Fara í efni

ÁRÁSARGJÖRN STARFSMANNA-STEFNA HJÁ STRÆTÓ VERÐUR EKKI UMBORIN

Komdu sæll Ögmundur.
Mig langar að spyrja hvort það sé rétt að borgarstjóri hafi lagt blessun sína yfir framkomu framkvæmdastjóra Strætó bs.gagnvart trúnaðarmönnum okkar. Hafi hann sagt að þetta væri allt saman í góðu lagi og stjórnendur strætó á grænni grein með sín starfsmannamál, mun þetta fyrirtæki einfaldlega hrynja að mínu mati. Og þá er ef til vill tilganginum náð hjá þeim. Ég treysti mér ekki til að vinna hjá fyrirtæki með árásargjarna starfsmannastefnu, svo ég tali aðeins fyrir mig. Ég er búin að vinna hjá Strætó í 21 ár, og það er sárt að snúa baki við sínu starfi og þeim vinum sem ég hef eignast á meðal farþega og starfsfélaga. Ég segi að hér séu dapurlegir atburðir í uppsiglingu, fái valdníðsla að líðast innan borgarfyrirtækja. Í ljósi yfirlýstrar starfsmannastefnu borgarinnar, þykir mér þeir vera komnir langt út af leið. Mín von er sú að dómstólar setji þessu fólki stólinn fyrir dyrnar. Með kveðju,
Sigríður

Komdu sæl Sigríður.
Ég hef áttt viðræður við borgarstjóra um starfsmannastefnu Stætó og á sannast sagna erfitt með að trúa að hann hafi lagt blessun sína yfir þá stefnu sem ég er þér sammála um að er starfsmannafjandsamleg og verður ekki liðin af okkar hálfu. Þetta verður allt saman kannað í þaula.
Kveðja,
Ögmundur