ALLTAF AÐ ÆFA TAKTINN
Margir hentu gaman að því þegar Geir Hilmar og Ingibjörg Sólrún mynduðu ríkisstjórn í vor fyrir hönd flokka sinna, hve mjög var lagt upp úr allri sviðsumgjörð og í mörgu reynt að líkja eftir pólitískum fyrrirmyndunum. (sbr.HÉR)
Brosað var góðlátlega þegar Stjórnarráðsparið tók ganginn sem svo er kallað og gengu á vit fjölmiðlanna í vel æfðum takti í Alþingishúsinu til að tilkynna nýja ríkisstjórn.
Í Kastljósi í kvöld sagði Geir forsætisráðherra að þau Ingibjörg væru enn að reyna "að finna taktinn í samstarfinu." Þau hittust vikulega, sagði hann ..."oftar ef hægt er."
Nú langar mig til að reyna að hughreysta forsætisráðherrann. Hann má vita að í augum þjóðarinnar gengur þeim Ingibjörgu Sólrúnu bærilega að finna taktinn. Samfylkingin hefur lagað sig með undravert skjótum hætti að stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá stjórnarmyndun hefur verið þrengt að húsnæðiskaupendem með íþyngjandi reglum fyrir Íbúðalaánasjóð, þorskvótinn skertur ÁN margyfirlýstra móvægisaðgerða, vextir hækkaðir að undirlagi ríkisstjórnarinnar og síðan sýnist mér umhverfisráðherra ætla að halda uppteknum hætti fyrirrennara sinna og teppaleggja áfram fyrir eyðileggingarstefnu Landsvirkjunar.
Mér sýnist Sjáfstæðis/Samfylkingar-takturinn ekkert síður taktfastur en var með Sjálfstæðisflokki og Framsókn á sínum tíma. Þannig að óhætt er fyrir Geir að brosa breitt framan í heiminn og bera sig vel. Það er helst á Geir að heyra að hann hafi áhyggjur af Vinstri grænum, sá flokkur sé heldur meira úti í vinstri kanti en hann hafi gert ráð fyrir! Þetta sagði hann í Kastljósi í kvöld. Hvað skyldi það vera sem er svona mikið út í kantinn að mati formanns Sjálfstæðisflokksins? Skyldu það vera andmæli gegn aðförinni að húsnæðiskaupendum eða milljarðaausturinn í NATÓ (án fjárheimilda), sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til Glitnis eða gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir Grímseyjarferjuskandalinn. Slæmt var að ekki reyndist tóm til að beina talinu aðeins út í kantinn þegar Geir vildi halda þangað undir lok umræðunnar í Kastljósi RÚV. Kannski langaði hann þó ekkert til að ræða mikið um hinn meinta kant íslenskra stjórnmála. Ágætt að láta bara fullyrðinguna duga.