ÁRÁSIRNAR Á ÁSMUND EINAR
„Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG og bóndi, er ekki vinsæll í eigin flokki fremur en hinir af þremenningunum sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga. Fullyrt er að Ásmundur sé lélegur...Fullyrt er að Ásmundur... fullyrt er að..." Það er talsvert mikið fullyrt um Ásmund Einar Daðason í nýjasta sandkorni DV. Sama tuggan nema kannski rætnari en við höfum fengið að heyra í nokkrum fjölmiðlum landsins í aðdraganda jóla, Fréttablaðinu, vísi.is, Stöð 2 og nú síðast DV.
Allir þessir fjölmiðlar hafa hamast á hinum unga galvaska þingmanni Dalamanna Ásmundi Einari Daðasyni. Hann leyfði sér að vera á móti því að sækja um aðild að ESB. Og hann vill ekki láta segja upp starfsfólki á heilbrigðisstofnunum, krafðist úttektar á afleiðingum fjárlagafrumvarps, fékk ekki og sat því hjá.
Ásmundi Einari spái ég bjartri framtíð í íslenskum stjórnmálum. Hvers vegna? Jú vegna þess að hann er fylginn sér, heiðarlegur, skeleggur og drengur góður. Ég er oftast sammála honum. Ekki alltaf. Enda er hann Ásmundur Einar. Ég er Ögmundur. Við erum á einu máli um grundvallarhugsjónir og stefnumið, ekki alltaf á einu máli um hvernig við eigum að ná þeim fram. Þetta er gangur lífsins. Og á aldrei að verða tilefni illinda - hvað þá vinslita.
Ásmundur Einar er ekki bara í uppáhaldi hjá mér. Hann er vinsæll í þjóðfélaginu og einnig í eigin flokki þvert á það sem sandkornsritari DV staðhæfir í tilvitnuninni sem vísað er í hér að framan.
En hvað veldur því að tilteknir fjölmiðlar sameinast um að rægja þennan ágæta mann? Hver skrifar svona rugl? Hver heldur um níðpennana á framangreindum fjölmiðlum?
Kannski gæti handhafi blaðamannaverðlauna BÍ fundið þetta út fyrir okkur. Kannski gæti hann haft upp á einhverjum Deep throat til hvísla að sér hver spunameistarinn er, ef hann þá er ekki sjálfur í sambandi við þann sem vefinn spinnur. Nú er að sýna verðlaunataktana.