Fara í efni

ALTARISTAFLAN Á ÓLAFSVÖLLUM OG AFREKSVERK STEFÁNS STERKA

Altaristafla - Ólafsvellir
Altaristafla - Ólafsvellir

Altaristafla listmálarans Baltasars í kirkjunni á Ólafsvöllum á Skeiðum er mögnuð. Myndin sýnir síðustu kvöldmáltíð Krists með lærisveinum - og fleirum. Tuttugustu-aldar manninum Baltasar hefur greinilega fundist ófært að hafa ekki konur með á myndinni þannig að hann lætur konur í útjaðri, sitt til hvorrar handar, skapa eins konar umgjörð. En það magnaða við töfluna er hvernig samtíminn, og þar með kirkjugesturinn á Ólafsvöllum, rennur inn í heim Biblíunnar. Þannig endar borðið, sem Kristur og lærisveinar hans sitja við, í altari kirkjunnar sem eðli máls samkvæmt er eins einfalt og hugsast getur enda orðið að borðsendanum á fátæklegu borði í Jerúsalem fyrir tvöþúsund árum. (http://www.kirkjukort.net/church_photo.php?photo_id=604 )

Hópur 1 - Ólafsvellir

Í Ólafsvallakirkju kom ég sl. laugardag ásamt Valgerði konu minni og frændum mínum, séra Þóri Stephensen og Jóni Sigurðssyni, ásamt Guðna Ágústssyni. Við vorum komin að Ólafsvöllum til að sjá eigin augum Prestsskurðinn, sem svo er nefndur, en það er rúmlega kílómeters langur handgrafinn(!) áveituskurður sem séra Stefán Stephensen, prestur á Ólafsvöllum, 1864 til 1885, lét grafa. Sjálfur mun hann reyndar hafa gengið harðast fram í greftrinum. Enginn, sem sér þennan handgrafna skurð eigin augum, velkist í vafa um að verkið var þrekvirki.
Ólafsvalla - skurður
Stefán Stephensen beitti sér mjög fyrir margvíslegum framfaramálum á sinni tíð og varð fyrstur til að hreyfa þeirri hugmynd að veita Þjórsá með áveitukerfi á engjar á Skeiðunum. Fleiri mannvirki liggja eftir Stefán en Prestsskurðurinn, enda lét hann ekki sitja við orðin tóm. Stefán var afi séra Þóris, langalangömmubróðir Jóns Sigurðssonar og langafabróðir minn. Þar er m.a. kominn skýringin á áhuga okkar þremenninga. Guðni Ágústsson er hins vegar áhugamaður um allt sem sunnlenskt er - og reyndar þótt víðar væri leitað! (sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/stund-i-mosfellskirkju )


Um framtak séra Stefáns fjallaði ég nokkuð í ræðu sem ég flutti á Brúnastaðaflötum í júníbyrjun 2012 þegar vígður var, að frumkvæði Guðna Ágústssonar, vegaspotti að Flóaáveitugáttinni - en Flóaáveitan er eitthvert stórbrotnasta mannvirki Íslandssögunnar og er með nokkrum ólíkindum hve fáum er kunnugt um það mikla mannvirki. (Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-brunastadaflotum-heill-fylgi-viljanum-til-verka)

Á Ólafsvöllum voru þeir feðgar, bændurnir Kjartan Georgsson og Georg Kjartansson, leiðsögumenn okkar og kunnum við komumenn þeim miklar þakkir fyrir stórskemmtilegan og fróðlegan dag. Í kaffi hjá danskri konu Georgs bónda, Mette, hittum við auk hennar, húsfreyjuna af eldri kynslóðinni, Sigríði Pétursdóttur, konu  Kjartans, en á sínum tíma fékk hún Fálkaorðuna fyrir starf sitt til bjargar íslenska hundinum. Á Ólafsvöllum voru því að sjálfsögðu fallegir íslenskir hundar.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem að Ólafsvöllum. Í mínum huga hafur alltaf verið ákveðinn ljómi yfir þessum stað. Heimsókn okkar stóð undir öllum væntingum mínum.
Hópur 2 - Ólafsvellir