Fara í efni

ALDUR

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20/21.01.18.
Báðir foreldrar mínir náðu 97 ára aldri. Ég man að þegar pabbi var kominn á 97. aldursárið fannst mér allir undir níræðu nánast vera börn. Og nú finnst mér sjötugt fólk vera unglingar og spyr hverjum hafi dottið í hug að senda þetta fólk á eftirlaun.
Sjálfur er ég í þessum hópi og líka ritstjóri þessa blaðs sem hélt upp á sjötugsafmæli sitt í vikunni. Við höfum verið samferða í boxhringnum í hálfa öld. Alltaf í gagnstæðum hornum en í seinni tíð getað talast við, allt í hófi þó. En jafnvel það hefði einhvern tímann þótt vera talsverð framför. Svona fer aldurinn með okkur. Maður sér í mönnum það sem maður ekki áður sá.

En það sem ég vildi sagt hafa er þó tengdara afstæðiskenningunni en aldri í árum talið. Ég er nefnilega kominn á þá skoðun og það meira að segja fyrir alllöngu að þetta tal um aldraða sé út í hött. Aldraðir eiga nefnilega fátt sameiginlegt. Sumir eru heilsuhraustir, aðrir ekki. Sumir eru ríkir, aðrir ekki. Sumir eru vinnufærir, aðrir ekki. Sumir eru fullir lífsorku, aðrir ekki.
Eigum við þá ekki frekar að tala um heilsuhrausta og heilsulausa, ríka og snauða? Framhjá því verður þó ekki horft að með aldrinum banka ýmsir kvillar upp á með ágengari hætti en fyrr á lífsleiðinni. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að tiltölulega heilsuhraust aldrað fólk sem vill lifa sjálfstæðu lífi í heimahúsum fær ekki þá þjónustu sem stjórnmálamenn hafa heitið því - stjórnmálamenn úr öllum flokkum.

Á síðastliðnu ári kom ég að máli við yfirvöldin í Reykjavík og spurði hvort unnt væri að fá aðstoð við böðun í heimahúsi fyrir hálftíræðan einstakling oftar en einu sinni í viku. Það var eins og að eiga samtal við múrvegg. Ég hugsaði að þetta yrði ekki það síðasta sem heyrðist frá mér um þetta efni.

Síðan var efnt til fundar um málefnið í Iðnó. Enn hefur ekkert hreyfst. Og enginn stjórnmálamaður sýnir þessu minnsta áhuga. Það er bara Borgarlínan sem kemst að hjá stjórnarandstöðunni og harmur Eyþórs Arnalds yfir því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu - öll sem eitt - líka blái Garðarbær og bláa Seltjarnarnes, blái Hafnarfjörður, blái Mosfellsbær og blái Kópavogur, ekkert síður en fölbleika Reykjavík - vildu fyrir nokkrum árum setja milljarð í að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það þótti mér viturleg ráðstöfun!

En aftur að heimaþjónustunni. Eftir Iðnófundinn skrifaði ég borgaryfirvöldum. Fékk að lokum svar frá stjórnsýslunni en bíð enn svars frá pólitíkinni. Stjórnsýslan svaraði nokkuð út og suður en svaraði þó. Pólitíkin þegir enn.

Svona er lífið afstætt. Gamlir flokkshestar fara að rýna í einstök málefni og gefa þá minna fyrir flokka ef brennandi áhugamál þeirra eru virt að vettugi sem hvað mig varðar eru málefni aldraðs fólks í heimahúsum; fólks sem þarf á aðstoð að halda.

En hvað varðar öldruðu unglingana sem verða sjötugir á árinu þá er ég að sjálfsögðu ekki svo blindur að ég afneiti aldrinum. Síðast þegar bekkurinn minn kom saman spurði ég konu mína hvað allt þetta gamla fólk væri að gera hérna. Og hún sagði, það sama og þú ert að gera, smelltu þér á snyrtinguna og líttu í spegil. Ég gerði það og mikið rétt, ég smellpassaði í hópinn.
Svo dönsuðum við allt kvöldið og bekkjarbræðurnir spiluðu í gömlu töffarahljómsveitinni, svolítið hrukkóttari en síðast en aldrei meiri töffarar. Og allir í fínu stuði. Alveg eins og í gamla daga. Þegar við vorum öll tvítug.
Svona er aldurinn afstæður.