HVAR ER ALÞJÓÐASAMFÉLAGIÐ?
Oft hefur sú spurning sveimað um huga minn hvað hið svokallaða alþjóðasamfélag er í raun og veru.
Nú, þegar í fyrsta sinn í gervallri sögu mannkyns er hrópandi þörf á samstöðu þjóða heimsins kemur á daginn að þetta hugtak „alþjóðasamfélag“ hefur heldur rýrt innihald.
Engin merki sjást um alþjóðlegt samráð. Ekki heldur sameiginlegar alþjóðlegar aðgerðir. Nú taka stjórnvöld hver í sínu landi sínar eigin ákvarðanir; og það er eins og enginn taki eftir því. Það talar enginn um það.
Aldrei fyrr hafa þjóðir heims haft ríkari ástæðu til samráðs og samstilltra ráðstafana. Kínaveirufaraldurinn var í raun tækifærir þjóðanna til að sýna hvað búið getur í alheimssamstöðu; að sýna að til væru raunveruleg alþjóðastjórnmál.
Þess í stað gefur Bandaríkjaforseti út einhliða tilskipun um ferðabann. Sama gerir Evrópubandalagið og það er eins og Sameinuðu þjóðirnar séu ekki til.
Þetta allsherjarafskiptaleysi alþjóðasamfélagsins er himinhrópandi. Nú hugsa stjórnvöld í hverju landi um sig eingöngu. Það er hver sjálfum sér næstur.
Til hvers er þá þetta svokallaða alþjóðasamstarf ef ekki er á grundvelli þess að gripið sé til sameiginlegra ráðstafana í ástandi eins og nú skekur veröldina?
Snúast alþjóðastjórnmál kannski eingöngu um það hverjir fara með völdin í heiminum? Snúast þau kannski bara um hernað með tilheyrandi eyðileggingu, dauða og hruni samfélaga.
Þjóðir heimsins hafa komið upp um sig. Alþjóðastjórnmál eru í raun ekki sá trausti þáttur í lýðræðisskipulagi þjóðanna sem flest okkar hafa bundið vonir okkar við.
Alþjóðastjórnmálin hafa beðið ósigur. Þau eru ónýt og það er mikið verk að koma þeim í það horf sem heimurinn þarfnast.