Fara í efni

ALÞJÓÐA-GJALDEYRISSJÓÐUR TIL ILLS!

Sæll Ögmundur...
Fín greinin þín "NÚ ÞARF AÐ HUGA AÐ ÍSLENSKUM ALMANNAHAG"!  Hún hlýtur að vekja marga til umhugsunar. Eins eru lesendabréf Þórs Gunnlaugssonar og Herberts Snorrasonar, afbragðs góð og í tíma rituð. Vandamálið er samt það, að núverandi ríkisstjórn og þjónar hennar munu ekkert hugsa, nema samkvæmt átrúnaði sínum og hvernig best megi þjóna auðvaldinu og einkavinunum. 
Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemst inná gafl Íslensku þjóðarinnar, þá má afskrifa þjóðfrelsið önnur sjöhundruð árin.  Við erum stödd árið 1262 í því að undirrita Gamla sáttmála.  Sturlungaöldin; tími græðgi, siðleysis, yfirgangs og ofstopa, svívirðilegrar frekju og,,,,, -undirgefni við erlenda kirkju og konungsöfl, hefur komið þjóðinni í andlegt og fjárhagslegt þrot, og auður forfeðrana komin í hendur erlendu kirkjunnar ásamt örfárra svikráðamanna, og erlent konungsvald var á næsta leiti. Nú er ekkert hlustað á góð ráð eins og forðum þegar almúgamaðurinn Einar Þveræingur steig fram og gaf ráð sem tekið var mark á.  Það bjargaði þjóðinni þá, þar til nú þegar sekir-menn glápa ósjálfbjarga, ráðalausir og gjörspilltir á Gamlasáttmálann sem þeir eru í þann veg að undirrita. Gissur Þorvaldsson er nú seðlabankastjóri og allt liðið, fettir sig og beygir í návist hans. Allt er komið til kaldra kola, eins og nú stendur á hjá okkur.

Raunverulega væri Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðeins endalok þess sem komið er.  Þetta byrjaði allt með hersetu Breta og síðan Bandaríkjanna á Íslandi, svik við stjórnarskrá lýðveldisins, með inngöngu okkar í NATO án þess að þjóðin væri spurð. Inngangan í EES og síðan Schengen er næst, þá kom afdrifaríkt spor sem núverandi þjáningar þjóðarinnar byggjast beinlínis á, það er hin óviturlega EINKAVÆÐING sem sumir kalla einkavinavæðingu, enn án þess að þjóðin væri spurð. Þessi stjórnlausa og eftirlitslausa einkavæðing varð sá athafnajarðvegur og frumskógarlögmál, sem skapaði, hvatti og nærði þá brjálæðislegu græðgi, þjófnað, ósvífni og aðrar óþjóðlegu athafnir, sem við höfum vitnað.  Síðan tóku fjárglæframennirnir við taumunum.  Hér er grundvöllur þeirra þjáninga sem Íslenska þjóðin grætur nú!

Það fer alls ekkert á milli mála að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er verkfæri alþjóða auðvaldsins og einkahyggjunnar. Hann er hispurslaus og miskunnarlaus, og andvígur þjóðlöndum heims. Hans stefna er að auðurinn ráði, auðurinn sé mælikvarðinn á menn og dauða hluti, ekki manndómur og mannkostir einstaklingsins!  Alþjóðahyggja skal vera sakramentið og hnattvæðingin látin gnæfa yfir öllu.  Við Íslendingar verðum að forðast Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og heitan eld helvítis, því þaðan kemur hann, og skrattanum þjónar hann.
Úlfur