október, lokuðu þeir svo fyrir matarflutninga inn til landsins... vissuð þið þetta samhengi allt? Ævarandi sé skömm þeirra og sagan mun engu gleyma, enda til á upptökum um allan heim.

En öll mín kæru. Þetta er að gerast á okkar vakt. Okkar samtíma. Það er okkar að grípa inn í, gera allt sem við getum til hjálpar og til að stöðva þennan óhugnað. Suma daga líður mér eins og ég sé bara galandi inni í glerkúlu og að þið heyrið ekki til mín. Aðra daga sé ég svo að þetta er bara sigti sem ég er að kalla í gegnum og það sem ég segi heyrist og skilst. Og það gefur innspýtingu í kraftinn. Kraftinn sem er þó sem betur fer til staðar alla daga. Aðal drifkrafturinn er réttlætiskenndin sem er sjálfstætt orkuver. Og skilaboðin öll frá vinum mínum í þjóðarmorði. Einstakt ungt fólk sem hefur nú þegar kennt mér meira en ég hef lært á mörgum árum þar á undan. Yndislegra fólki hef ég ekki kynnst. En það getur ekki meira. Ég er reyndar búin að miðla því áfram lengi.

Það sem mig langar að öll viti - og meðtaki líka - þennan sunnudagsmorguninn, er að hjálparstofnanir eru EKKI til staðar til að hjálpa fólkinu. Eins og margt oft hefur komið fram í fréttum. Það er þess vegna sem ég er að hjálpa eftir mínum leiðum. Af því að ég get það. Og þið líka. Hver hjálparhönd er á við svo mikið að það er erfitt að skilja það fyrr en við hlustum á þau sem hafa upplifað að hún teygi sig í átt til þeirra.

Hér er reikningsnúmerið mitt. Ef þið sem eruð svo léttilega aflögufær leggið þar inn ykkar framlag þá er hægt að hjálpa meira. Svo einfalt er það og ykkar er valið. Það sem þið leggið inn á hjálparstofnanir mun hjálpa síðar en ekki núna. Það vantar hjálp núna.

130668-5189 162-26-13668

Svo bendi ég líka á söfnunarreikninga hvers og eins. Ég get staðfest þá ef þið eruð óörugg um hvort séu svindl eða ekki, ég hef ekki enn rekist á neinn sem er svindl.

Ég gef nafna mínum honum Kristjáni orðið og óska ykkur öllum sunnudags til sælu

SLYSASKOT Í PALESTÍNU

Lítil stúlka. Lítil stúlka.

Lítil svarteyg, dökkhærð stúlka

liggur skotin.

Dimmrautt blóð í hrokknu hári.

Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi

dáti, suður í Palestínu,

en er kvöldar klökkur, einn,

kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.

Svarið get ég, feilskot var það.

Eins og hnífur hjartað skar það,

hjarta mitt, ó, systir mín,

fyrirgefðu, fyrirgefðu,

anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn."

---------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.