Fara í efni

ÁNÆGJULEG TÍÐINDI ÚR UMHVERFISRÁÐUNEYTI

Alþingi samþykkti í vor þingsályktun þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra var falið að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni á Heiðarfjalli á Langanesi og gera tímasetta áætlun um hreinsun á úrgangs- og spilliefnum á svæðinu.

Í frétt frá ráðuneytinu í gær kemur fram að þessi vinna sé hafin eða í þann veginn að hefjast og er það vel. Bandarísk herstöð var á Heiðarfjalli á árunum 1957 til 1970. Samkvæmt “varnarsamningnum” sem svo er kallaður var herinn skuldbundinn til að hreinsa upp eftir sig sem þó aldrei var gert. Betra er seint en aldrei. Ætla má að leitað verði til Bandaríkjahers og NATÓ í þeirri vinnu sem framundan er.  

Mest er um vert að hreyfing er komin á málið og er að skilja á fréttum að byggt verði á rannsóknarvinnu sem þegar liggur fyrir frá kanadískum vísindamönnum en sú vinna mun hafa farið fram á vegum landeigenda. Þeir hafa bankað upp á í íslenskri stjórnsýslu í hálfa öld – án árangurs. Þar til nú. Það er fagnaðarefni.

Í vor komst hreyfing á málið: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kaflaskil-kolbeinn

Og nú virðist málið að komast í þann farveg sem Alþingi mælti fyrir um: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/26/Vinna-hafin-a-grundvelli-thingsalyktunar-um-Heidarfjall/

Sjá einnig frétt RÚV: https://www.ruv.is/frett/2021/08/26/hreinsa-a-bly-og-uranium-af-heidarfjalli