ATKVÆÐAGREIÐSLA UM RÍKISSTJÓRNINA, EKKI ESB
Birtist í DV 25.05.12.
Á fimmtudag fór fram viðmikil atkvæðagreiðsla á Alþingi um hvort skjóta ætti til þjóðarinnar tilteknum spurningum sem unnar voru úr tillögum Stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Inn í þetta fléttaðist tillaga Vigdísar Hauksdóttur, Framsóknarflokki, um að skotið yrði til þjóðarinnar um leið og stjórnarskrármáli, spurningu um hvort draga ætti til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Spyrja á hvort Íslendingar vilji ganga í ESB
Ekki greiddi ég tillögu Vigdísar um viðræðuslit atkvæði mitt enda hef ég talað fyrir því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Íslendingar vilji ganga inn í Evrópusambandið á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja þegar atkvæðagreiðslan fer fram; ekki hvort halda eigi viðræðum áfram eða draga umsókn til baka. Ég vil útkljá málið og fá í það lyktir.
Hef ég í tæp þrjú ár talað fyrir því að samninganefnd okkar verði sett tímamörk með dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslu en stjórnarflokkarnir í samvinnu við stjórnarandstöðu á Alþingi kæmu sér saman um dagsetningu hennar. Ekki hefur enn náðst um þetta samstaða en hið ánægjulega er að sífellt fleiri tala nú fyrir því sjónarmiði að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram á næstu mánuðum, vel fyrir næstu Alþingiskosningar. Sjálfur tel ég mikilvægt að þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði haldið aðgreindri frá öðrum kosningum, hvort sem það er um stjórnarskrárdrög eða Alþingiskosningar.
Víti til varnaðar
Það er mikilvægt að við látum það ekki henda okkur sem henti Norðmenn fyrir tuttugu árum í þessu efni. Norðmenn sóttu um aðild að Evrópusambandinu haustið 1992, gengu frá samningi sem síðan var undirritaður af hálfu norsku ríkisstjórnarinnar og samþykktur af ríkisstjórnum allra Evrópusambandsríkjanna en síðan felldur tveimur árum síðar í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi! Það er mál manna að þetta hafi orðið Norðmönnum til vansa; Evrópusambandsríkjum hafi þótt þau vera dregin á asnaeyrum og hafi Evrópusambandið látið Norðmenn gjalda þessa í samningum um ýmis efni á næstu árum.
Margt skondið og mótsagnakennt bar á góma við fyrrnefnda atkvæðagreiðslu. Þannig sagði þingmaður Samfylkingarinnar að ekki mætti hætta viðræðum við Evrópusambandið nema forsendubrestur yrði en svo væri ekki. Hljóta ýmsir að hafa furðað sig á þessum ummælum í ljósi þess hvað nú er að gerast innan Evrópusambandsins varðandi gjaldmiðlinn, óvissu í stjórnmálum og efnahagsmálum, nánast hrun í nokkrum ríkjum. Þá hefur það breyst frá því Íslendingar settu inn umsókn sína að ESB einhenti sér í málssókn gegn íslandi og lagðist þar á sveif með Bretum og Hollendingum í Icesave-ofríkinu. Einnig hefur komið á daginn að ESB er miklu harðdrægara í aðlögunarkröfum sínum en almennt var talið. Síðan eru það fiskveiði- og auðlindadeilurnar sem eru áminning um það sem koma skal ef við gerumst aðildarríki.
Sjálfur held ég mig við það að halda viðræðum áfram í Brussel á meðan við komumst að samkomulagi heima fyrir um dagsetningu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekkert launungarmál og hefur margoft komið fram að Samfylkingin neitaði að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu áður en aðildarumsókn var send inn. VG eða meirihluti þingmanna féllst að sækja um við stjórnarmyndunina vorið 2009 og var ég þar á meðal. En það þýðir ekki að ég ætli að fallast á að ESB verði látið komast upp með að stýra hægagangi viðræðna, greinilega með það í huga að lenda málinu þegar hægist um í þeirri von að afstaða Íslendinga breytist og verði hliðhollari ESB en nú er.
Rekið sem stjórnarandstöðumál
Við eigum að sjálfsögðu sjálf að ákveða hvenær við teljum nóg komið og að mínu mati er mæliglasið að tæmast. Hvers vegna greiddi ég þá ekki atkvæði með tillögu nú um viðræðuslit? Það er vegna þess að ég vil freista þess að VG nái samkomulagi við Samfylkinguna um það ferli sem hér hefur verið rakið. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar engan áhuga á slíku og virðist reka þetta mál fyrst og fremst sem stjórnarandstöðumál til að koma höggi á ríkisstjórnina.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, orðaði þessa hugsun ótrúlega opinskátt þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu þegar greidd voru atkvæði um málið á Alþingi:
„Staðreynd málsins er auðvitað sú, og það blasir við öllum, til dæmis þegar hæstvirtur innanríkisráðherra hafnar þessari tillögu, maður sem er mótfallinn því að við göngum í Evrópusambandið, staðreynd málsins er þessi: Við erum ekki hér að greiða atkkvæði um hvort bera megi þetta undir þjóðina. Við erum að greiða atkvæði um það hvort ríkisstjórnin stendur eða ríkisstjórnin fellur. Það er það sem við erum að greiða atkvæði um."
Annarleg sjónarmið afþökkuð
Gott að menn tali hreint út. Fyrir það á Bjarni Benediktsson heiður skilið. Atkvæðagreiðslan var ekki um ESB, segir hann, heldur um ríkisstjórnina! En ef Bjarni Benediktsson er andvígur inngöngu í Evrópusambandið, og ef hann er fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá mál (önnur en Stjórnarskrána og önnur smámál), hvernig væri þá að taka umræðu um það hvernig ná megi þeim markmiðum, án þess að hafa annarleg sjónarmið með í farteskinu, sem formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti svo ágætlega í þinginu?