Fara í efni

ÁLFAR OG ÁLVER – HVER ER MUNURINN FYRIR LAND OG ÞJÓÐ?

Blessaður Ögmundur.
Á sínum tíma, er ég var barn að aldri, trúði ég á álfa. Hvernig átti heldur annað að vera, ég sá þá með eigin augum út um allar koppagrundir, í hverjum hól og kletti, já í hverjum einasta grjóthnullungi á æskustöðvum mínum vestur í Trékyllisvík. Lengi vel velti ég því ekkert fyrir mér hvað álfarnir hefðu fyrir stafni til að hafa í sig og á. Ég sá þá aldrei gera neitt af viti, eins og sagt var til sveita í gamla daga, ég gat ekki betur séð en allan liðlangan daginn væru þeir við alls kyns leiki og annað sprell. Það var fyrst í kringum tíu ára aldurinn að ég spurði hann föður minn hvað allir þessir álfar hefðu sér til viðurværis. Drykklanga stund hugsaði hann sig um og sagði svo: “Þeir afkasta sko miklu drengur minn og verðmætin sem þeir skapa eru jafnvel meiri en sjávarútvegurinn gefur af sér og er hann þó okkar Íslendinga fengsælasti og mikilvægasti atvinnuvegur. En munurinn er sá – og það skiptir töluverðu máli að mínu viti í það minnsta -að álfarnir skila mér vitanlega engum sýnilegum verðmætum af öllum sínum útflutningi. Varan er vissulega flutt til útlanda eins og fiskurinn en borgunin fyrir hana skilar sér aldrei hingað heim. Það er nú meinið.”  
Já, þetta sagði hann karl faðir minn á sínum tíma, diktaði þetta upp í þeim tilgangi sjálfsagt að svipta mig ekki álfatrúnni. En sagan hans pabba um verðmætasköpun álfanna rifjast nú upp fyrir mér þegar annars vegar stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar tröllríður samfélaginu og á hinn bóginn skyndilega hefur nú myndast nokkurs konar “þjóðarsátt” á meðal virtustu hagfræðinga landsins þess efnis að væntanlegt risaálver í Reyðarfirði muni skila litlu sem engu í þjóðarbúið, og jafnvel minna en engu. Mig langar í framhaldi af þessum hugleiðingum mínum að spyrja þig hvern muninn þú, Ögmundur, sérð helstan á uppdiktaðri framleiðslu og verðmætasköpun álfanna í Trékyllisvík forðum og svo væntanlegum vaxandi umsvifum áliðnaðarins sem birtist okkur þessi misserin, til að mynda með risavöxnum hætti á Austurlandi. Er ekki hreinlega skynsamlegra – þegar öllu er til skila haldið og á botninn hvolft – að trúa á álfa fremur en álver? Og ef vera skyldi að sú sé einmitt niðurstaðan, og sem mér sýnist alla vega blasa við, finnst mér gefa augaleið og algerlega meinlaust að reikna út og hafa með í þjóðhagsreikningunum okkar meint framlag þeirra til landsframleiðslunnar svo við sjáum á þeim pappírum góðan vöxt og mikinn viðgang. En einmitt slík atriði virðast skipta svo marga máli þótt virðisaukinn til landsmanna, með öðrum orðum afraksturinn, sé lítill sem enginn. Með bestu kveðju og fyrirfram þökk,
Þorsteinn Þjóðólfsson,
fyrrverandi sjómaður

Heill og sæll Þorsteinn og þakka þér fyrir umhugsunarvert bréf þitt. Álfar eða álver, hver er munurinn fyrir land og þjóð, spyrð þú. Ætli munurinn sé ekki einkum sá, að álfarnir fari vel með landið, nokkuð sem ekki verður sagt um álfólkið. Vaxandi efasemdir eru um að álfólkið skili virðisauka inn í efnahagslífið, einsog þú nefnir, en auk þess eru náttúruspjöll af völdum þess mikil. Ég ætla að leyfa mér að láta því ósvarað hve mikinn ég telji virðisaukann vera af "leikjum og sprelli" állfanna. Ég er þó þess fullviss að engu valda þeir tjóninu. Annars hef ég verið að reyna að ráða í djúpar hugrenningar föður þíns. Ekki er ég sannfærður um að hann hafi talið sig vera að dikta neitt upp einsog þú nefnir. Hvort það er hins vegar rétt hjá honum að framleiðsla álfanna hafi aldrei skilað sér í "borgun" til þjóðarinnar, efast ég um. Ósnortin náttúra skilar sér nefnilega í ríkulegri borgun sem færa má inn í þjóðhagsreikninga eins og þú gerir reyndar tillögu um. Þarf þá ekki annað en nefna ferðaiðnaðinn. Annars held ég að pabbi gamli kunni að hafa verið að hugsa um verðmæti sem ekki verði færð í debet og kredit kladdann. En hvað um það ég efast um að ég treysti mér til að taka þetta mál upp við komandi fjárlagaumræður á Alþingi - alla vega ekki með skírskotun til álfa. Þó er aldrei að vita, hvað gerir maður ekki til að gleðja álfólkið í Framsókn?
Kveðja,
Ögmundur