ALFRED DE ZAYAS UM JAKOB Þ. MÖLLER
Fyrir nokkrum árum fór ég til Genfar í Sviss sem fulltrúi þings Evrópuráðsins á stjórnarfund í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, og síðan á þing Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, sem haldið var í tengslum við þennan fund.
Þetta reyndist sögulegur fundur í mínum reynsluheimi því þarna fékk ég innsýn í hve fjarri lýðræðinu Alþjóðaviðskiptastofnunin er og þeir sem þar helst koma við sögu á stjórnarfundum. Fékk ég orð í eyra frá fulltrúa Evrópusambandsins sem var sá alversti og vildi af engu öðru vita en samræmdum gæsagangi þegar kæmi út fyrir dyr fundarins. Þannig var ætlunin að fá Alþjóðaþingmannasambandið til að leggja blessun sína yfir samþykkt WTO en helst án umræðu. Mér er eftirfarandi minnisstætt úr munni fulltrúa Evrópusambandsins í lok stjórnarfundarins hjá WTO: “Okkar samþykktum má í engu breyta, ekki einu sinni kommusetningunni.”
Ég lét ekki segjast og fór mínu fram þegar kom á þing Alþjóðasambandsins og hélt þar mínar tölur, gagnrýnar á þessa stofnun heimsauðvaldsins. Þetta átti eftir að hafa sínar afleiðingar sem ég læt liggja á milli hluta að sinni.
En hitt rifjast upp í dag á útfarardegi Jakobs Þ. Möller, fyrrum stjórnanda hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (gegndi þar um langt árabil ýmsum lykilstörfum), að til mín kom maður að nafni Alfred de Zayas, náinn samstarfsmaður Jakobs hjá Sameinuðu þjóðunum.
Hann sagðist vilja segja mér frá starfi þessa landa míns sem hann hefði unnið með að ýmsum verkefnum, saman höfðu þeir skrifað greinar og skýrslur í nánu samstarfi. Það var þó fyrst og fremst þau jákvæðu áhrif sem Jakob hefði haft sem stjórnandi hjá Sameinuðu þjóðunum bæði á sig og samstarfsmenn sína sem hann vildi segja mér frá.
Þetta rifjast upp nú þegar ég les minningargreinar um Jakob Þ. Möller sem birtust í Morgunblaðinu í dag. Ljóst er af þeim að Jakob hefur haft djúptæk áhrif í starfsumhverfi sínu. Bera samstarfsmenn honum frábæran vitnisburð.
Bók sína, Building a Just World Order tileinkar Alfred de Zayas þessum vini sínum með þessum orðum úr enskri útgáfu bókarinnar sem ég birti hér mynd af:
Þess má geta að Alfred de Zayas kom fram á fundi í fundaröðinni Til róttækrar skoðunar í lok september á síðasta ári og birti Samstöðin þá viðtal við hann:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/alfred-de-zayas-fyrir-fullu-husi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/zayas-fra-safnahusi-i-samstodina
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/