ALLT AÐ FORSKRIFT AGS?
Þegar félagsmálaráðherrann ljáir máls á því hvernig megi bregðast við hallarekstri ríkisins án uppsagna er hann snupraður af fjármálaráðherranum. Maður spyr sig hvort það séu engir sameiginlegir hagsmunir og markmið í þessari ríkisstjórn. Er ekkert sem bindur menn saman svo þeir geti metið tillögur um aðgerðir í efnislegri umræðu? Hvað er fjármálaráðherrann að verja? Er slík ofgnótt af tillögum þar sem yfirvofandi kjaraskerðingu er dreift um samfélagið af sanngirni og réttlæti að það megi bara sópa þessari tillögu af borðinu án umræðu? Auðvitað er ekki sanngjarnt að ríkisstarfsmenn fái ekki launahækkun í þrjú ár. Ég hef verið launþegi í nógu mörg ár til að vita að það er alveg eins líklegt að mínir ágætu verkalýðsleiðtogar semji fyrir mig um einhverja asnalega 2% launahækkun á ári næstu þrjú árin á sama tíma og verðbólgan verður 20%, gengið fer andskotans til og enginn græðir nema bankar og olíufélög. Það er sjálfsagt ekki í anda norræna velferðarsamfélagsins sem talað var um í upphafi. Jóhanna og Steingrímur eru reyndar með plan. Það er nokkurs konar "laissez faire" hagstjórn þar sem ríkisstjórnin gerir ekkert meðan hin margrómaða endurreisnaráætlun AGS er að virka. Framvindan samkvæmt þessari áætlun er nokkurn veginn þannig að fyrst skerum við rosalega mikið niður og náum tiltrú fjárfesta og stöðugu gengi um leið og jafnvægi næst í ríkisbúskapnum. Þá kemur bein erlend innspýting erlends fjármagns í formi erlendrar fjárfestingar í virkjunum og stóriðju. Þetta gerist allt frekar snögglega svo vandamál eins og atvinnuleysi og samdráttur leysist af sjálfu sér. Það þarf að þagga niður umræður og óróa meðan gangverk endurreisnaráætlunarinnar vinnur sitt verk. Þess vegna þarf að þétta raðirnar og allir þurfa að ganga í takt. Þess vegna var svo mikilvægt klára Icesave til að opna gáttir erlends fjármagns. Þess vegna er svo mikilvæg að Jón Bjarnason fari úr ríkisstjórn svo heimurinn haldi ekki að við séum á móti alþjóðavæðingu og frjálsu fjármagnsstreymi. Þess vegna varð Magma að fá að eiga HS svo heimurinn haldi ekki að við séum á móti einkafjármagni í orkugeiranum. Þess vegna verðum við að aflétta gjaldeyrishöftum sem fyrst. Þess vegna verðum við að skera niður bæði ægilega og í blindni - til að vinna tiltrú erlendra markaða og matsfyrirtækja. Þaðan er lausnarinnar að vænta. Þess vegna á Árni Páll ekki að rugga ekki bátnum með að vera með vangaveltur um sársaukamörk samfélagsins. Einn galli við þessa lækningu er reyndar sá að hún líkist mikið sjúkdómnum sem við þjáðumst af í uppsveiflunni. Annar galli er sá að þetta er margreynt og hefur ekki skilað efnahagslegum stöðugleika til þessa. En dýnamíska dúóið Jóhanna og Steingrímur eru sannfærð og það skiptir mestu. Þau vita að með illu skal illt út reka. Þó endurreisnaráætlunin sé öflug þá er gangverkið viðkvæmt og það verður að þagga niður hvern hósta og stunu sem vinnur gegn henni. Árni Páll er lítil fórn miðað við stefnu VG sem var náttúrulega fyrst að fara.
Árni V.