Fara í efni

ALFRED DE ZAYAS VILL UPPRÆTA TVÍSKINNUNG OG GEÐÞÓTTA Í ALÞJÓÐASAMSKIPTUM

Í samráði við Alfred de Zayas birti ég í dag í dálkinum Frjálsir pennar tvær mjög áhugaverðar greinar eftir hann um þær áskoranir sem alþjóðakerfið stendur frammi fyrir. Alfred de Zayas hélt fyrirlestur i fundaröð minni Til róttækrar skoðunar undir lok september síðastliðinn þar sem hann fjallaði um stöðuna í alþjóðmálum og þá hvort alþjóðakerfið ætti sér viðreisnar von. Alfred de Zayas er vongóður um að svo sé en margt þurfi þó að breytast.

Alfred de Zayas talar af mikilli reynslu úr innsta hring Sameinuðu þjóðanna sem óháður sérfræðingur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í alþjóðamálum og ritari nefndarinnar um árabil.

Þess má geta að Karl Héðinn Kristjánsson tók ítarlegt viðtal við Alfred de Zayas fyrir Samstöðina þegar hann kom higað í haust og má nálgast viðtalið hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/zayas-fra-safnahusi-i-samstodina

Greinarnar sem ég birti hér á síðunni í Frjálsum pennum birtust báðar í desember í vefritinu Counter Punch.

Hér að neðan er þýðing mín eða samantekt á annarri greininni en báðar greinarnar er að finna í heild sinni hér á ensku: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/international-law-a-la-carte-and-enforcing-united-nations-rulings

 

ALÞJÓÐALÖG SAMKVÆMT GEÐÞÓTTA

Alþjóðalög þjóna því aðeins tilgangi sínum að þau séu virt af alþjóðasamfélaginu, málsaðilar velji ekki og hafni að geðþótta, eitt í dag, annað á morgun. Staðreyndin er sú að stundum eru háværar raddir um brot á alþjóðalögum, í öðrum tilvikum ríkir víðtæk þögn um sambærileg lögbrot. En minnumst þess að þögn er sama og samþykki. Þannig er hægt að gerast sekur um brot á alþjóðalögum með þögninni ef ekki lagslega, þá í það minnsta siðferðilega.

Vandinn er sá að lög og samningar á vegum Sameinuðu þjóðanna, Allsherjarþingsins og Mannréttindaráðsins og margra alþjóðlegra stofnana eru undirorpin hræsni og tvöfeldni. Þegar stjórnmálamenn og fréttamenn gerast sekir um slíkt, velja hvað þeim hentar eins og á matseðli, þá er grafið undan lögmæti og trúverðugleika alls þessa kerfis. Fyrir bragðið veikist allt sem kalla má alþjóðalög.

Forgangsröð skiptir máli í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Í því samhengi er horft til þess sem tekið er á dagskrá Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og í Mannréttindaráðinu. Það er viðfangsefni okkar allra að halda þessum stofnunum við efnið, að þær geri það sem ætlast var til að þær gerðu samkvæmt stofnsamþykktum.


Að komið sé til varnar (Responsibility to Protect)

Ef ákvæði sem lúta að skyldu til að koma kúguðum til varnar hefði verið til að reiða sig á hefði Ísrael ekki komist upp með að virða að vettugi rétt Palestínumanna til sjálfstjórnar, hvað þá að horft væri framhjá fangelsunum, brottrekstri frá heimkynnum með valdbeitingu og kynþáttaofsóknum í þeirra garð. Dæmin eru fleiri, Nagorno Karabakh, þjóðernisofsóknir í Vestur-Sahara, í Biafra, Sri Lanka, gegn Kúrdum í Tyrklandi, Írak og Sýrlandi …

Án efa voru efni til að ákæra fjölda stjórnmálamanna fyrir glæpi sem tengdust hernaðarofbeldi í Írak og Afganistan en aldrei kom slík kæra fram. Og þegar rannsóknir voru hafnar á glæpum í Afganistan og Palestínu beið þeirra það eitt að verða stöðvaðar. Ákærur hafa hins vegar beinst gegn Afríkumönnum í hlutfallslega ríkari mæli en gegn öðrum og svo andstæðingum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sérstaklega, þar á meðal Vladimir Putin. Þess vegna kom það sem þruma úr heiðskýru lofti þegar Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn gaf út ákæru á hendur Netanyahu og leiðtogum Hamas.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða

Við hæfi væri að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna tæki sjálfsákvörðunarrétt þjóða sérstaklega fyrir. Mikill fjöldi fólks í öllum álfum heimsins er neitað um þennan rétt og margir láta lífið í baráttu fyrir þeim rétti. Það verður að skiljast að ekki nægir að losna undan nýlenduánauð þvi rétturinn til sjálfsákvörðunar nær lengra og tekur til allra. Ég minni á það sem ég lagði til árið 2013, að Sameinuðu þjóðirnar ættu að taka við beiðnum allra sem nytu ekki réttar til sjálfákvörðunar, byggju við hernám, kynþáttastefnu eða hvers kyns mismunun á grundvelli þjóðernis eða kynþáttar. Ég vísa til Kúrda, Katalóníumanna, Bíafra …

Framfarir og afturför

Nú á dögum eru heimurinn í uppnámi en vel að merkja, varla þó meir en á átjándu, nítjándu og tuttugustu öldinni. Í það minnsta brennum við ekki meintar nornir, hrannvíg á indíanaþjóðflokkum heyra sögunni til, þrælaverslun var afnumin og nýlenduáþjánin minni en áður var. Lagabálkar og samþykktir um mannréttindi á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa fært okkur fram á veg. Réttindi kvenna - helmings mannkynsins – eru stórbætt frá því sem áður var og réttarstaða fólks með fötlun er einnig stórum betri. Við fögnum því að dauðarefsingar skuli vera á undanhaldi.

En um sumt miðar aftur á bak. Rétturinn til þess að fá búið við frið er ekki eins afdráttarlaust viðurkenndur sem mannréttindi og áður var og réttur til að fá að vita sannleikann og tala um hann opinskátt á einnig undir högg að sækja. Ríkisstjórnir og fjölmiðlar ritskoða og sjálfsritskoðun breiðist nú út eins og bráðsmitandi plága. Andúð á Islam og öllu því sem rússneskt er eða kínverskt verður sífellt stækari og mansal, þar á meðal barna er í tugmilljónum talið. Gildi kennd við trú og fjölskyldu eiga ekki upp á pallborðið.

Stofnanir sem eiga að gæta allra þessara réttinda hafa margar hverjar verið teknar yfir og eru misnotaðar í heimsyfirráðastríðinu sem háð er. Þar vísa ég til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindadómstóls Evrópu (ECHR), Stofnun gegn útbreiðslu efnavopna, OPCW … en allar þessar stofnanir hafa of oft látið misnota sig í valdaafli heimsins í sað þess að gera það sem þeim var og er ætlað, nefnilega að standa vörð um sannleika og mannréttindi – alltaf í þágu fórnarlambsins. Lærdómurinn er sá að okkur einum - almenningi - er treystandi til að standa þessa vakt. Og það ber okkur að gera í heimi þar sem fjölmiðlar segja okkur ósatt. Gegn þessu verðum við að rísa og verja lýðræðið.

Sannleiksráðuneyti , Ministry ogf Truth, eins og var að finna í bók Orwells,1984, er hvorki það sem við þörfnumst né sækjumst eftir. En erum við ef til vill þegar stiginn inn í óhugnað veruleika Huxleys í Veröld ný og góð, Brave New World ?

Forvarnir eða refsing?

Hryggilegt er hve ákaft vestræn ríki hafa í seinni tíð lagt áherslu á refsingu, að gjalda líku líkt, grýta bersyndugu konuna, ofsækja með ranglátri beitingu laga andófsmanninn og þann sem uppljóstrar um glæpi.

Hafi kristin trú kennt okkur eitthvað þá er það að skilja þau sannindi að forsenda þess að vera fyrirgefið er sú að sjálfur fyrirgefi maður sínum skuldunautum. Þrátt fyrir þetta er viðkvæðið hjá stjórnmálamönnum og mörgum frjálsum félagasamtökum á þá lund að sakaruppgjöf sé í hæsta máta fordæmanleg og að það sé nánast móðgunarefni að vilja friðmælast, þótt á kjarnorkuöld sé það eina vitiborna afstaðan þegar deilur rísa. Þá er einmitt þörf á samræðu og málamiðlunum.

Refsing læknar ekkert sár og engan mann. Mjög oft eru brot á alþjóðalögum og mannréttindum hreinlega ólæknandi. Það sem mestu máli skiptir er að koma í veg fyrir bot á alþjóðlögum og mannréttindum og koma jafnframt upp viðvörunarkerfi svo taka megi a vandamálum áður en þau verða ógn við öryggi og frið. Í þessu skyni þarf einnig að stuðla að trausti með samræðum og brúarsmíði, með öðrum orðum búa í haginn fyrir friðsamleg samskipti. Ef við viljum frið verðum við að vera friðsamleg í háttum okkar, si vis pacem, para pacem. Sakaruppgjöf er ekki slæm í sjálfu sér. Stundum greiðir sakaruppgjöf hreinlega fyrir sáttum. Hefnd stríðir gegn kjarna siðmenningar og refsing er ekki hyggileg leið til lausnar vandamálum.

Er von um betri tíð?

Ef við aðeins viljum breyta rétt er full ástæða til bjartsýni. Það er í höndum okkar að þrýsta á stjórnvöld að krefja stofnanir Sameinuðu þjóðanna um ólhlutdrægni og heiðarleg vinnubrögð.
Þekking á því hverjar eru rætur deilumála auðvelda lausn þeirra og kemur fyrir bragðið í veg fyrir stríðsátök. Forðast ber ögranir og stigmögnun illinda. Þá er þörf á sjálfsgagnrýni svo leiðrétta megi eigin mistök.

Áramótaheit fyrir komandi ár ætti að vera ásetningur um að stuðla að friði í stað ófriðar og tala máli sannleikans. Þar með styrkjum við grunnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem stjórnarskrá hreimsbyggðarinnar og þeirri viðleitni munum við að nýju finna andann í Mannréttindayfirlýsingu hinna Sameinuðu þjóða.

-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.