Fara í efni

Allir geti smíðað sér gæfu

Viðtal í VG Umbúðalaust, kosningablaði VG í Reykjavík 

Hver er sinnar gæfu smiður, ekki satt?


Mér var innrætt í æsku að lífið byrjaði ekki á morgun heldur væri það byrjað og að allt skipti máli og okkur bæri að nýta tímann vel. Við verðum að láta gott af okkur leiða. Lífið er hinsvegar að hluta háð aðstæðum og margt í því sem við ráðum ekki við. Við fæðumst inn í mismunandi aðstæður, sumir í fátækt, aðrir í auðlegð og að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á hvaða möguleika við höfum til að móta líf okkar. Á vegi margra eru fjölmargir þröskuldar. Þá þarf að fjarlægja svo allir geti smíðað sér gæfu. Það er líka sameiginlegt verkefni. Okkur líður öllum betur ef við byggjum á samkennd en ekki einkahyggju.

Er það ekki bjögun á skattkerfinu að láta hátekjufólk borga meira en lágtekjufólk?

Það er ekki bjagað að ætlast til þess að þeir sem hafa mestar tekjurnar greiði meira til samfélagsins en hinir. Fyrir VG er þetta skýr stefna. Við tölum um réttlátt þjóðfélag og að þeir sem eru aflögufærir greiði meira en hinir sem hafa lítið á milli handanna. Oft vill gleymast til hvers við leggjum á skatta. Það er annars vegar til þess að ríki og sveitarfélög geti staðið straum af kostnaði við tiltekna þjónustu og hins vegar til þess að jafna kjör. Ef fjármálaráðherrann telur skattkerfið ekki vera tæki til kjarajöfnunar þá er það pólitísk sannfæring sem ég deili ekki með honum. Mest af því sem ríki og sveitarfélög annast er þjónusta sem við getum ekki verið án svo sem skólar og leikskólar, heilbrigðiskerfi, löggæsla og svo stoðkerfi á borð við orku, vatnsveitur og rafmagn. Ef við höfum ekki skatta þá greiða notendurnir fyrir þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Það er mín skoðun að það sé hagkvæmara og réttlátara að beita skattheimtu auk þess sem það kemur í veg fyrir félagslega mismunun. Þorvaldur í Síld og fiski var um árabil skattkóngur Reykjavíkur og að sögn var hann stoltur af því að greiða mikið til samfélagsins. Geir Haarde grætur sérstakar álögur á hátekjufólk og kallar það bjögun. Ég deili ekki sorg hans.

Eru orðin val og frelsi bannorð hjá Vinstri grænum?

Nei, alls ekki. Þvert á móti viljum við að fólk búi við eins mikið val og frelsi og unnt er en höfnum frelsi fárra einstaklinga til að ráðskast með okkur hin. Það gerist ekki af sjálfu sér hvernig þessum málum er fyrir komið. Frá 1991 hefur Sjálfstæðisflokkurinn, fyrst með Alþýðuflokknum og síðan með Framsókn, stigið fjölmörg skref í þá veru að auka þetta frelsi fárra á kostnað fjöldans.

Francis Fukuyama skrifaði fræga bók fyrir nokkrum árum sem heitir Endalok sögunnar og telur þar sögunni lokið í þeim skilningi að ekki sé lengur tekist á um grundvallaratriði í samfélagsgerðinni heldur séu ákvarðanir teknar í búðinni þar sem við veljum þvottaefnistegund. Þessi skilningur á valfrelsi er að mínu áliti grunnur. Við viljum ekki að val okkar einskorðist við að velja tegundir í versluninni heldur að við höfum áhrif á umhverfi okkar og þjóðfélagið í heild. Nú höfum við til dæmis verið gerð að þátttakendum í stríði án þess að hafa verið spurð. Við í VG vildum þjóðaratkvæði um svæðið norðan Vatnajökuls og hvort þar ætti að virkja í þágu Alcoa. Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn. Við erum talsmenn lýðræðisins og viljum opna fólki leiðir til þess að hafa miklu meiri áhrif og hafa meira að segja um sitt líf. Svo má í því sambandi velta því fyrir sér hversu mikið val sé fólgið í því að bjóða litlu samfélagi úti á landi þungaiðnað, hversu mikið val í atvinnumálum sé þar á ferðinni.

Hvernig má það vera að kaupmáttur hafi aukist og fátækt á sama tíma?

Við megum ekki láta meðaltölin villa okkur sýn. Staðhæft er af hálfu ríkisstjórnarinnar að hér hafi orðið almenn kaupmáttaraukning. Á sama tíma höfum við fjölmörg dæmi um fátækt fyrir augunum. Jafnvel þótt samfélagið hafi notið jákvæðrar hagsveiflu sem hefur ríkt á Vesturlöndum undanfarin ár þá hefur gjáin breikkað milli ríkra og fátækra. Fólk þarf sífellt að borga meira fyrir húsnæði, lyf og heilbrigðisþjónustu og það langt umfram títtnefnda kaupmáttaraukningu. Við erum ekki að tala um meirihlutann heldur afmarkaða hópa. Ef við einblínum á meðaltöl hættir rödd þeirra að heyrast. Við þurfum að skilgreina þessa hópa og átta okkur á því í hverju vandinn liggur. Það er staðreynd að nú er dýrara að vera veikur og afla húsnæðis en áður var. Félagslega húsnæðiskerfið var rústað 1998 og fólk er að súpa seyðið af  þeirri ákvörðun. Við getum reiknað okkur blá í framan en staðreyndin er sú að þetta er nokkuð sem er erfiðara en fyrir tíu árum. Við viljum leysa þennan vanda á komandi kjörtímabili. Við viljum velferðarstjórn og slík stjórn á mikið verk fyrir höndum. Réttlátt samfélag er það sem við viljum sjá, samfélag þar sem fólk finnur fyrir sanngirni. Slíkt samfélag er kraftmeira en samfélag þar sem fólki finnst ranglæti ríkja.

Það er skemmtilegri heimur sem byggist á því að allir reyni að láta gott af sér leiða með það að meginmarkmiði að hafa gaman af því að vera til. Það er áhugavert að Geir Haarde skuli taka sér þetta orð, bjögun í munn. Orðið á í rauninni við verk þessarar ríkisstjórnar sem hefur ríkt undanfarin ár. Sífellt oftar eru menn orðlausir yfir framkomu hennar við fólk og stofnanir.

Flokkar sem hafa fylgt einkavæðingarstefnunni eins og Framsókn kalla sig miðjuflokka og vilja láta kenna sig við hófsemi. En er eitthvað sérstaklega hófsamt við það hvernig flokkurinn hefur selt og gefið almannaeiginir? Ég fæ ekki betur séð en þetta sé hrá hægri stefna. Alþýðuflokkurinn sem er hrygglengjan í Samfylkingunni studdi margar kerfisbreytingar sem við erum enn að súpa seyðið af og þá sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Á tíma Viðeyjarstjórnarinnar var mikið rætt um kostnaðarvitund sjúklinga og aukin áhersla á gjaldtöku. Þetta er vissulega liðin tíð en vert að hafa í huga þegar við skoðum flokkakerfið í heild. Það er mikill munur á VG og öðrum flokkum að því er varðar grundvallaratriði af ýmsu tagi. Í því sambandi er vert að nefna deilu nú í þinglok um einkavæðingu vatnsveitnanna þar sem við töluðum gegn slíku en Samfylkingin var á öðru máli. Um mismunandi afstöðu til slíkra grundvallarþátta þarf að upplýsa kjósendur.

Má ekki einkavæða neitt?

Við höfum dregið línuna við grundvallarþjónustuna; heilbrigðiskerfið, menntun, samgöngumannvirki o.s.frv. Við höfum ekki lagst gegn því að atvinnufyrirtæki sem stofnað var til með samfélagslegu átaki á sínum tíma verði sett á markað. Við höfum hins vegar oftar en ekki gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að slíkri einkavæðingu og nefni ég þar Síldarverksmiðjur ríkisins sem voru í rauninni gefnar. Einkavæðing snýst um meira en eignarhald. Hún snýst um breytt markmið með rekstrinum. Markmiðin verða sköpun arðs fyrir eigendurna en ekki fyrst og fremst þjónusta. Þetta getur bitnað á þeim sem nýta sér þjónustuna og verður auk þess margfalt dýrar fyrir skattgreiðendur. Ýmis félagasamtök hafa rekið sjúkrastofnanir og dvalarheimili aldraðra án þess að hafa gróðasjónarmið að leiðarljósi, svo sem DAS og SÍBS. Allir fjármunir fara til uppbyggingar og bættrar þjónustu. Þannig að eignarhaldið skiptir ekki sköpum heldur markmiðið með rekstrinum.

Eigum við ekki að standa með Bandaríkjunum eins og þau hafa alltaf staðið með okkur?

Ég á erfitt með að koma auga á það að þau hafi alltaf gert það. Auk þess finnst mér forkastanleg  sú hugsun að milliríkjasamskipti snúist um hagsmunagæslu á báða bóga og kaup kaups en ekki það hvað okkur finnst gott og æskilegt á hverjum tíma. Þessi viðhorf ríkisstjórnarinnar eru gömul kaldastríðsviðhorf eins og þau birtast í sinni hráustu mynd. Afstaðan snýst þá um að velja sér herveldi til að halda með. Vopnlaus þjóð ætti ekki að hugsa eftir þessum brautum, reyndar engin þjóð. Stærð þjóða birtist í siðferðisstyrk þeirra. Við eigum að fylgja sannfæringunni um það sem okkur finnst rétt og sanngjarnt en ekki út frá sérhagsmunaútreikningum. Sleikjuskapur og sölumennska eru ekki sæmandi þjóð sem hefur sjálfsvirðingu. Rödd Íslands á að vera rööd réttlætis og lýðræðis.

Ertu alltaf að hugsa um pólitík?

Nei, en ég hugsa að vísu heilmikið um pólitík í víðasta skilningi þess orðs. Pólitík tekur til samfélagsins alls og hugmynda okkar um rétt og rangt og önnur siðferðileg gildi. Ég hef mikinn áhuga á meginstraumum í pólitík á heimsvísu en á mörg önnur áhugamál. Ég les mikið af alls kyns bókum, blöðum og tímaritum, hlusta á tónlist allt frá Bach til Sigurrósar og svo hef ég gaman af því að ferðast á ónumdar slóðir. Í starfi mínu sem fréttamaður kom ég víða, meðal annars að landamærum Afghanistan og á hungursvæði Eþíópíu upp úr 1980. Það var ógleymanleg reynsla. Síðar var konan mín í Suður-Frakklandi í tengslum við starfið svo ég átti kost á því að kynnast því svæði. Mér fannst það heillandi og áhugavert eins og reyndar Suður-Evrópa öll. Suðræn óreiða er mér að skapi og fellur mér betur en reglustrikulífið sem tíðkast sums staðar norðar í álfunni. Ég var sérlega heillaður af Norður-Spáni, Baskahéruðunum þar sem mér féll vel bæði menningin og loftslagið. Samt er alltaf best að ferðast um Ísland. Sérstaklega finnst mér gaman að sýna landið sem vekur yfirleitt áhuga og hrifningu hjá erlendum gestum.

Ég gæti vel hugsað mér önnur viðfangsefni en pólitík en það hefur verið mitt hlutskipti að sinna slíkum verkum ásamt störfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Þetta geta verið skemmtileg störf og það á við bæði um hina almennu pólitísku stefnumótun og varðandi útfærslur. Það er  mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig koma eigi hugmyndum í framkvæmd. Hjá VG hefur verið lögð mikil vinna í slíkar aðgerðaáætlanir. Við verðum að þekkja leiðina að markmiðunum.