Fara í efni

ALLT ER Í HEIMINUM HVERFULT

Þessi blaðaauglýsing er frá árinu 1967. Sennilega hafa fáir tekið sérstaklega eftir henni nema að reykingamenn hafa eflaust tekið við sér og viljað prófa nýju “bragðljúfu” filter sígaretturnar. Til þess eru náttúrlega auglýsingar, að skapa eftirspurn og í þessu tilviki að minna þá sem haldnir voru tóbaksfíkninni á löngun sína í tóbak.

Svo liðu árin og stofnað var til málaferla á hendur tóbaksframleiðendum fyrir að selja fólki vöru sem sannað væri að skaðaði heilsu þess og leiddi til dauða án þess að láta þessara staðreynda getið í auglýsingum. Framleiðendur töpuðu þessum slag og nú eru þeir skyldaðir að auglýsa hættuna af því að reykja.

Þetta kom upp í hugann við að skoða auglýsingar þeirra sem reka fjárhættuspilakassa með miklum glamuryrðum um skemmtun og spennu, vel vitandi um skaðsemi fjárhættuspila. Þetta á við um Háskóla Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Rauða kross Íslands og viti menn nú einnig um íþróttahreyfinguna sem er komin á netið og hvetur ungviðið óspart til að taka þátt í spennuþrungnum veðmálum þar.

Hvað skyldi vera langt í að allir þessir aðilar verði skyldaðir til að bæta við auglýsingar sínar: Fjárhættuspil geta valdið einstaklingum og fjölskyldum ómældu tjóni. Stundum þannig að þau drepa.

Nýleg grein í á Fréttanetinu.is: https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-frettaneti-um-spilafikn

Nýleg grein í Morgunblaðinu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/lesid-i-ord-domsmalaradherra

Umfjöllun á Smartlandi um podcast þátt Ölmu Bjarkar Blöndal Hafsteinsdóttur þar sem hún ræðir við mig um spilavandann en Alma er formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn: https://www.mbl.is/smartland/samskipti/2023/04/27/othaegilega_margir_birtust_i_minningargreinum_blada/