Ástæður fyrir hernámi Íraks sífellt skýrari
Athygli hafa vakið yfirlýsingar Jays Garners sem gegnt hefur starfi yfirmanns uppbyggingar- og mannúðarstarfs í Írak (“reconstruction og humanitarian assistance.” ) Garner var látinn fjúka eftir að hann lýsti yfir að hann hefði beitt sér fyrir að Írakar fengju að ganga að kjörborðinu sem allra fyrst og það sem meira er stýrðu sínum eigin málum sjálfir. Í viðtali við fjölmiðlamanninn og þjóðfélagsrýninn Gregory Palast í fréttaskýringarþættinum Newsnight í breska sjónvarpinu, BBC í gærkvöldi (föstudag) kemur fram að samkvæmt áformum frá 2001 hefði staðið til mjög víðtæk einkavæðing í Írak áður en kosningar færu fram. Fram kemur í viðtalinu að Garner hafi verið þessu andvígur og talið að Írakar ættu að fara sínu fram á eigin forsendum en ekki forsendum Bandaríkjamanna. Þeir gætu gert mistök en þeir þyrftu ekki að byggja á hugmyndum Bandaríkjamanna ("What I was trying to do was get to a functioning government ... We as Americans like to put our template on things. And our template's good, but it's not necessarily good for everyone else."..."They'll make mistakes, and that's OK ... I don't think they need to go by the US plan.")
Þetta rímar við yfirlýsingar Pauls O´Neills fyrrverandi fjármálaráðherra í stjórn Bush en hann skýrði nýlega frá því, að allt frá fyrstu dögum Bush í embætti hafi legið fyrir ákvörðun um að ráðast á Írak og það sem meira er, frá upphafi lágu fyrir áætlanir um ráðstöfun olíunnar. Við þessa mynd bætist núna að víðtækari einkavæðing hafi verið áformuð en á sviði olíuframleiðslunnar einnar.
Áður var vitað að helstu ráðgjafar Bush Bandaríkjaforseta höfðu skrifað Bill Clinton bréf á meðan hann var forseti Bandaríkjanna til þess að hvetja til innrásar í Írak til að tryggja bandaríska olíuhagsmuni.
Því má bæta við að þessir tveir menn sem hér hefur verið vitnað til, Paul O´Neill og Jay Garner eru sjálfir harðlínu hægri menn enda ekki falin trúnaðarstörf af Bush vegna þess að sjónarhorn þeirra þætti sérlega víðsýnt!
Jay Garner, sem nú var látinn fjúka er fyrrum hershöfðingi, sem undir það síðasta starfaði hjá fyrirtækinu sem framleiðir Patriot og Sparrow eldflaugakerfin. Þegar hann var kallaður til starfa voru arabísk dagblöð mjög gagnrýninn á hann. Athygli var vakin á því að hann hefði verið viðloðandi Jewish Institute of National Security Affairs í Bandaríkjunum (http://www.jinsa.org/about/about.html) og m.a. skrifað undir yfirlýsingu árið 2000 sem hrósaði Ariel Sharon fyrir að sýna stillingu (“restraint”) í stríðinu gegn Palestínumönnum. Arabísku blöðin lýstu honum sem harðlínu síonista sem væri umhugað fyrst og fremst um öryggi Ísrael en ekki velferð Íraka.
Þetta er sem sagt maðurinn sem nú ofbýður ofstækið og hagsmunagæslan fyrir bandarískt auðvald. Og ekki man ég betur en Paul O´Neill hefði verið forstjóri Alcoa. Varla getur hann staðið mjög langt til vinstri. Alla vega er hann ekki í Vinstri grænum!