Fara í efni

ATHYGLISVERÐ MÁLSTOFA

Sæll Ögmundur.
Þar sem mikið er um að vera í henni veröld og allir sem fást við stjórnmál eru önnum kafin, þá gefst ekki tími að njóta fróleiks og fræðslu. Málstofan sem ég vék að hér á síðu þinni í Landsbókasafni um Eirík bókavörð í Cambridge var ágæt. 
Þar sem eg tel efni hennar hafa verið áhugavert þá leyfi eg mér að senda þér niðurlagskaflann í erindi mínu sem flestir mættu skoða.
Erindið fjallaði um ritskoðun sem Eiríkur var beittur og samskipti Eiríks og Skúla Thoroddsen. Las eg nýfundna heimild sem varpar betra ljósi á Skúlamálin: 
"Eiríkur var sístarfandi allan þann tíma sem hann bjó á Bretlandi. Síðustu árin lét hann frá sér fara bækling og þar er hann enn að fara yfir stöðu mála. Hugur hans var ætíð bundinn Íslandi. Bæklingurinn kom út 1908 þá Eiríkur var 75 ára gamall: „Hvað á húsgangurinn Ísland að gera við þann lúxús, að líða vel?" Þar er hugleiðing hans um stöðu mála á Íslandi og hvers vegna Íslendingum vegni ekki betur en raunin er. Á þessum tíma er Ísland að öllum líkindum eitt fátækasta land Evrópu, jafnvel Albanía var þá lengra komið en þetta átti eftir að breytast skjótt. Þöggun er ekki ókunnugt fyrirbæri. Það hefur lengi síðan þótt sjálfsagt t.d. í stjórnmálum að þegja um það sem vel hefur verið gert en draga athygli að öðru sem minna máli skiptir. Þeir jafnvel útskúfaðir sem leyfa sér að hafa aðra skoðun á málefnunum. Við horfum upp á þetta einnig í dag þegar fremur minniháttar málum er gert meira en tilefni gefur til, þau blásin upp í tilfinningalegt raus fremur en að sinna betur þeim málum sem meiru skiptir. Af nægu er að taka: Af hverju er nánast engin umræða um Magma málið, eignarrétt og notkun náttúruauðlinda en einhver lifandi ósköp um Icesave sem virðist fá góðan enda? Engin umræða er um viðskiptasamningin við Kína þó gríðarlegu púðri sé eytt í Evrópusambandsumræðuna. Stjórnarskármálinu ýtt út í horn. Látum við hagsmunaaðilana, lýðskrumarana og auðmennina stýra umræðunni? Sjálfsagt er óvíða að finna jafn sundurlausa hjörð og við Íslendingar erum. Víðsýn og fjölbreytt og umfram allt skynsamleg, gagnrýn og upplýst umræða um samfélagsmál væri Eiríki og Cambridge og Skúla Thoroddsen að skapi væru þeir uppi á vorum dögum."
Guðjón Jensson