AMERÍKUPISTILL
Í sumar dvaldi ég ásamt konu minni um nokkurra daga skeið í St. Paul og Minneapolis, "tvíburaborgunum" svonefndu í Minnesotaríki í Bandaríkjunum. Á þessum dögum fékk ég örlitla innsýn í ýmsa þætti í bandarísku þjóðlífi sem maður hefur ekki að staðaldri fyrir augunum. Ýmsir viðburðir sem að staðaldri eru í heimsfréttum þessa dagana fengu á sig skýrari, og í mínum huga skiljanlegri, mynd.
Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um stórþjóð á við Bandaríkjamenn eða draga almennar ályktanir af mjög takmarkaðri reynslu. Þó held ég að það sé mál manna að gestkomandi fólki er almennt vel tekið í Bandaríkjunum; að því marki sem hægt er að tala um bandaríska þjóðarsál, þá sé hún opin og viðmótsgóð. Þessu hef ég oft heyrt haldið fram af fólki sem vel þekkir til Bandaríkjanna og varð þessi heimsókn mín þangað til að styrkja þessa kenningu í mínum huga.
Um umburðarlyndi hins almenna manns
Annað, og nokkuð sem kom þægilega á óvart, var almennt umburðarlyndi sem ég þóttist verða var við hjá fólki. Þá daga sem ég var í Minneapolis fékk ég vinnuaðstöðu við bókasafn háskólans. Gagnstætt því sem ég hef kynnst við hliðstæðar stofnanir í Evrópu núorðið, þurfti engin skilríki til að komast inn á safnið. Það var einfaldlega öllum opið. Öllum gestum safnsins var boðið að nýta sér tölvu og netaðgang án endurgjalds.
Þarna voru á degi hverjum, auk kennara og háskólastúdenta, unglingar, sumir hverjir að því er mér sýndist, af litlum efnum, sem nýttu sér þetta. Bókasafnið sem ég var á, var vel búið bókum og tækjakosti og greinilega var reynt að gera vinnuaðstöðuna eins þægilega og heimilislega og kostur var. Á afmörkuðum svæðum voru hægindastólar þar sem fólk gat látið fara vel um sig við lesturinn. Nokkuð var ég var við að inn á safnið slæddist fólk sem fyrst og fremst var komið til að heimsækja þessa hægindastóla. Einn mann sá ég koma þarna reglulega og leggja sig til svefns. Hafði ég grun um að sá maður hefði ekki í mörg hús að venda til að hvílast. Ekki þótti mér þetta vera til eftirbreytni, heldur hitt, af hve miklu umburðarlyndi þessu var tekið. Það kom mér sannast sagna nokkuð á óvart og vakti aðdáun mína. Ég sagði nýlega frá því hér á síðunni að einhvern tímann hefði ég heyrt að loftvogin á umburðarlyndi Dana væri afstaðan til íbúa í Kristjaníu sem hefðu í trássi við lög og reglur búið um sig í hjarta Kaupmannahafnar og lifðu þar lífinu samkvæmt eigin forskrift. Þegar danska þjóðin væri í góðu jafnvægi léti hún Kristjaníubúa í friði; þegar órói væri í dönsku sálarlífi, væri hins vegar látið til skarar skríða gegn Kristjaníubúum. Þetta kom upp í hugann einhverju sinni þegar í næsta stól við mig á safninu þarna í Minneapolis hafði búið um sig maður og hraut þar háum pirrandi hrotum. Þá varð mér hugsað til Dana og ákvað að gera þetta að prófsteini á sálarró mína! Fyrr en varði létu hroturnar í eyrum sem stef í stórri samfélagssinfóníu.
Háskólinn á að vera fyrir alla
Í Minneapolis og St. Paul eru margir háskólar, en einn ber höfuð og herðar yfir alla og er þeirra langstærstur. Hann var settur á laggirnir af Minnesota-ríki og til hans rennur skattfé. Í Minnesóta stæra menn sig af sögu skólans og segja hann hinn fyrsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum sem var opinn öllum. Á þetta voru lesendur Minnesota Daily minntir í leiðara 26. júlí.
Nú er það svo að Minnesóta háskóli, eins og flestir öflugustu háskólar Bandaríkjanna hafa opnað dyr sínar fyrir góðu náms- og vísindafólki, bæði erlendu og aðkomnu annars staðar frá í Bandaríkjunum. Leiðarahöfundur Minnesota Daily segir ásókn í afburðafólk koma niður á því meginhlutverki háskóla að veita almenningi góða menntun. Ef háskólinn ræki ekki þetta hlutverk gagnvart samfélaginu, gagnvart ungu fólki í Minnesóta, bregðist skólinn skyldum sínum, og fyrir sitt leyti bregðist stjórnvöld láti þau háskólann komast upp með þetta, segir leiðarahöfundur ennfremur og bætir því við að skólinn sé fjármagnaður af almannafé og hann eigi að þjóna almenningi en ekki verða forréttindastofnun á borð við Harvard, Yale eða Princeton. Þessi boðskapur í Minnesota Daily þótti mér góður!
Þröngur sjóndeildarhringur fjölmiðla
Auðvitað er himinn og haf á milli þess besta og versta í bandarískri fjölmiðlun. Athygli flestra Evrópumanna vekur þó að ég held, hve þröngur sjóndeildarhringur bandarískra ljósvakamiðla almennt er. Í Minneapolis eru menn þannig mjög uppteknir af því sem fram fer í þeirri borg og í Minnesótaríki. Bush forseta og öðrum frá miðstjórninni í Washington bregður að sönnu fyrir í mörgum fréttatímum, að ógleymdu Íraksstríðinu. Að öðru leyti virtist umheimurinn þó ekki koma mönnum mikið við.
Undantekning voru sprengjutilræðin í Bretlandi. Þá var í nokkra daga bein útsending, alllöng, frá London í hverjum fréttatíma enda tengingin við hryðjuverkamaníu Bandaríkjastjórnar og bandarískra fjölmiðla augljós.
Tónarnir sem slegnir voru í fjölmiðlaumræðunni þessa daga voru ekki allir á einn veg þótt ofstækistal þeirra Blairs forsætisráðherra Bretlands og Bush Bandaríkjaforseta væri mest áberandi. Bush heyrðist tauta í hljóðnema fréttastofanna að hryðjuverkamenn ættu enga hugsjón og enga samvisku. Blair talaði eins; sagði fráleitt að tengja tilræðin Íraksstríðinu. Þetta sagði hann þrátt fyrir að hófsamir talsmenn múslíma í Bretlandi hefðu opinberlega vakið athygli á þessari tengingu. Þessum kumpánum tveimur virðist lítið koma við hvað aðrir segja. Þeim kemur það eitt við hvað þeirra eigin áróðursmeistarar telja heppilegt hverju sinni. Það var hins vegar gott að heyra Ken Livingstone, borgarstjóra í London, ræða þessi mál af rósemi og yfirvegun. Hann sagði, að væri svo komið að fólk væri í stórum hópum tilbúið að taka líf sitt og annarra, yrðum við að horfa á það af raunsæi að ekkert gæti stöðvað slíkt. Ken Livingstone talaði þannig gegn eftirlitsþjóðfélaginu og hvatti til þess að menn reyndu að horfa niður í rætur vandans, að leita skýringa á sjálfsmorðsárásum og koma með skynsamlegum hætti í veg fyrir ofbeldi og hryllingsverk af þessu tagi. Það var góð tilfinning að hugsa til þess að þessi rödd borgarstjóra Lundúnaborgar fengi hljómað um Bandaríkin!
Um píslarvotta
Sjálfum kom mér í hug rannsókn sem gerð var í Palestínu fyrir nokkrum misserum um tilhneigingu ungmenna þar til að vilja binda enda á líf sitt og annarra í sjálfsmorðsárásum. Í heimsókn þangað í upphafi árs hitti ég félagsfræðing, Vivecu Hazboun að nafni, sem hafði skipulega kannað sálarástand palestínskra barna. Slembiúrtak á meðal 450 barna hafði sýnt að 380 þeirra voru sjúklega bæld. Í annarri könnun voru eitt hundrað börn spurð um framtíðaráforn sín og drauma. Af þessum eitt hundrað börnum sýndu 80 merki um doða og lífsleiða, kváðust enga framtíð sjá eða hreinlega neituðu að tjá sig. Þessi hópur fékk sérstaka aðhlynningu. Að nokkrum mánuðum liðnum voru mörg farin að tjá sig en óhug vakti að fjórðungur þeirra vildi helst verða martírar, deyja fyrir málstað Palestínumanna. Enn var börnunum sinnt vel og að þeim hlúð og sagði félagsfræðingurinn okkur að ekkert þessara ungmenna hefðu gerst sjálfsmorðshermenn, þótt dauðaóskin væri þeim aldrei fjarlæg – enda lífsskilyrði þeirra hrikaleg.
Hvers vegna skyldu engar sjáfsmorðsárásir vera gerðar á Íslandi? Skyldi það vera vegna þess að ungt fólk á Íslandi er frábrugðið ungu fólki á meðal þeirra þjóða þar sem þessa gætir. Nei. Ástæðan er sú að við búum við allt aðrar aðstæður. Á Íslandi fengju hryðjuverkamenn engan hljómgrunn fyrir ofbeldisaðgerðir. Hvers vegna skyldi það vera? Ungt fólk eygir flest allt góða framtíð; það þarf ekki að horfa upp á ofbeldi og niðurlægingu eins og æskan sums staðar í heiminum þarf að
Einnig er á hitt að líta að í þjóðfélögum þar sem hryðjuverk tíðkast sameinast samfélagið, með stjórnvöldin í broddi fylkingar, í því að upphefja hryðjuverkamennina og
Nákvæmlega þetta þótti mér mjög áberandi í Bandaríkjunum. Þegar sagt var frá dauða bandarískra hermanna í Írak í sjónvarpsfréttum, var þeim gert mjög hátt undir höfði sem einstaklingum, yfirleitt kom yfirlýsing frá forsetanum eða hátt settum stjórnmálamönnum um að viðkomandi hermaður hefði dáið fyrir föðurlandið og göfugan málstað. Stundum heyrðist í stoltum foreldrum hins látna taka í sama streng. Ekki sé ég nokkurn mun á þessu og upphafningu sjálfsmorðssveitarmanna sem fórna lífi sínu fyrir málstað sem þeir og þeirra samfélag trúir á.
Vissulega er þarna, sem í öðru, erfitt að alhæfa. Þannig dreg ég skýra línu annars vegar á milli ofbeldismannsins sem jafnan kemur fram á sjónarsviðið og fær þrifist við ofbeldisfullar aðstæður og hins vegar vonlausa ungmennisins sem lifað hefur við niðurlægingu og hefur í uppgjöf sinni blindast og ekki séð aðra kosti en tortímingu.
Grasrótarandóf og áminning um hin æðri gildi
Enda þótt bandarísk yfirvöld dýrki ofbeldið og upp um húsveggi margra stórbygginga sé að finna lofgjörð og ákall til h
Í Bandaríkjunum eru starfandi ýmis samtök gegn stríðsrekstrinum í Írak. Þannig hafa myndast baráttuhópar foreldra hermanna sem vilja ungmennin heim og fjöldinn allur af fólki, einstaklingar einir á báti eða í samtökum, beitir sér af alefli gegn stríðsrekstrinum. Á gönguleið minni á bókasafnið var hús þar sem greinilega bjuggu virkir andstæðingar stríðsins og eindregnir friðarsinnar. Á skilti fyrir utan húsið var hvatning um að bandarískir hermenn yrðu kallaðir heim frá Írak og höfðað var til vegfaranda að hlusta á hin æðri siðrænu rök í þessu máli. Mín tilfinnig er sú að það krefjist ákveðins hugrekkis að ganga eins langt og þetta fólk gerir, einfaldlega vegna þess að hinn þungi áróðursstraumur gengur í gagnstæða átt. Ég velti því fyrir mér hvort stóru ljósvakafjölmiðlarnir hleypi foreldrum fallinna hermanna sem hafa þessar skoðanir inn í fréttatímana til að tala gegn hinum "göfuga málstað" þegar fréttir berast af falli þeirra.
Þegar fólk fólk er spurt álits í nafnlausum skoðanakönnunum kemur í ljós að andstaða við stríðið eykst. Í einni könnum árið 2003 kom fram að andstæðingar stríðsins voru 33% en þegar sami aðili spurði að nýju nú nýlega var andstaðan komin upp í 53%.
Afturhvarf til miðalda?
Sú pólitíska umræða sem vakti athygli mína mest í Bandaríkjunum snerist um trúmál og vísindi.
Í fyrsta lagi er að nefna að trúmál virðast verða sífellt ríkari þáttur í bandarískri stjórnmálaumræðu. Bush forseti fylgir kristinni strangtrúarstefnu og fer á engan hátt í launkofa með það. Þvert á móti, þá auglýsir hann þetta eins og kostur er. Menn kunna að minnast þess að fyrir forsetakosningarnar 1999 lýsti hann því yfir að Guð vildi að hann yrði forseti og væri hann reiðubúinn að hlíta kalli almættisins. Í kjölfarið hvatti hann kristna menn um að fylkja sér um framboð sitt.
Bush og félagar virðast hafa haft árangur sem erfiði einsog vikið verður að síðar í þessum pistli því yfirgnæfandi meirihluti kirkjurækinna Bandaríkjamanna styður Bush í kosningum.
Látum það vera að kirkjuræknir Bandaríkjamenn styðji Bush sem gefur sig út fyrir að vera mjög trúrækinn mann. Öllu alvarlegra er það sem er að gerast í vísindasamfélaginu af hans völdum og trúarhaukanna sem hafa nú komið sér fyrir í stjórnkerfinu í Washington.
Markvisst vinnur þessi hópur að því að skrúfa Bandaríkin aftur í tímann – nánast inn í myrkur trúarofstækis Miðaldanna einsog við þekkjum það úr sögu Evrópu. Þessi ofstækishópur hafnar til dæmis þróunarkenningu Darwins og öllum vísindalegum rannsóknum síðustu alda um þróun mannsins og myndun jarðarinnar; öllum kenningum sem stríða gegn boðskap Gamla Testamentisins og Biblíunnar í heild sinni. Þeir hampa bókstaf Biblíunnar hvort sem það er um um sköpun heimsins, Nóaflóðið eða annað. Bókstafur Biblíunnar er sannur, við hann eigum við að styðjast, segja þeir og þeir fylgja málstað sínum eftir til hins ítrasta. Eitt dæmi um þetta eru átökin um hvaða bækur skuli vera í boði í verslunum í þjóðgarðinum í Miklagljúfri í Bandaríkjunum. Bókstafstrúarmenn staðhæfa að gljúfrið sé tiltölulega ungt og hafi orðið til í "stórkostlegum hamförum" og vísa þó í "Nóaflóðið" sem fjallað er um í sjöunda kafla Mósebókar. Bókstafstrúarmenn hafna öllum vísindarannsóknum um aldursgreiningu jarðarinnar og hafa sett sín sjónarmið fram á grundvelli Biblíunnar m.a. í riti um Stóragljúfur, Grand Canyon: A Different View. Þetta rit vildu þeir að yrði til sölu í þjóðgarðinum. Þegar bókin var komin í söluhillurnar mótmæltu helstu samtök jarðfræðinga í Bandaríkjunum og var bókin þá tekin úr sölu. Þá tóku ýmis samtök bókstafstrúarmanna til sinna ráða og hófu mikla herferð með undirskriftasöfnunum auk þess sem þau snéru sér til innanríkisráðherrans í Bush stjórninni, Gales Nortons, og leituðu liðsinnis hans. Nú er bókin til sölu í þjóðgarðinum og flokkuð undir vísindi!
"Intelligent Design"
Um þessa þróun hefur nokkuð verið ritað. Mest áberandi er umræðan í vísindatímaritum, sértaklega Science, einu virtasta vísindariti Bandaríkjanna, en í bandarískum blöðum er umræðan einnig áberandi og sá ég, þann tiltölulega stutta tíma sem ég dvaldist í Minneapolis, greinar og lesendabréf um þetta efni. Á Íslandi hefur lítið verið talað um þetta efni, enda fjarlægt okkur – enn sem komið er - en þó hef ég nýlega lesið tvær afbragðs góðar greinar um þetta málefni í Morgunblaðinu, annars vegar eftir
Grein
Leiðari á leiðara ofan í Science, helsta vísindatímariti Bandaríkjanna hefur fjallað um þetta málefni og er greinilegt að uggur er í mönnum þar á bæ.
Enda ekki að undra: Í fjörutíu ríkjum Bandaríkjanna eru til umfjöllunar lagafrumvörp og tillögur sem ganga út frá að skylda skóla til að kenna "sköpunarfræði" , þ.e. boðskap Biblíunnar til jafns við aðrar skýringar á myndun jarðarinnar og uppruna mannsins!
Í fyrrnefndri grein
Í grein sem birtist í Science 27. febrúar 2004 eftir Constance Holden, vísar höfundur í samtal sitt við Randy Moore frá Minnesota háskóla þar sem hann bendir á að samkvæmt könnunum leggi 15 – 20% líffræðikennara í Bandaríkjunum sköpunarsögu Bilblíunnar til grundvallar kennslu sinni. Ég skildi það svo að þetta gerðu þeir af eigin sannfæringu. Þetta segir Moore til að leggja áherslu á að menn skuli ekki vanmeta áhrifin af þrýstingi trúarofstækismanna. Jarðvegurinn sé nefnilega fyrir hendi!
Hvernig gerist þetta? Deilur vísindamanna og áhangenda sköpunarfræðinnar eru ekki nýjar af nálinni. Þær hafa geisað um aldir. "Epur si muove, Hún snýst nú samt " er Galileó sagður hafa muldrað þegar kenningar hans um að jörðin snérist um sólu voru dæmdar rangar, "trúvilla", af rannsóknarrétti kaþólsku kirkjunnar á 17. öldinni. Eftir að Darwins kenningin um þróun mannsins varð viðtekin í heimi vísindanna á 19. öld blossuðu upp miklar deilur sem staðið hafa fram á þennan dag en þó hefur lítið farið fyrir þeim í hinum vestræna heimi þar til á síðustu árum.
Í Bandaríkjunum gerist það árið 1987 að Hæstiréttur Bandaríkjanna kveður upp úr með það í dómsmáli að sköpunarsagan einsog hún er boðuð í Biblíunni og kenningar henni tengdar, skuli flokkast undir trúmál og sé óheimilt að kenna sköpunarsögu Biblíunnar sem vísindi í skólum.
Sköpunarsögumenn létu ekki hugfallast við þetta. Smám saman breyttu þeir um h
Að sjálfsögðu eru engar vísindalegar forsendur til staðar en reynt er að grafa undan vísindahugsun almennt með því að segja vísindin byggja á huglægum forsendum. Til dæmis er því haldið fram að vísindalegar niðurstöður verði til eftir "ferli sem byggi á sannfæringu ("scientific conclusions inevitably emerge from a process of pesruasion..."). Þetta segir í grein eftir Steve Olson í Science 7. maí 2004.
Greinin, sem fjallar um nýútkomið greinasafn um Intelligent Design er mjög gagnrýnin í garð sköpunarsinna og segir Olson í lok greinarinnar að án efa muni sköpunarsinnar túlka þessa grein sína sem viðurkenningu á mikilvægi þessarar umræðu; Science hafi viðurkennt sköpunrfræðina sem vísindalega með því að taka bókina til umfjöllunar!Einmitt þetta er herlist Intelligent Design manna: Að gera sköpunarfræðina gjaldgenga og jafngilda niðurstöðum náttúruvísindamanna. Í bandaríska stjórnkerfinu og í skólastjórnum um land allt er nú tekist á um einmitt þetta. Í sumum skólum, t.d. í Pennsylvaníu, ( sjá Science 5. nóvember 2004) er kennurum þegar fyrirskipað að kenna sköpunarsöguna til jafns við aðrar kennigar í líffræði og jarðfræði. Sem áður segir er tekist á um þetta í fjörutíu ríkjum Bandaríkjanna og sækja strangtrúarmenn stöðugt í sig veðrið, dyggilega studdir af Bush stjórninni.
Háskólar og vísindamenn á undanhaldi fyrir nornaveiðimönnum Bush
Það sem runnið hefur upp fyrir mér, eftir að ég fór að leggja mig sérstaklega eftir því að kynna mér þessa umræðu, er að hún er dauðans alvara. Vísindahugsun sem byggir á niðurstöðum tilrauna og efahyggju á í alvöru undir högg að sækja í Bandaríkjunum gagnvart kennisetningum sem eiga uppruna í trúarbrögðum. Fyrrnefnt dæmi frá þjóðgarðinum í Miklagljúfri er sláandi. Þessu gerir blaðakonan Esther Kaplan rækilega skil í bók sinni, With God On Their Side: How Christian Fundamentalists Trampled Science, Policy and Democracy in George W. Bush´s White House.
Sjálfur hef ég ekki lesið bók Kaplans, en
Ein samtökin enn, af þessu sama sauðahúsi, National Association for the Research and Therapy of Homosexuality segjast hafa "uppgötvað" að samkynhneigð sé andlegur sjúkdómur, sem lækna megi með meðferð. Þessi og önnur samtök hafa fengið því áorkað að upplýsingar um smokkinn og ýmislegt sem lýtur að heilbrigði og öryggi í kynlífi hafi verið tekið út af opinberum vefsíðum því þær stuðli að lauslæti. Þá vitnar
Í ritstjórnargrein í Science frá 8. apríl síðastliðnum er fjallað um þessa sókn sköpunarsinna inn á vettvang vísindanna sem ógnun við gagnrýna hugsun og vísindaleg vinnubrögð sem einkennt hafi vestræn þjóðfélög síðustu tvö hundruð árin. Á þessum tíma hafi menn farið að nálgast ráðgátur náttúrunnar með rannsóknum og niðurstöður úr þeim hafi vísað veginn en ekki trú byggð á kennisetningum helgirita. Þessi afstaða hafi að verulegu leyti átt uppruna sinn í Upplýsingu 18. aldarinnar. Blaðið minnir á að á þeim tíma hafi verið hætt að ofsækja trúvillinga. Leiðarahöfundi, Donald Kennedy, aðalritstjóra þessa virta tímarits, er þungt niðri fyrir. Hann botnar ekki þessa hugsun um ofsóknir á hendur trúvillingum, en hugrenningatengslin og skilaboðin eru augljós. Bandarískir vísindamenn eru í alvöru farnir að óttast um sinn hag!
Tengsl stjórnmálanna við trúarhreyfingu og verkalýðshreyfingu
Af vettvangi bandarískra stjórnmála vekur tvennt sérstaka athygli nú um stundir. Annars vegar tengsl stóru stjórnmálaflokkanna tveggja, Demókrataflokksins (hins hófsama hægri flokks) og Repúblikanaflokksins (harðlínuhægrihyggjunnar), við verkalýðshreyfinguna annars vegar og og hins vegar við trúmálin. Fyrst að hinu síðara.
Í tímaritinu U.S. News and World Report (frá 25.júlí) segir að um fjórðungur kjósenda í Bandaríkjunum séu mótmælendatrúrar ("evangelical Christians") og að þeirra á meðal hafi 4 á móti hverjum einum sem studdi demókratann Kerry greitt atkvæði með repúblikananum Bush. Á meðal kaþólskra kjósenda hafi hlufallið verið 56% - 44% Kerry í óhag, en sjálfur er Kerry kaþólikki, nokkuð sem talsvert var auglýst fyrir kosningarnar.
Erfitt að átta sig á tölunum, enda nokkuð misvísandi frá einni könnun til annarrar, en samkvæmt flestum könnunum er niðurstaðan þegar á heildina er litið samskonar.
Í þeirri könnun, sem U.S.News and World Report byggir á, kemur ekki fram hvort hér sé einvörðungu um að ræða þá sem gefa upp trú sína eða þá sem eru kirkjuræknir en hið síðara þykir mér vera sennilegt. Það kemur einnig heim og saman við könnum Pew Research Center, sem komst að þeirri niðurstöðu að " tveir af hverjum þremur sem kusu í síðustu kosningum og ganga til kirkju vikulega eða oftar greiddu Bush atkvæði sitt á meðan sama hlutfall þeirra sem kusu og sækja aldrei trúarsamkomur greiddu John Kerry ...atkvæði sitt" ( sjá í áður ívitnaðri grein
Demókratar sækja á mið trúarbragðanna
Demókratar hafa vaxandi áhyggjur af ítökum repúblikana á meðal kristinna safnaða. Howard Dean, einn af vonbiðlum Demókrata fyrir síðust forsetakosningar og núverandi formaður flokksins, hefur hafið herferð fyrir hönd flokksins til að fá kristna menn til fylgis við hann. Inn í þessa mynd kemur síðan Jim nokkur Wallis, 57 ára höfundur metsölubókar um trúmál og pólitík, sem ber titilinn God´s Politics: Why the Right Gets It Wrong and The Left Doesn´t Get It. Jim Willis er jafnframt ritstjótri kristilegs tímarits sem heitir Sojourners og hann er forseti samtakanna Call to Renewal, en það eru samtök trúarlegra hópa gegn fátækt.
Jim Wallis segist ekki vera flokkspólitískur og hafi einnig ráðlagt Repúblikanaflokknum. Hins vegar er ljóst að Demókratar leggja mikið upp úr ráðgjöf hans enda hnígur hún öll inn á miðju stjórnmálanna en alls ekki til hægri. Þannig talar hann um mikilvægi gildishlaðinnar umræðu ("values") í stjórnmálum og vísar Wallis þar til trúarlegra gilda. Hann er að vísu mótfallinn fóstureyðingum en styður réttindabaráttu samkynhneigðra og er andvígur stríðsreksrinum í Írak. En framar öllu öðru leggur hann áherslu á baráttu gegn fátækt og segir þetta hafa verið þungamiðjuna í kristinni boðun.
Þess má geta að í aðdraganda G8 fundarins í Skotlandi fyrr í sumar fór Wallis fyrir hópi kirkjunnar manna á fund Gordons Browns, fjármálaráðherra Bretlands til að tala fyrir niðurfellingu skulda fátækra þjóða og sanngjarnari viðskiptaháttum gagnvart Afríkuríkjum.
Innan Demókrataflokksins er nú starfandi hópur sem kallast Democratic Faith Working Group. "Starf okkar fjallar um hvernig megi hlú að ekkjum og munaðarleysingjum" segir fulltrúadeildarþingmaðurinn James Clyburn, formaður þessa hóps í viðtali við U.S. News and World Report (sbr.að framan). Augljóst er að áherslur Demókrata og Repúblikana eru ólíkar. Repúblikanska flokksmaskínan leggur áherslu á bókstafstrú en Demókratar á mikilvægi félagslegs réttlætis.
Almennt virðist Jim Wallis hafa áunnið sér virðingu og þykir trúverðugur. Til marks um það má nefna að höfð eru eftir Wallis þau ummæli um Howard Dean að sé hann ekki trúaður í raun eigi hann ekki tala eins og svo sé.
Á pólitísku trúarstarfi demókrata eru þó einnig dekkri hliðar. U.S. News and World Report segir þannig frá því að starfsenn Demókrata víðs vegar í Bandaríkjunum séu að fara yfir pólitískar yfirlýsingar trúarsafnaða til að draga af þeim lærdóma fyrir sína menn þannig að þeir geti hagað málflutningi sínum svo hann falli í kramið hjá þessum hópum. Þetta er ekki beint í anda Jim Wallis og félaga.
Það sem meira er, farið er að þrengja að frjálslyndum demókrötum til að koma strangtrúarmönnum í framsætið. Þannig kemur fram að í Pennsylvaníu reki Demókrataflokkurinn opinberlega áróður fyrir því að Bob Casey verði kjörinn öldungardeildarþingmaður í kosningum á næsta ári í stað sitjandi þingmanns Ricks Santorums. Ástæðan er sú, samkvæmt U.S. News and World Report, að Casey þessi er andvígur fóstureyðingum. Þess er getið í frásögn tímaritsins að faðir Caseys, Robert Casey, fyrrum fylkisstjóri, hafi verið meinað að tala á landsþingi Demókrataflokksins 1992 vegna andstöðu hans við fóstureyðingar. Það sem þótti óheppilegt þá þykir eftirsóknarvert nú. Þannig blása nú íhaldssamir vindar.
Af þessu hefur margt frjálslynt fólk nú áhyggjur. Þannig segir segir Kim Gandy, formaður Landssambands bandarískra kvenna (National Organization for Women): "Með fullri virðingu fyrir Jim Wallis...þá hef ég engan áhuga á að stofnuð verði hreyfing "framfarasinnaðra" kristinna manna, frekar en ég vili sjá íhaldssömu hreyfinguna sem nú reynir að fara sínu fram".
Þá má geta þess að mörgum frjálslyndum demókrötum er lítið um það gefið að flokkur þeirra setji stefnumál sín um félagslega aðstoð og félagslegt réttlæti í trúarlegt samhengi. Menn eigi semsé að ræða um rétt ekkjunnar og munaðarleysingjans á öðrum forsendum en boðorðum og kennisetningum Biblíunnar.
Pólitík og verkalýðshreyfing
Talsverðar væringar eru nú innan bandarísku verkalýðshreyfingarinnar. Þannig ríkir upplausnarástand innan stóru samsteypunnar AFL-CIO (American Federation of Labor and Congress of Industrial Organizations) eftir að mörg stærstu samböndin hafa hótað að ganga úr þessum heildarsamtökum. AFL-CIO var stofnað fyrir fimmtíu árum en deilur um kosningareglur valda úlfúðinni sem nú ríkir.
Hreyfingin er einn helsti skipulagði bakhjarl Demókrataflokksins og hafa ýmsir forystumenn flokksins áhyggjur af því að verkalýðshreyfinign komi til með að eiga erfiðara um vik að samræma pólitískan áróður sinn ef heildarsamtökin tvístrast auk þess sem átök innan hreyfingarinnar muni beina kröftum manna inn á við á kostnað hinnar pólitísku baráttu. Í sunnudagsblaði St Paul Pioneer Press, 24. júlí, er fjallað um þetta efni. Haft er eftir Steve Elmendorf aðstoðarkosningastjóra Kerrys í síðustu forsetakosningum, að það myndi hafa "afar slæmar afleiðingar" í för með sér ef Demókratar hættu að njóta stuðnings verkalýðshreyfingarinnar.
Í AFL-CIO eru 13 milljónir félagsmanna. Fram kemur í blaðinu að á heimilum fjórðungs bandarískra kjósenda séu félagar í verkalýðsfélögum og sé litið á þennan hóp kjósenda afmarkað megi ætla að Kerry hafi þar haft 5,8 milljón atkvæði umfram Bush. Blaðið segir að í síðustu kosningabaráttu hafi "á vegum verkalýðshreyfingarinnar verið send í pósti yfir 30 milljón áróðursbréf, starfræktar hafi verið 257 símamiðstöðvar með samtals 2,322 símalínum í 16 ríkjum." Þótt verkalýðsfélög hafi sum stutt Kerry, önnur Dean og sum John Edwards í forkosningum demókrata, hafi þau öll sameinast í stuðningi við Kerry þegar á hólminn var komið. Talið sé að félagar í verkalýðsfélögum hafi síðan kosið Kerry umfram Bush tveir á móti einum.
Talsmenn verkalýðsfélaganna taka undir þær áhyggjur forystumanna demókrata að sundrist hreyfingin verði öll samhæfing af þeirra hálfu mun erfiðari en fram til þessa.
Ekki hafa þó allir áhyggjur af ástandinu. Þannig er haft eftir Charles Schumer frá New York, formanni kosninganefndar öldungardeildarþingmanna Demókrata, að þegar allt komi til alls horfi launafólk á hver sé forgangsröð flokkanna og ráði hún afstöðu fólks fremur en nokkuð annað. Hér standi demókratar miklu betur að vígi en repúblikanar.
Þetta minnir á gamalt deilumál víða í Evrópu: Að hvaða marki er eðlilegt að verkalýðshreyfingin komi að pólitískum kosningum og stuðningi við einstaka flokka? Mín afstaða er mjög eindregið sú að verkalýðshreyfingin eigi að skipta sér af pólitískum málefnum sem skipta launafólk miklu en fara mjög varlega hvað varðar stuðning við stjórnmálaflokka. Það eigi að láta fólki eftir að gera sem einstaklingar. Verkalýðshreyfingin á semsagt samkvæmt minni skoðun að berjast fyrir málefnum, ekki pólitískum stofnunum eða samtökum. Þegar allt kemur til alls, hvers á minnihlutinn í hreyfingunni að gjalda, þessi eini á móti hverjum tveimur sem studdu Kerry. Við skulum ekkert gefa okkur að andstæðingar Kerrys innan verkalýðshreyfingarinnar vilji allir Bush og hans líka. Og ef svo er, að launafólk vilji styðja Bush verðum við hin ekki þá að bíta í það súra epli? Er þetta ekki grundvallarreglan í lýðræðisþjóðfélagi, að virða rétt manna til að hafa sjálfstæðar skoðanir?
Ýmsir þankar um þjóðlíf
Glöggt er gestsaugað segir máltækið. Þetta held ég að eigi sérstaklega við um þá þætti í fari þjóða sem koma gestinum á óvart eða eru frábrugðnir því sem hann á að venjast heima fyrir. Eitt atriði vil ég minnast á og það er afstaðan til reykinga annars vegar og áfengisneyslu hins vegar. Þarna eru Bandaríkjamenn miklu eindregnari en við erum. Í New York þar sem ég var fyrr á árinu og nú í Minneapolis eru reykingar almennt ekki leyfðar á veitingahúsum og kaffistöðum og má ráða af fólki sem hímir reykjandi utanvið skrifstofubyggingar að bann við reykingum virðist almennt ríkjandi á vinnustöðum.
Í CityPages – The News and Art Weekly of the Twin Cities, hinn 27. júlí, segir frá óförum Mathews Depris Moores eða öllu fremur kráareigandans sem fékk hann sem viðskiptavin laugardagskvöldið 23. apríl síðastliðinn. Moore þessi mun samkvæmt frásögn blaðsins og lögregluskýrslum hafa drukkið ótæpilega, reyndar svo mjög að hann missti meðvitund. Lögreglan var kvödd á staðinn. Ekki segir nánar af afdrifum Moores en hitt fáum við að vita að kráareigandinn var sektaður um 500 dollara "fyrir að halda áfram að þjóna viðskiptavini sem var sýnilega ölvaður". Þetta gera Kanar. Sennilega yrði talsvert um sektir á íslenskum veitingastöðum ef við færum eins að hér á landi!
Margt leitaði á hugann þessa daga sem ég dvaldi í Bandaríkjunum undir lok júlí, margt jákvætt, sumt neikvætt. En þannig er það líka að hið neikvæða getur orðið jákvætt ef því er veitt í uppbyggilegan farveg. Þannig sýnist mér umræðan um lygavefinn sem Bush stjórnin spann í tengslum við innrásina í Írak vera að örvast. Margar blaðagreinar sá ég um þetta efni. Þá er að sjálfsögðu jákvætt að bandarískir vísindamenn virðast vera að vakna til lífsins. Fjöldi fremstu vísindamnna Bandaríkjanna hefur nú undirritað skjal til að mótmæla afskiptum stjórnvalda af vísindarannsóknum. Þetta er jákvætt. Hið skuggalega er að á þessu skuli vera þörf í byrjun 21. aldarinnar.
Hin haga hönd og gott viðmót
Víða koma listrænir hæfileikar að góðu gagni. Í grennd við þann stað þar sem við dvöldumst var skemmtigarður mikill. Þar hafði komið upp sýking í trjám, svo alvarleg að fella varð trén. Þetta voru álmtré, mörg hver mjög gömul og var mönnum eftirsjá að þeim. Ekki lét fólk þó hugfallast við þetta og var efnt til keppni í garðinum á milli útskurðarmeistara um hver gæti gert skemmtilegastu útskurðarmyndina úr trjástofninum sem eftir stóð er trén höfðu verið felld. Manninn á ljósmyndinni tók ég tali. Aðallega vildi hann segja mér hve hinir úrskurðarmeistaranir væru góðir og vildi gera lítið úr eigin hæfileikum. Viðmót þessa manns var hið þægilegasta. Það er mér reyndar eftirminnilegast frá þessari dvöl minni í Minnesóta hve þægilegt og viðmótsgott allt það fólk sem ég hafði samskipti við reyndist vera.