Fara í efni

ALLIR SENDIBOÐAR HIMNARÍKIS Á FJÁRLÖGUM?

Erindi á fundi SARK – Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju 05.03.05.
Ég var beðinn um að svara því á þessum fundi hvaða skýringar ég teldi vera á því að það virtist pólitískt viðkvæmt að ræða spurninguna um aðskilnað ríkis og kirkju.
Svar mitt er á þá lund að viðfangsefnið er nokkuð flókið og að ýmsu að hyggja þegar framtíðarstefna í afstöðu hins opinbera til trúmála almennt er mótuð. Málið er tilfinningaþrungið og af þeim sökum viðkvæmt – líka pólitískt.

Ég sá í orðsendingu þar sem þessi fundur er auglýstur að einn málshefjandinn um þetta fundarefni væri tvístígandi. Þar var greinilega vísað til mín. Þetta eru orð að sönnu. Sannast sagna er ég mjög þenkjandi yfir því hvernig eigi að snúa sér í þessu máli því mér finnst ekki liggja í augum uppi hvernig við eigum að bera okkur að þótt ég velkist ekki í nokkrum vafa um hvert sé takmarkið.

Og einmitt þannig held ég að rétt sé að nálgast viðfangsefnið: Með því að skilgreina að hvaða markmiðum við viljum vinna: Í mínum huga hlýtur takmarkið að vera að skapa víðsýnt og umburðarlynt samfélag; samfélag sem virðir lýðræðislegan og einstaklingsbundinn rétt; samfélag sem skapar ekki einum rétt á kostnað annars. Ljóst er að í núverandi skipulagi er slíkum grundvallaratriðum ekki fullnægt og því þörf á að gera á því breytingar. Spurningin er  svo aftur hverjar þær breytingar eigi að vera og þá ekki síður hvernig þeim skuli hrundið í framkvæmd. Þar hvet ég til mikillar yfirvegunar því ýmsum spurningum þarf að svara um hvernig við viljum haga samskiptum ríkis og trúarhreyfinga almennt í framtíðinni. Ef útgangspunkturinn er sá að  réttlætinu verði þá fyrst fullnægt að öllum trúarbrögðum og trúflokkum verði tryggð sama aðstaða og stuðningur og kristin kirkja hefur haft þegar best hefur látið, þá gæti þessi nálgun leitt til meiri trúvæðingar í samfélaginu en við höfum þekkt til þessa þótt fjölbreytnin væri vissulega meiri. Hin varfærnari og þess vegna íhaldsamari nálgun byggir á því að draga fremur úr en bæta í.  

Í þeim tilgangi að freista þess að dýpka umræðuna ætla ég að byrja á því að varpa fram þremur grundvallaratriðum sem öll ber að hafa í huga í þessari umræðu – en tvö hin síðarnefndu kunna að stangast á.

1) Í fyrsta lagi ber að virða skoðanafrelsi og þar með trúfrelsi

2) Í öðru lagi ber að virða meirihlutavilja

3) Í þriðja lagi ber að virða vilja og óskir minnihluta

Þessi þrjú grundvallaratriði þarf öll að hafa í huga þegar unnið er að þeim markmiðum sem skilgreind eru hér að framan. Vandinn er að finna fyrirkomulag, sem byggir á þessum þremur grundvallaratriðum.

Stillum upp dæmum:

Hugsum okkur í fyrsta lagi fyrirkomulag þar sem ríki og kirkja eru í einni sæng. Kirkjan er hluti af stofnanaveldi samfélagsins – hún giftir og grefur – biskup birtist á jólaskjánum – þingmenn ganga til kirkju og  hlýða á messu, svo dæmi sé tekið þar sem kirkjan kemur við sögu í umgjörð opinberra athafna.

Hugsum okkur í öðru lagi fyrirkomulag þar sem ríki og kirkja eru í einni sæng, kirkjan hluti af stofnanaveldinu en núna mjög ágeng. Bænahald er stundað í skólum, öll tækifæri notuð til að innræta nemendum kristna trú, námsefni í skólum er sett í trúarlegt samhengi og mót eftir því sem kostur er; þingmenn, svo enn sé tekið dæmi úr stofnanaumhverfinu, ganga til kirkju þar sem þeir hlýða á messu en þar sem jafnframt er ætlast til að þeir fari með trúarjátningu.

Hugsum okkur í þriðja lagi fyrirkomulag þar sem ríki og kirkja eru ekki í einni sæng. Trúarbrögðin fá hins vegar sinn sess í þjóðlífi, þar með í skólum. Á grundvelli forréttinda kirkjunnar frá fyrri tíð hafa nú öll trúarbögð fengið tilkall til samsvarandi stuðnings og kirkjan hafði, til að fjármagna trúfélög og safnaðarstarf og samsvarandi aðgengi að ungum sem öldnum í öllum stofnunum samfélagsins frá leikskóla til elliheimilis.

Hugsum okkur í fjórða lagi fyrirkomulag þar sem ríki og kirkja eru ekki í einni sæng. Trúarbrögð, engu síður en heimspekileg fræðsla,  fá sinn sess í  þjóðlífinu þar með í skólum sem hluti af kennslu í trúarbrögðum, siðfræði og sögu. Hér er hins vegar öllu mjög í hóf stillt.

Síðastnefnda myndin sem hér er dregin upp er mynd af mínu óskalandi. En mátum það nú inn í fyrrnefndar þrjár grunnkennisetningar um trúfrelsi, lýðræðislegan vilja og óskir minnihlutahópa.

Karl Marx sagði réttilega á sínum tíma að við ættum ekki að hugsa um það eitt að lýsa heiminum, viðfangsefnið væri fyrst og fremst að breyta honum. 
Eins er það að sjálfsögðu í þessu efni. Við eigum að vera trú sannfæringu okkar og ef því er að skipta berjast fyrir því að minnihlutavilji verði að meirihlutavilja. Engu að síður er það svo að fram undir þetta hefur meirihlutavilji Íslendinga staðið til þess, samkvæmt könnunum, að hér séu ríki og kirkja í einni sæng. Þessi viðhorf virðast vera að breytast og færast í þá átt að meirihlutinn vilji aðskilnað eða aðgreiningu. Í einni könnun kom fram munur á því hvort fólk var spurt um aðskilnað eða aðgreiningu. Fleiri voru hlynntir aðgreiningu en aðskilnaði, sem bendir til þess að menn vilja fara hægt í sakirnar. Ef það er svo, sem virðist vera að gerast samkvæmt nýjustu könnunum, að meirihluti fólks vilji aðgreiningu á ríki og kirkju, þá er það staðreynd sem verður að horfa til. 

Hér eru líka til þau viðhorf, sem sannanlega eru minnihlutaviðhorf, en iðulega mjög eindregin hjá þeim sem þau hafa, að alls ekki eigi að úthýsa kristinni trú og þess vegna ekki heldur öðrum trúarbrögðum út úr daglegu lífi skólans.  Meira að segja eru þau  viðhorf til að ganga eigi í gagnstæða átt og að trúarlíf eigi að fá ríkulegri aðgang að stofnunum, skólum og öllu opinberu lífi en nú er. Þessi viðhorf eru síður en svo einskorðuð við einhver ein trúarbrögð. Verði okkur úthýst úr skólum og stofnanalífi, segir þessi hópur, hljótum við, með hliðsjón af þeim grunnreglum sem halda beri í heiðri um trúfrelsi og virðingu fyrir rétti minnihlutahópa, að fá að stofna sérstaka skóla með áherslu á viðkomandi trúarbrögð með öflugum styrk frá ríkinu og ekki minni en almennir skólar fá.

Þetta viðhorf er vissulega til staðar hér á landi og hefur íslenkst samfélag svarað því, til dæmis með því að styrkja kaþólskan skóla í Reykjavík. Ekki er hann hverfisskóli en stuðningurinn byggist á þessari almennu afstöðu um að virða beri vilja fólks og er óháð því að hvort vilji fólks tengist trúarbrögðum eða skólastefnu. En hversu langt værum við reiðubúin að ganga í þessu efni?

Hirsi Ali er þingmaður í Hollandi. Hún er upprunnin í Sómalíu en faðir hennar hafði átt erfitt uppdráttar þar sem stjórnarandstæðingur og flúið land. Svo er að skilja að fjölskyldan hafi verið strangtrúaðir múslímar og auk þess farið að innlendum siðvenjum í Sómalíu í hvívetna. Þannig var Hirsi Ali umskorin þegar hún var ung stúlka og hefur hún sagt frá því að það hafi ekki verið fyrr en hún kom í nýtt umhverfi í Afríkuríkinu Kenýa að það hafi runnið upp fyrir sér að þetta væri ekki nokkuð sem allar konur yrðu að þola. Þegar tímar liðu gerist Hirsi Ali – sem enn er þó ung að árum - sífellt gagnrýnni á þá veröld sem hún hrærðist í og þegar til Hollands var komið fór hún að blanda sér í þjóðfélagsumræðuna af krafti. Mjög beindi hún spjótum sínum að harðlínu múhameðstrúarmönnum og gagnrýndi jafnframt hollensk yfirvöld fyrir misskilið umburðarlyndi gagnvart þeim. Það væri til dæmis rangt að veita strangtrúuðum múhameðstrúarmönnum heimild til að reka eigin skóla, það yki á aðgreiningu og æli á hatri og fordómum. Fljótlega fór hin galvaska baráttukona að fá hótunarbréf og sendiherrar Saudi-Arabíu, Pakistans, Malasíu og Súdans gengu á fund formanns Sósíaldemókrataflokksins hollenska (PVDA) og óskuðu eftir því Hirsi Ali yrði vísað úr flokknum. Hann svaraði þeim kurteislega og sagði að hún talaði á eigin ábyrgð og menn yrðu að virða tjáningarfrelsið. Þessi viðbrögð líkaði hinni ungu baráttukonu illa; hún sagði sig úr flokknum og gekk til liðs við heldur hægri sinnaðri stjórnmálaflokk sem hún taldi standa betur vörð um hugsjónir sínar. Gagnýni Hirsi Ali á sinn fyrrum formann var sú að honum hefði borið að taka upp vörn fyrir sína hönd. Hún segist þreytt á linkulegri afstöðu margra Evrópumanna til mannréttindabrota í hinum múslímska heimi. Múhameð, segir hún, reyndi að fá einnar konu sinnar, Aishu, þegar hún var aðeins sex ára. Vegna andstöðu föður barnsins gat ekki af ráðahagnum orðið fyrr en stúlkan var 9 ára!  Hirsi Ali minnir á að slíkt framferði gagnvart 9 ára barni kallist nú á dögum kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Upp á þessa kvennasýn strangtrúaðra múhameðstrúarmanna skrifa Evrópumenn með þögn sinni, segir Hirsi Ali.

Þetta urðu mér umhugsunarverð orð þegar ég las þau í viðtali sem birtist í danska blaðinu  Weekendavisen síðastliðið sumar. Það er ekki alltaf auðvelt að feta einstigið á milli þess að vilja sýna mismunandi menningarheimum virðingu og umburðarlyndi og svo hins að skrifa upp á mannréttindabrot og kúgun.

Þegar kristnir menn gagnrýna önnur trúarbrögð en kristni væri þeim hollt að líta gagnrýnið í eigin barm. Á mælikvarða mannkynssögunnar er ekki langt síðan Evrópumenn og Bandaríkjamenn stunduðu þrælahald og enn styttra er síðan konur höfðu ekki kosningarétt. Í heimi trúarbragðanna höfum við frá miðöldum dæmi um hryllilegar pyntingar og ofsóknir af hálfu manna sem komu fram í nafni og með umboði kristinnar kirkju. Auðvitað bar öllum mönnum og ber réttur og skylda til að gagnrýna slíkt framferði - og skiptir þar menningarlegur bakgrunnur þeirra engu máli. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að einhverjir skuggalegustu ofbeldismenn heimsins nú um stundir, annars vegar Bush Bandaríkjaforseti og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og lagsmenn þeirra, og hins vegar íslamskir fasistar, réttlæta gjörðir sínar mjög í nafni trúarbragða. Þannig eru þeir Bush og Blair óþreytandi að auglýsa hversu sannkristnir þeir telji sig vera, liggi á bæn kvölds og morgna og iðulega er herförin til Íraks réttlætt í ljósi meintra yfirburða kristinnar trúar. Andi krossfaranna svífur yfir vötnum og blandast olíugufunni í þessum hluta heimsins sem auðugastur er af náttúruauðlindinni verðmætu – olíunni, hinu svarta gulli.

"Enginn hér inni...", sagði Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, og núverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, á fundi hjá KFUM 17. mars síðastliðinn, "Enginn hér inni efast heldur um yfirburði kristinnar trúar gagnvart öðrum trúarbrögðum. Enginn krefst þess, að við séum umburðarlyndir gagnvart einræðisherrum en samkvæmt íslenskum stjórnlögum ber okkur hins vegar að virða önnur trúarbrögð eins og okkar eigin..."

Í þessari ræðu hjá KFUM talaði Björn Bjarnason um stjórnarskrárvarinn rétt allra trúarbragða en mismunandi trúarfylkingum stillti hann engu að síður upp sem andstæðingum, samanber eftirfarandi: " Nú sækja aðrir ismar en marxisminn að kristnum viðhorfum og gildum, ekki síst í Evrópu. Með engum rökum er unnt að segja þann isma, sem mest lætur að sér kveða, standa nálægt kristni, miklu nær er að líta á hann sem andstæðing hennar. Líklegt er, að nú verði meira en áður hlustað eftir leiðsögn kristinna forystumanna og meira muni reyna á afstöðu til kirkjunnar en í átökum um önnur mál á stjórnmálavettvangi. Eftir að árásin var gerð á New York og Washington 11. september árið 2001, ræða menn ekki lengur um það sem óhugsandi atburð, að í nafni islam sé framið fjöldamorð á Vesturlöndum. Sprengjuárás hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Madrid hinn 11. mars á síðasta ári réð úrslitum um þingkosningar á Spáni. Enn skemmra er liðið síðan hollenskur kvikmyndagerðarmaður var myrtur á götu úti fyrir að hafa gert heimildarmynd um niðurlægingu kvenna meðal múslíma...einræði og islam fara um of saman, hvergi í 22 arabalöndum eru lýðræðislegir stjórnarhættir."

Hér eru hafðar uppi söguskýringar sem byggja á getgátum og áróðri.  En látum það liggja á milli hluta að sinni. Ég staldra hins vegar við eftirfarandi hvatningarorð kirkjumálaráðherra þar sem hann kallar lærisveina himnaríkis til forystu í stjórnmálum: "Stjórnmálamönnum ber að fara að stjórnlögum", segir Björn, en "í Evrópusambandinu er unnið að því að samþykkja stjórnarskrá, þar sem fundin er málamiðlun milli kristni og annarra trúarbragða. Fyrir alþingi Íslendinga liggja tillögur um að þjóðkirkjan verði lögð niður og framvegis aðeins hluti af sögulegum arfi okkar. Þá er spurningin: Hve langt mun kirkjan teygja sig? Hvað ætlar hún að stíga stórt skref? Eða ætlar kirkjan að segja hingað og ekki lengra og spyrna við fótum? Ég ætla mér ekki að svara fyrir kirkjunnar hönd en segi að lokum: Ef við verjum ekki, hvert og eitt, þau gildi, stjórnmálaleg og trúarleg, sem við teljum einhvers virði, gerir það enginn. Við þurfum enn leiðtoga, sem ekki eru hálfvolgir í áhuganum, heldur brennandi í andanum - stórríka af heillandi gleði og lærisveina himnaríkis."

Gott og vel. Þetta gefur tilefni til að spyrja: Hvernig skyldi Björn Bjarnason hafa rækt skyldur sínar sem lærisveinn himnaríkis þegar hann hefur haft til þess aðstöðu á ráðherrastóli í ríkisstjórn? Hann vitnar á eftirfarandi hátt  hjá KFUM: "Á menntamálaráðherraárum mínum lagði ég áherslu á, að við gerð nýrra námskráa yrði byggt á hinum kristna arfi og trú. Nú heyri ég, að þær kröfur séu að verða æ háværari, að hlutur kristni verði þurrkaður út úr skólastarfi, eða hann að minnsta kosti lagður að jöfnu við hlut annarra trúarbragða." Þetta þykir Birni Bjarnasyni ekki góð latína.

Þetta eru semsagt viðhorfin. Á málþingi sem Vinstrhrefingin grænt framboð gekkst nýlega fyrir – þar sem fyrirlesarar úr ýmsum áttum ræddu um sambúð/aðskilnað ríkis og kirkju -  flutti séra Sigurður Pálson erindi sem um margt var afar fróðlegt. Sigurður hefur annast námsgagnagerð um kristilegt efni í skólum í seinni tíð. Hann lagði ríka áherslu á gildi umburðarlyndis, að mismunandi trúarbrögð yrðu kynnt á eigin forsendum en ekki forsendum annarra trúarbragða. Björn Bjarnason leggur að vísu í orði kveðnu áherslu á trúfrelsi en ekki er nóg með að hann vilji að hlutur kristninnar sé fyrirferðarmikill – heldur vill hann líka að námsskárin verði almennt byggð á "hinum kristna arfi og trú", sem áður segir.  Hér eru greinilega öndverð sjónarmið – í það minnsta mjög ólíkar áherslur.

Áður en ég segi alveg skilið við KFUM fund Björns Bjarnasonar langar mig til þess að skoða andstæða póla þar sem trúmál og félagsleg afstaða eða pólitík fara saman. Hér hverfum við nokkur ár aftur í tímann.
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að drifkrafturinn sem varð þess valdandi að kommúnisminn féll í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu hafi verið sú lýðræðisbylgja sem skall á þessum þjóðfélögum í byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Þegar þáverandi Bandaríkjastjórn með liðsinni NATÓ ríkjanna hóf að hervæðast, sem aldrei fyrr, meðal annars með því að koma fyrir skammdrægum og meðaldrægum kjarnorkuflaugum um alla vestanverða Evrópu, reis upp mikil fjöldahreyfing sem var straðráðin í því að kveða hernaðarseggina í kútinn. Lengi vel hlakkaði í kollegunum austan múranna og birtu þeir árum saman myndir af andófsfundum almennings – oft gríðarlega magnþrungnum fjöldafundum. Það sem þeir áttuðu sig ekki á var að þar með héldu þeir sýnikennslu í grasrótarlýðræði, nokkuð sem þeir fengu síðar í bakið með vaxandi lýðræðisvitund heima fyrir. Enn þann dag í dag sjáum við að þá fyrst falla einræðisstjórnir þegar fjöldinn rís upp. Þegar það gerist fær ekkert stöðvað breytingar. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér og nú er sú að róttæk og vakandi öfl innan krikjunnar áttu mjög afgerandi þátt í í þessari vakningu. Friðarhreyfingin, eins og hún var nefnd, náði hingað til lands og nefni ég séra Gunnar Kristjánsson, núverandi prest á Reynivöllum í Kjós sem kröftugt dæmi um einstakling sem lét að sér kveða í þessari baráttu á mjög afgerandi og sannfærandi hátt.

Björn Bjarnason var ekki par hrifinn af þessari hreyfingu og trúir því greinilega enn að það hafi verið vígvæðingin sem fellt hafi kommúnismann. Í ræðunni 17. mars rifjaði Björn þennan tíma upp og þótti honum kirkjunnar menn ekki hafa haldið uppi réttum vegvísum: "Ég var til dæmis þeirrar skoðunar", segir hann, "á tímum kalda stríðsins, að herfræðingar væru mun betur til þess fallnir að meta skynsamleg svör við sovéskum vígbúnaði en guðfræðingar. Mér fannst það alls ekki stangast á við kristið lífsviðhorf mitt að hafa þá skoðun og styðja hina herfræðilegu niðurstöðu."

Þessa umræðu leiðir Björn síðan inn í hringiðu atburða samtímans: "Eftir hamfarirnar miklu við Indlandshaf hefur verið spurt", segir kirkjumálaráðherra, "gerðist þetta með Guðs vilja? Sömu spurningar vakna, þegar rætt er um stríð og frið, vígbúnað og kapphlaup milli herja. Þegar Vesturlönd ákváðu að svara kjarnorkuógn Sovétríkjanna í Evrópu undir lok áttunda áratugar síðustu aldar með því að vígvæðast með meðaldrægum, bandarískum kjarnorkueldflaugum, var ályktað gegn því í nafni kirkjunnar í mörgum löndum. Í Vestur-Þýskalandi létu biskupar og prestar mjög að sér kveða gegn þessum ráðstöfunum og ýttu undir svonefndar friðarhreyfingar. Ég og margir fleiri þátttakendur í oft miskunnarlausum deilum kalda stríðsáranna erum sammála um, að ákvörðun NATO um eldflaugarnar og staðfesta Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta hafi ráðið mestu um, að Sovétríkin og valdakerfi kommúnismans í Evrópu leið undir lok. Spyrja má: Stöndum við í svipuðum sporum nú og þá, þegar rætt er um stöðu heimsmála á líðandi stundu? Er sú kenning rétt, sem sett var fram snemma á síðasta áratug, að eftir fall kommúnismans og brotthvarf hinna hugmyndafræðilegu átaka á milli talsmanna hans og kapítalismans, yrðu átök milli ólíkra menningarheima það er einkum milli ólíkra trúarbragða? Ber að líta á árásina 11. september 2001 og eftirleikinn í því ljósi? Við þessum spurningum er ekkert einhlítt svar, en þær eru vissulega áleitnar og nauðsynlegt að velta þeim fyrir sér bæði frá pólitískum og trúarlegum sjónarhóli.

Og hér kemur  síðan kaflinn sem áður er vitnað til: "Enginn hér inni efast um yfirburði lýðræðis andspænis einræði. Enginn hér inni efast heldur um yfirburði kristinnar trúar gagnvart öðrum trúarbrögðum..." Þetta botnar Björn Bjarnason síðan með tilvísun í skrif fræðimanna sem vara við framrás Islam í Evrópu sem verði íslömsk innan skamms tíma verði ekki brugðist við af einurð.

Hér hef ég vísað til afstöðu einstaklinga og hópa fyrr og nú þar sem hlutverkaskipti hafa átt sér stað. Kristinn maður getur verið stríðshaukur og friðarsinni. Sama á að sjálfsögðu við um fólk og hópa sem aðhyllast önnur trúarbrögð. Það sem vakir fyrir mér er að sýna fram á að á endanum eru það ekki hin stofnanalegu og formlegu tengsl sem skipta mestu máli, jafnvel ekki þegar um er að ræða sambýli ríkis og kirkju, heldur afstaða manna, hvert svo sem skipulagsformið er.

Í lokin á fyrrnefndum málfundi hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði dró Sverrir Jakobsson umræðuna saman og velti vöngum yfir málefninu. Hann sagði að við hlytum að stefna að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju samkvæmt þeirri grundvallarafstöðu að jafnræði skyldi ríkja milli allra trúarbragða. Undir þetta get ég heilshugar tekið. En síðan hélt hann vangaveltum áfram og þar hefjast mínar efasemdir. Kirkjan á að boða kristna trú, hún á ekki að hafa með höndum stjórnsýslulegt hlutverk, sagði Sverrir. Það hljóti meira að segja að slæva raunverulegt ætlunarverk trúboðenda. En er það með öllu illt, leyfi ég mér að spyrja á móti, ef niðurstaðan verður sú að gera boðandann/bírókratann meðvitaðan um ábyrgð sína í fjölmenningarlegu umhverfi? Er kirkja sem kappkostar að vera umburðarlynd, kirkja með afstöðu og viðhorf manna á borð við Sigurð Pálsson; kirkja sem jafnt og þétt veitir öðrum trúarbrögðum rými - er hún ekki eftirsóknarverðari en ágeng kirkja, slitin úr formlegum tengslum við þjóðfélagið en bundin traustum böndum og í náinni samvinnu við menn  á vettvangi stjórnmálanna sem telja sig vera sendiboða himnaríkis? Nú þurfa þetta ekki að vera einu valkostirnir en það er þó hugsanlegt og þess virði að leiða hugann að því að svo gæti verið.

Þetta er skýringin á því hvers vegna ég vil fara varlega í sakirnar í öllum breytingum á þessu sviði, fyrst og fremst til að ná því markmiði sem ég nefndi í upphafi máls míns, að skapa víðsýnt og umburðarlynt samfélag. Það á að mínu mati að vera okkar leiðarljós í hvívetna.

Enda þótt ég sé almennt þeirrar skoðunar að trúarbrögð eigi í mjög takmörkuðum mæli að fá aðgang að skólastofnunum, þá hafa ábendingar skólafólks um að ekki megi vanrækja skólann sem mikilvægan vettvang til að ná til mismunandi trúar- og menningarheima. Þá gangi ekki að horfa framhjá veruleikanum, það verði að horfast í augu við hann og fræða um hann, einnig trúarbrögðin. Hanna Ragnarsdóttir, lektor við Kenaraháskóla Íslands, hefur bent á, að almennt reyndi fók sem flust hefði til landsins að laga sig að samfélaginu. Skólarnir okkar, sagði hún, væru ekki hugsaðir fyrir það fjölmenningarsamfélag sem hér væri þegar orðið. Þetta þýddi til dæmis að börnum, sem kæmu frá fjölskyldum sem væru ekki kristinnar trúar, væri þröngvað inn í annan heim í skólanum. Spenna myndaðist, annars vegar vegna viljans til að aðlagast og hins vegar löngunar til að sýna þeim gildum sem fjölskyldan innrætti virðingu og fylgispekt. Þetta gæti grafið undan samstöðu innan fjölskyldunnar og/eða leitt til einangrunar hennar, sem þá færi að sinna sinni trú á heimilinu og þá í samneyti við aðrar fjölskyldur af sama uppruna og menningarheimi. Þessi einangrun væri varasöm, að mati lektorsins, og yrði skólinn að íhuga leiðir til að laga sig að þörfum fólksins í stað þess að þröngva því inn í sitt einsleita mót.

Þessi vinkill á umræðuna er mikilvægur: Að við spyrjum að hvaða marki samfélagið og stofnanir þess eigi að laga sig að fjölbreytileikanum og svo á hinn bóginn, að hvaða marki hægt sé að ætlast til að einstaklingar og hópar lagi sig að samfélaginu. Að því leyti sem hið síðarnefnda er uppi á teningnum hlýtur að vera rík krafa um jafnræði, tillitssemi og víðsýni. Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, hefur bent á að við eigum að horfast í augu við að Ísland er fjölmenningarþjóðfélag og kennarar sérstaklega verði að vera sér þessa meðvitaðir og virða mismunandi óskir og þarfir. Undir þetta vil ég taka, bæði út frá sjónarhóli skoðana- og trúfrelsis en einnig af þeirri praktísku ástæðu að sinna beri þessum þörfum og kröfum í sameiginlegu umhverfi allra hópa í þjóðfélaginu en ekki í sérskólum sem reistir eru á grundvelli trúarbragða.

Allt er þetta vandmeðfarið og línur ekki alltaf skýrar. Gefum okkur að allir hér inni... svo við notum orðalag Björns Bjarnasonar, gefum okkur að allir hér inni séu andvígir kristnu bænahaldi í almennum kennslustundum í íslenskum skólum. Hvar drögum við mörkin á milli trúarlegs efnis annars vegar og efnis sem flokka má undir almenna hefð en með trúarlegu ívafi?

Hvað með Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar svo dæmi sé tekið? Er það trúboð að hafa þær fyrir börnum eða er þetta fyrst og fremst í senn heilræði og menningararfur?

Hafðu hvorki háð né spott
hugsaðu um ræðu mína
elskaðu guð og gerðu gott
geym vel æru þína

Að lokum og í þessum anda vil ég taka undir þær söguskýringar sem Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar, setti fram í Silfri Egils fyrir tæpri viku. Hann var spurður með nokkrum þjósti hvort hin kristna arfleifð hefði ekki skilað okkur betur inn á braut lýðræðis og réttlætis en önnur trúarbrögð hefðu gert annars staðar. Hann sagði réttilega, að því er ég tel, að menn skyldu varast að hengja allt sem gerst hefði fyrr og nú á trúarbrögðin og mátti skilja orð hans svo að sitt hvað gott hefði gerst þrátt fyrir trúarbrögðin en ekki væri sjálfgefið að það væri vegna þeirra. Því færi fjarri að þau hefðu verið sá modus vivendi framfaranna sem menn vildu vera láta.

Þessu er ég sammála en minni þó á að hin umburðarlynda lífssýn viðurkennir jafnframt að kristin kirkja og öfl innan hennar hafa iðulega staðið fremst í framvarðarsveit mannréttindabaráttu og baráttu fyrir friði eins ég tók dæmi um frá níunda áratug síðustu aldar. Um þetta eru að sjálfsögðu mýmörg dæmi bæði fyrr og nú auk þess sem ónefnt er menningarsögulegt hlutverk kirkjunnar manna. Ég þykist vita að viðurkenning á því sem vel er gert - óháð því hver í hlut á - eigi einmitt góðan hljómgrunn hjá þeim samtökum sem standa að þessum fundi en meginmarkmið þeirra eftir því sem ég best þekki til, er að tryggja að öll blóm fái að blómstra. Hvort það verði best tryggt með því að setja alla sendiboða himnaríkis á fjárlög, og veita þeim jafnvel betur en þegar er gert,  er svo önnur saga.