Fara í efni

ATHYGLISVERÐ UMRÆÐA UM ÞJÓÐFÉLAG, STJÓRNMÁL OG FJÖLMIÐLUN

Nýlega hafa birst hér á síðunni athyglisverðar greinar um fjölmiðla og umfjöllun þeirra um álitamál samtímans. Jón Bjarnason veltir fyrir sér umfjöllun Ríkisútvarpsins um hlutafélagavæðingu opinberrar starfsemi, háeffun, og vísar í starfsemi sem nú er að ganga í gegnum þetta ferli: Flugumferðarstjórnina í landinu og rekstur flugvalla landsins og markaðsvæðingu matvælarannsókna og stofnun hlutafélagsins Matís.
Ólafur B. Andrésson skrifar síðan mjög athyglisverða grein um áhrifamátt fjölmiðla, Fjórða valdsins, í íslensku samfélagi.

Umbylting þjóðfélagsins ekki valdið svefnruski

Ólafur spyr: "Hvernig standa íslenskir fjölmiðlar, sem gefa sig út fyrir að miðla upplýsingum og veita aðhald, vakt sína? ...Geta íslenskra fjölmiðla er mismikil og ræðst af þeim einstaklingum sem eru innanborðs á hverjum miðli. Hvað sem veldur, þá hefur umræða um það sem hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum engan veginn fengið þá gagnrýnu umfjöllun sem æskilegt hefði verið. Gríðarlegir fjármunir og völd hafa verið flutt til í þjóðfélaginu án þess að það hafi valdið svefnruski á íslenskum fréttastofum. Meira hefur farið fyrir yfirborðslegri upplýsingagjöf um gengishækkanir hlutabréfa en að  fjallað hafi verið um þær samfélagsbreytingar sem einkavæðingin hefur haft í för með sér. Spurning er hvort það er getuleysi sem þessu veldur eða skortur á hugrekki eða ef til vill ískalt fréttamat...."

Ríkisútvarpið næst á dagskrá?

Jón Bjarnason segir einkennandi fyrir fréttaumfjöllunina að fjölmiðlar veigri sér við að setja málin í pólitískt samhengi: "Rætt er fyrst og fremst við talsmenn ríkisstjórnarinnar, sem reyna að gera einstaka hópa starfsmanna tortryggilega. Það á ekki síst við um flugumferðarhnútinn. Litið er framhjá því að hann er rammpólitískur - hnýttur af ríkisstjórn landsins. Það er eðlilegt að fólk furði sig á því að fjölmiðlar skuli veigra sér við að fjalla um þessar raunverulegu forsendur þeirra deilumála sem upp eru komin heldur fara í kringum þau eins og köttur um heitan graut. Grunnástæða  þess ófremdarástands sem er að skapast  er sú að verið er að færa starfsemi á sviði  öryggis, almannaþjónustu  og grunnvísinda í form einkarekstrar hjá fyrirtækjum  á samkeppnismarkaði með tilheyrandi uppsögnum og breytingum á réttindum og skyldum þess fólks sem þarna vinnur. „Háeffun“ getur verið góð þar sem hún á við í samkeppnis atvinnurekstri en ekki í öryggis og almannaþjónustu…Nái vilji ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fram að ganga er það starfsfólk Ríkisútvarpsins sem verður næst rekið út á „blóðvöll“ Háeffunar.
Er ekki kominn tími til að ræða einkavæðinguna í því pólitíska samhengi sem hún er sprottin upp úr. Einkavæðing almannaþjónustunnar er pólitísk í eðli sínu. Hvers vegna skyldu fjölmiðlar, þar með talið Ríkisútvarpið, hræðast að ræða hana í því samhengi?

Grein Jóns Bjarnasonar er HÉR

Grein Ólafs B. Andréssonar er HÉR