ALLTAF OG ALLS STAÐAR?
Athyglisverð grein sem ráðherrar þróunaraðstoðar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi birtu sameiginlega í Fréttablaðinu í vikunni.
Þar er m.a. bent á eftirfarandi:
“Truflun á námi hefur alvarlegar langtímaafleiðingar, einkum fyrir viðkvæmustu hópana, t.d. stúlkur, flóttafólk, vegalaus börn og farandbörn og þá sem lifa með fötlun. Fyrir þessa hópa er menntun oft líflína. Heimssjóðurinn Education Cannot Wait, sem sinnir menntun í neyðarástandi, veitir börnum þar sem krísuástand ríkir aðgang að menntun, með stuðningi allra Norðurlandanna.”
Þetta er mjög gott - svo langt sem það nær. Líka heitstrengingin í greininni en hún er svona:
“Við, ráðherrar Norðurlandanna, trúum á menntun fyrir alla, alltaf og alls staðar. Allir í skólann!”
En þá kemur spurningin. Hvað með börnin í þeim ríkjum sem sæta efnahagsþvingunum af hálfu NATÓ ríkja?
Í Líbíu þar sem þið (/við, NATÓ-ríkin og stuðningsríki) sprengduð skólana og komuð þjóðinni á það stig að þrælasala er opinber á sölumörkuðum, mannréttindi á frumstæðara stigi en nokkru sinni í seinni tíð, þar kæmi mér ekki á óvart að einhver þættist koma auga á tvískinnung; yrði jafnvel klígjugjarnt. Þar sem vegalaus börn og farandbörn ganga kaupum og sölum, má ætla að nokkuð langt geti orðið í skólann. Og hvað með börnin í Sýrlandi og Venesúela? Þar er allt gert til að brjóta samfélagið niður með viðskiptaþvingunum undir leiðsögn og verkstjórn BNA. Og við, Ísland og hin Norðurlöndin, fylgjum nánast alltaf og alls staðar fyrirskipunum heims-auðvaldsins.
Skyldi þetta koma til tals á fundum norrænu ráðherranna sem segjast vilja skólagöngu fyrir alla, alltaf, allstaðar?
Hvernig væri að ráðherrarnir birtu litla grein um þetta?