Fara í efni

ALÞINGI Í ELDHÚSI

Í Eldhúsdagsumræðum á Alþingi  í kvöld benti ég meðal annars á að ríkisstjórn og stjórnarliðar í þinginu virtust ekki lengur koma auga á misréttið í íslensku samfélagi. Umræðuna í heild sinni má nálgast á vef Alþingis, althingi.is, en hér að neðan er handrit að ræðu minni við umræðurnar.

Góðir Íslendingar.
Nú minnast menn þess að 60 ár eru liðin frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari, mesta hildarleiks mannkynssögunnar; styrjaldar sem háð var um alla jarðarkringluna og leiddi til tortímingar og dauða 60 milljóna manna. Hrikalegir glæpir gegn mannkyni voru framdir í stríðinu og aðdraganda þess og mega útrýmingarbúðir nasista á gyðingum aldrei falla í gleymskunnar dá né kjarnorkuárásirnar á japönsku borgirnar Nagasaki og Hiroshima sem deyddu í einu vetfangi á annað hundrað þúsund saklauss fólks og hafa allar götur síðan leitt til hægfara dauða og örkumla hundruða þúsunda manna allt fram á þennan dag.
Þessu megum við aldrei gleyma. Við megum ekki heldur gleyma því að sigurvegarar í stríði eru aldrei látnir svara til saka fyrir glæpi og ódæðisverk. Það gera aðeins þeir sem bíða lægri hlut.
Áður en nasistar töpuðu stríðinu höfðu glæpir þeirra fágað og fagmannlegt yfirbragð. Fjöldamorðin voru skipulögð af verkfræðingum og vísindamönnum á hvítum sloppum; mönnum sem fóru heim til sín á kvöldin, kysstu börnin sín og hlustuðu á skemmtiþátt í útvarpinu. Morguninn eftir fínstilltu þeir gasofnana. Síðan fengu þeir medalíu. Buxurnar stífpressaðar. Skórnir gljáandi.
Sama gilti um sérfræðingana sem skipulögðu notkun Orange Agent eitursins í Víetnam. Sú framkvæmd gekk út á að eyðileggja allan gróður á stórum svæðum svo andstæðingurinn gæti ekki leynst í laufguðum trjágróðri. Tæknin byggði á þekkingu og fagmennsku. Einnig þar voru hönnuðirnir heiðraðir. Ennþá eru að fæðast vansköpuð börn á þessum svæðum. Það er ekki að undra að Bandaríkjamenn vilji vera undanþegnir lögsögu nýstofnaðs stríðsglæpadómstóls. Hann má ná til annarra – ekki til okkar, segja þeir.
En það á að gera sömu kröfur til mannréttinda hver sem í hlut á, hvenær sem er og hvernig sem hagsmunatengslin liggja.
Það á að gera sömu kröfur til kínverskra stjórnvalda nú og áður en landið var opnað vestrænum fjárfestum. Mannréttindabrot eru framin í Kína, engu síður nú en fyrir 20 árum þegar landið enn var lokað.  Nú sjá vestræn iðnríki og auðhringar hins vegar í gegnum fingur sér eftir að þau fengu þessa stærstu þrælakistu heimsins til ráðstöfunar.
Reynslan sýnir að ef ríki makka rétt gagnvart sigurvegurum heimsins þá komast þau upp með misferli og mannréttindabrot.
Íslandi var skipað í hóp svokallaðra viljugra ríkja til stuðnings innrás Bandaríkjamanna í Írak. Í þeim hópi eru mörg ríki sem óumdeilanlega eru mannréttindabrjótar, mannréttindabrjótar sem utanríkisráðherra vísaði til sem samherja í baráttu fyrir frelsi í umræðu um utanríkismál hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum. Og minnumst þess og gleymum því aldrei að ofbeldið í Írak, handahófskennd fjöldamorð undir handarjaðri innrásarherjanna í Fallujah  og víðar,
pyntingar í fangelsum - hver getur ekki kallað fram í hugann myndirnar af varnarlausum föngunum, niðurlægðum og kúguðum – 
allt þetta –
allur þessi tortúr er skipulagður á yfirvegaðan og kaldrifjaðan hátt - af mönnum á pússuðum skóm og með medalíu í barminum.

Ferill ríkisstjórna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálum er dapurlegur. Ekki aðeins vorum við hengd aftan í tagl herveldanna í Íraksinnrásinni og íslenska þjóðin þannig gerð meðsek í stríðsglæpum. Núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson,  neitaði að styðja ályktun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að kynþáttamúrinn illræmdi í Palestínu færi fyrir alþjóðadómstól. Ekki að múrinn væri rifinn – nei að hann færi fyrir dómstól. Tillagan var samþykkt – en án stuðnings Íslands.
Ég ítreka: Við eigum að styðja mannréttindi hvenær sem er og hvar sem er og í Palestínu ber okkur skylda til þess.
Við eigum að taka undir nú þegar Íran og Norður - Kórea eru gagnrýnd fyrir að brjóta skuldbindingar sem þessi ríki hafa undirgengist í samningum um að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum.
En við eigum líka að láta í ljós gagnrýni þegar Bandaríkjastjórn segir sig frá samningum sem hún gerði um bann við vígbúnaði í himingeiminum og stóreykur vígbúnað sinn.
Já, við eigum að styðja mannréttindi og afvopnun – alltaf og undir öllum kringumstæðum – hver sem í hlut á.
Værum við fulltrúar slíkra sjónarmiða og slíkrar afstöðu væri af því sómi að eiga sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Ég tel hins vegar að við gætum látið meira og betra af okkur leiða með öðrum hætti en að kaupa sæti í þessu ráði.
Menn hafa talað um að kostnaður við að fá sæti í Öryggisráði SÞ og sinna því verkefni gæti numið á bilinu 600 til eitt þúsund milljónum króna. Ef við nú tækjum þetta fjármagn og verðum því í rannsóknir á hafsbotninum svo dæmi um verðugt verkefni sé tekið
– verkefni sem nú er unnið að á vegum Sameinuðu þjóðanna -
þá gerðum við tvennt í senn. Létum gott af okkur leiða í alþjóðasamstarfi og efldum jafnframt rannsóknir hér á landi.

Margt jákvætt er að gerast í íslensku atvinnulífi. Frumkvöðlar á ýmsum sviðum eru að hasla sér völl og þegar á heildina er litið fer kaupmáttur vaxandi. Það væri ástæða til almennrar ánægju með þessa þróun ef ekki væru ýmis hættuteikn á lofti, hraðvaxandi erlendar skuldir, flæði vinnuafls til landsins á kjörum undir því sem tíðkast og vaxandi misskipting í þjóðfélaginu. Að sumu leyti minnir þessi tími á Thatcher-tímann í Bretlandi þegar hægri vindar byrjuðu að blása þar í landi –  naprir vindar sem enn blása úr sömu átt en núna kenndir við Tony nokkurn Blair. Á þessum tíma var mikið umrót, einkavæðing og spilling. Ekki treysti ég mér til að dæma um það hvort spillingin er meiri eða minni hjá þeim Davíð, Halldóri og Valgerði en hjá Thatcher – þó minnist ég þess ekki að Thatcher léti búa til sérhannaðar söluformúlur svo tilteknir aðilar gætu eignast ríkisfyrirtækin. Annað sem einkenndi Thatcher-árin í Bretlandi var skortur á sjálfsgagnrýni, og botnlaus sjálfsupphafning, vissa um að ríkisstjórnin væri ætíð að gera rétt og stöðugt var hún að mæra sjálfa sig og fagna, jafnvel þótt tilefnin væru í besta falli vafasöm. 

Ég hef að vísu ekki heyrt þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson beinlínis hæla sér af því að Íslendingar skuli vera orðnir ein skuldugasta þjóð heimsins. Hitt er greinilegt að þeir koma ekki auga á þær hættur að byggja velsæld á sívaxandi skuldum. Viðskiptahallinn hefur verið að aukast jafnt og þétt á undanförnum árum og stefnir í 10% á þessu ári – nokkuð sem ekki gengur til eilífðarnóns – það segir sig sjálft og einnig hitt að það hljóta að teljast alvarleg tíðindi að Íslendingar skulda núna 252% af vergri landsframleiðslu en skulduðu 54,5% árið 1990. Og ekki veit ég hvort menn gera sér almennt grein fyrir því að hver einasta króna sem nú er framkvæmt fyrir við Kárahnjúka er tekin að láni á ábyrgð þjóðarinnar – og mikil áhöld um að fjárfestingin komi til með að skila – jafnvel aðeins bókhaldslegum gróða. Þjóðhagslega kemur dæmið síðan miklu ver út.
Og það sem meira er, stóriðjustefnan er beinlínis þrándur í götu fjölbreytni í atvinnulífi – það er nefnilega að sannast sem spáð var að gengi krónunnar, vextir og svigrúm til athafna á öðrum sviðum efnahagsstarfseminnar er takmarkaðra vegna framkvæmda og fjárfestinga í tengslum við stóriðju.- Það er ekki bæði sleppt og haldið, bæði einsleit stóriðjan og fjölbreytni í atvinnulífi. Menn standa frammi fyrir vali.

Það er gott að vera glaður og fagna – eins og ríkisstjórnin gerir með reglulegu millibili í hástemmdum skálaræðum -  en ógagnrýnin sjálfsánægja kann aldrei góðri lukku að stýra. Síðast þegar ríkisstjórnin kom saman til að fagna og lýsa yfir ánægju með sjálfa sig – í Ráðherrabústaðnum að þessu sinni -  var að venju sagt að allt væri í lukkunnar velstandi.
En vandinn við fólk sem er í stöðugum partýjum er sá að það glatar hæfileikanum til að skoða umhverfi sitt af raunsæi – það hættir að sjá hlutina í fókus - til dæmis er augljóst að ríkisstjórnin er orðin ófær um að sjá misskiptinguna í landinu. Henni er farið líkt og Landsbankamönnum, sem segja í auglýsingum að, Aðeins einn geti komið í veg fyrir að þú eyðir í sparnað – það sért þú sjálfur. Er það svo? Leggur láglaunamaður eða öryrki á strípuðum bótum ekki  til hliðar eða fjárfestir  hann ekki í hlutabréfum vegna þess að hann er áhugalaus um að spara? Eða getur verið, og er það ekki öllu líklegra, að láglaunamaðurinn eða atvinnulaus maður með 91.426 kr. á mánuði eyði ekki í sparnað, eins og það er kallað, einfaldlega vegna þess að hann er ekki aflögufær? Getur ekki einmitt verið að það sé hreinlega röng staðhæfing hjá auglýsingadeild Landsbankans að einstaklingurinn geti alltaf sjálfum sér um kennt ef hann ekki sparar? Og að það sé kannski allt öðru fólki um að kenna og að það sitji hér við gluggaröðina – hæstvirt ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar sem ákvarðar bætur almannatrygginga og upphæð atvinnuleysisbóta – með dyggilegri aðstoð stjórnarmeirihlutans hér á þingi.
Hæstvirtur forseti ég hef oft leyft mér að tala í stikkorðum þegar allir vita við hvað er átt. Þegar ég til dæmis nefni Mannréttindaskrifstofu Íslands eða Samkeppnisstofnun, þá hugsa menn ekki bara um hefndaraðgerðirnar gegn þessum stofnunum, heldur einnig til allra þeirra sem á undanförnum árum hafa verið látnir gjalda faglegra vinnubragða og sjálfstæðrar hugsunar þegar sú hugsun hefur stangast á við vilja þeirra sem ráða -
Sá sem ekki þolir gagnrýni – gerir lítið úr henni eða valtar yfir hana – sá aðili er ekki sterkur –
Sá sýnir hins vegar styrk, sem þorir að bakka, sem þorir að hlusta á önnur sjónarmið – máta sín eigin viðhorf við hugmyndir annarra.
Það ber ekki vott um veikleika að menntamálaráðherra skyldi draga frumvarp sitt um Ríkisútvarpið til baka – það bæri þvert á móti vott um styrk ef nú yrði leitað sátta um lausn sem allir sættu sig við -
Og ef þannig yrði unnið í landsstjórninni
að leitað yrði leiða í breiðri samstöðu -
að gera samfélagið betra,
að útrýma misrétti.
Og ef sú hugsun yrði ofan á að vilja byggja samfélagið upp í fjölbreytni í stað einsleitni, þá erum við með.
Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur sýnt að hún er óhrædd að taka slaginn, á móti misrétti, stóriðjustefnu og náttúruspjöllum.
En það höfum við líka sýnt í verki að alltaf má reiða sig á okkur þegar unnið er að jöfnuði og jafnrétti, náttúruvernd og fjölbreytni í atvinnulífi.
Í þessum anda hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð starfað á því þingi sem nú er að ljúka.
Og í þessum anda munum við starfa á komandi mánuðum og misserum. Það er þörf á nýrri hugsun, nýrri stefnu, nýrri pólitík við landsstjórnina á Íslandi. Það er löngu kominn tími til að breyta. Vinstrihreyfingin grænt framboð býður fram krafta sína.
Góðar stundir.