ALLAR UPPLÝSINGAR VERÐA AÐ KOMA FRAM
Sæll Ögmundur.
Það er alveg rétt sem þú skrifar að nú ríður á að hver þingmaður skoði samvisku sína í Icesave málinu. Það á ekki síður við um VG þingmen nen aðra. Hefur þú kynnt þér fréttatilkynninguna frá InDefence hópnum og fylgiskjöl hennar sem allir þingmenn fengu í pósthólf sín í þinginu á mánudaginn síðasta? Þar er velt upp fjölmörgum spurningum sem er grundvallaratriði að þingmenn krefjist svara við áður en þeir ákveða hvort þeir samþykkja eða hafna samningnum. Ég hvet þig eindregið til að kynna þér málið vel og reyna að sjá til þess að þingmenn fái samninginn í hendur ásamt öllum fylgigögnum, þegar málið verður tekið til umræðu á þingi. Alþingi má ekki haga sér eins og hugsunarlaus afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, allar upplýsingar þurfa að koma fram og svo þarf hver þingmaður að greiða atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu.
Kveðja,
Jóhannes Þ. Skúlason, sagnfræðingur og kennari
Þakka bréfið. Ég reyni að kynna mér málið í þaula.
Kv.,
Ögmundur