Fara í efni

ALMENNINGSSAMGÖNGUR OG AÐRAR SAMGÖNGUR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 21.05.13.
Almenningssamgöngur á Íslandi hafa lengst af verið heldur takmarkaðar og bundnar við þjónustu innan einstakra sveitarfélaga, reyndar örfárra. Strætisvagnar hafa sinnt akstri milli hverfa og má með nokkurri einföldun segja að helstu viðskiptavinir hafi verið skólafólk, öryrkjar og aldraðir. Slík þjónusta hefur yfirleitt ekki borið sig og sveitarfélögin orðið að greiða með henni, sem reyndar á við um allt samgöngukerfið. Vegir, brýr og göng kosta peninga.
Sérleyfisakstur á milli sveitarfélaga og landshluta hefur lengst af verið skipulagður og styrktur af ríkinu. Það kerfi gekk sér smám saman til húðar og þess vegna þurfti breytinga við.
Árið 2011 var ráðist í meiri háttar kerfisbreytingu og samningar gerðir við landshlutasamtök sveitarfélaga um einkaleyfi á almenningssamgöngum, þ.e.a.s. að þau tækju að sér, með aðstoð Vegagerðarinnar, að skipuleggja almenningssamgöngur hvert á sínu svæði sem og tengingar við aðliggjandi svæði. Til þessa fengu landshlutasamtökin þá fjármuni sem áður runnu til að reka sérleyfiskerfið. Þessi skipulagsbreyting hefur gengið vel og hefur farþegum víðast hvar fjölgað, sums staðar svo mikið að nemur tugum prósenta. Til þess að styðja við þessar breytingar lagði ég fram á Alþingi frumvarp sem styrkti heimildir til Vegagerðarinnar til þess að veita samtökum sveitarfélaga einkaleyfi til að reka almenningssamgöngur á svæðinu en fyrir voru í lögunum heimildir fyrir Vegagerðina að veita einstökum sveitarfélögum einkaleyfi til þess.

Fólk verður hafa val

Tvennt þarf til að efla almenningssamgöngur og gera fleirum kleift að nýta þær: Annars vegar kerfisbreytingu og hins vegar hugarfarsbreytingu. Í samgönguáætlun sem nú gildir er lögð áhersla á að efla almenningssamgöngur, þ.e. markmiðið er að fleiri nýti slíkan samgöngumáta og helst nánast hvar sem er á landinu. Einkabíllinn hefur verið allsráðandi sem samgöngumáti á Íslandi. Sumir kjósa þægindin sem hann býður og eru fúsir að kosta því til sem þarf. Hjá öðrum, ekki síst víða út um land, er það blátt áfram nauðsynlegt að eiga og reka bíl til að komast til daglegra starfa, t.d. ef viðkomandi býr utan byggðakjarnans en sækir þar vinnu. Síðan er hitt að komast um héraðið eða á milli héraða. Fólk hefur einfaldlega ekki haft neitt val, annað hvort af því að almenningssamgöngur nýtast því ekki eða þær eru hreinlega ekki fyrir hendi.

Tvenns konar breyting

Sveitarfélögin hafa val um hvernig þau skipuleggja almenningssamgöngur innan hins nýja kerfis. Þau hafa farið þá leið að bjóða út akstur á tilteknu svæði og er samið við það fyrirtæki sem best býður. Möguleikar annarra fyrirtækja til þjónustu á svæðinu eru þá takmarkaðir sérstaklega þeirra sem fyrst og fremst sinna ferðamönnum yfir sumarið. Hér vegast á sjónarmið samkeppninnar og sjónarmið um hagkvæmni og skipulag. Rótin er að miklu leyti fámenni okkar. Við þurfum að halda úti kerfi sem þjónar íbúum í þéttbýli og dreifbýli árið um kring og til þess þarf stuðning en jafnframt þarf að gæta hagkvæmni og aðhalds og er stefnt að því með útboðum. Með því er að nokkru komið til móts við sjónarmið samkeppninnar, fyrirtækin keppa í útboðinu.

Breiðholtið og flugstöð

Nú er það svo í almenningssamgöngukerfinu að sumar leiðir gefa meira af sér en aðrar. Án þess að ég hafi fyrir mér tölurnar gef ég mér að strætóleiðin Breiðholt-Hlemmur gefi meira af sér en Hlemmur-Vesturbær. Það þýðir að Breiðhyltingar greiða niður samgöngur Vesturbæinga. Sama á við um um Hafnfirðinga því leiðin Hafnarfjörður-Lækjartorg er mikið nýtt. Eðlilega hugsa fáir málið þó út frá þessum forsendum því við lítum á strætó sem eitt og sama kerfið. Okkur þætti flestum fráleitt ef  komið væri upp sjálfstæðum samkeppnisakstri einvörðungu á fjölförnustu leiðunum. Á útlensku er talað um rjómafleytingu í þessu sambandi. Nýlega kvað Héraðsdómur Austurlands upp dóm sem heimilaði samkeppnisrekstur samhliða almeninngssamgöngum. Ég hef grun um að stefnandi hafi ekki lagt fram nægjanleg gögn og dómurinn hafi verið kveðinn upp á ófullnægjandi forsendum; dómnum hljóti því að verða áfrýjað með fullnægjandi sönnunarfærslu.  Að öðrum kosti væri verið að leggja blessum yfir rjómafleytingu í samgöngukerfi á Austurlandi. Deilurnar um samgöngur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru af sama toga.

Suðurnesin vilja vera samfélag

Sveitarfélögin á Suðurnesjum vilja samtvinna þessar samgöngur öðru kerfi almenningssamgangna þannig að arðurinn renni að hluta til í uppbyggingu og rekstur annarra leiða á svæðinu sem síður borga sig - ekki í aðra opinbera starfsemi heldur einvörðungu í þetta. Af Samkeppnisstofnun er að skilja að slíkt sé litið hornauga.
En þar með væri Suðurnesjamönnum meinað að skipuleggja sig sem samfélag og auk þess sem tekið er undir rjómafleytingasjónarmiðin. Ef sjónarmiðin sem voru ráðandi í nýuppkveðnum dómi Héraðsdóms Austurlands eða afstöðu Samkeppninstofnunar verða ríkjandi yrði sveitarfélögum gert erfiðara um vik að byggja upp og efla almenningssamgöngukerfið.
Síðan er það allt annar handleggur að aldrei hefur staðið til að meina einstökum fyrirtækjum í ferðaþjónustu að flytja farþega á eða á milli ferðmannastaði sé það utan almenningssamgöngukerfisins né heldur koma í veg fyrir notkun ferðaþjónustu sem byggist á fyrirfram greiddum hringmiðum sem meðal annars flytja farþega um hálendið. Rútur koma og fara með tiltekna hópa í flugstöðina án þess að nokkur amist við því, eða ferðamenn á Þingvöll, Gullfoss og Geysi svo eitthvað sé nefnt. Það er þegar kerfin eru rekin samsíða almenningssamgöngukerfinu sem málið tekur á sig aðra mynd. 

Þörf á hugarfarsbreytingu

Ýmislegt vinnst við það að draga úr notkun einkabílsins. Við lækkum útgjöld heimilisins og drögum úr mengandi útblæstri. Aukin nýting á almenningssamgöngukerfinu verður til að styrkja slíkar samgöngur og um leið getum við vænst þess að þjónustan nái til enn fleiri. Þannig fer af stað keðjuverkun sem skilar okkur öllum ávinningi.