Atvinnuleysi og örorkubætur
Birtist í Fréttablaðinu 28.01.2004
Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur síðustu daga verið með hálfkveðnar vísur, nánast dylgjur um öryrkja. Ástæðan fyrir því að þeim hafi fjölgað gæti verið sú að hjá Tryggingastofnun væru menn úrskurðaðir öryrkjar á einhvern frjálslegri hátt en áður tíðkaðist. Þarna er Davíð Oddsson á villigötum. Sú spurning sem hann ætti að vera að velta fyrir sér er hvernig á því standi að á Íslandi hafa til mjög langs tíma verið hlutfallslega færri öryrkjar en á hinum Norðurlöndunum.
Hvers vegna skyldi það vera? Ég held að skýringin sé fyrst og fremst sú að hér hefur verið næg atvinna - lítið atvinnuleysi.
Breytt afstaða til atvinnuleysis í Stjórnarráði Íslands
Nánast allan lýðveldistímann var það keppikefli stjórnvalda númer eitt tvö og þrjú að bægja atvinnuleysi frá. Kenningum um að nota atvinnuleysi sem hagstjórnartæki til að slá á þenslu og halda niðri kjörum var hafnað af nánast öllum ríkisstjórnum.
Þetta tókst bærilega. Að undanskildum árunum í lok sjöunda áratugarins þegar síldarstofninn hrundi, var atvinnuleysi lítið – og það atvinnuleysi sem á annað borð var, skýrðist af skammvinnum aðstæðum í sjávarútvegi.Vinnumarkaðurinn var tiltölulega stöðugur og vinsamlegur- líka gagnvart fólki með skerta starfsgetu. Á þessu verður síðan grundvallarbreyting upp úr 1990. Þá kemur til sögunnar fjöldaatvinnuleysi sem verður viðvarandi – nokkuð breytilegt frá ári til árs – en alltaf eru þó þúsundir manna án vinnu – nú eru fimm þúsund manns án atvinnu í hverjum einasta mánuði.
Á hverjum skyldi þetta bitna fyrst? Það liggur í augum uppi: Á fötluðum eða fólki með skerta starfsgetu vegna fötlunar eða langtímaveikinda.
Skýringin á því að öryrkjar eru hlutfallslega færri á Íslandi en hinum Norðurlöndunum er með öðrum orðum sú að hér hefur verið gott atvinnuástand og að fólk vill vinna jafnvel þótt starfsþrekið þverri.
Fólk vill vinna í lengstu lög
Vissulega hefur öryrkjum fjölgað á síðustu misserum. Fjölgun þeirra sem fara á örorkubætur er hins vegar ekki eins ör og hefði mátt ætla við þessar erfiðu aðstæður á vinnumarkaði. Staðreyndin virðist vera sú að fólk sem á rétt á örorkubótum reyni í lengstu lög að halda sér inni á vinnumarkaði, sæki um atvinnuleysisbætur eða sjúkradagpeninga eftir atvikum og þrauki. Þetta gerist jafnvel þótt atvinnuleysisbætur og sjúkradagpeningar séu í sumum tilvikum lægri en greiðslur til öryrkja.
Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að örorka á sér yfirleitt langan aðdraganda. Vissulega missa margir orkuna í slysi en fleiri veikjast og heilsuleysið ágerist smám saman. Það liggur þess vegna ekki í augum uppi nákvæmlega hvenær þörf er á að sækja um örorkubætur og eflaust einsklingsbundið hvernig fólk ber sig að.
Til þess að skilja samhengi hlutanna þarf að hugleiða þessa þætti.
Þegar það nú kemur í ofanálag að spáð er áframhaldandi fjöldaatvinnuleysi þá er ekki að undra að margir missi móðinn og fái úrskurð um heilsufar sitt. Sá úrskurður byggir á staðreyndum og fráleitt að dylgja um að hann sé einhver tilbúningur. Forsætisráðherranum væri nær að taka ofan fyrir fólki sem í lengstu lög hefur viljað halda sér inni á vinnumarkaði og íhuga á hvern hátt stjórnvöld geti komið til aðstoðar.
Hvað ríkisstjórninni ber að gera
Ríkisstjórnin getur veitt fólki sem býr við hrakandi heilsufar stuðning, t.d. með því að stórhækka sjúkradagpeninga en fyrst og síðast með því að beita öllum tiltækum hagstjórnartækjum til að draga úr atvinnuleysi. Atvinnuleysi er þjóðfélagsmein en verst kemur það fólki með skerta starfsorku. Ríkisstjórnin gengur í þveröfuga átt, slær milljarða lán til óarðbærra fjárfestinga og sveiflar síðan niðurskurðarsveðju til að slá á þenslu. Afleiðingarnar eru fjöldauppsagnir og aukið atvinnuleysi.
Allt var þetta fyrirsjáanlegt þegar ákvörðun var tekin um stóriðjuframkvæmdirnar við Kárahnjúka fyrir rúmu ári. Það sem ekki var fyrirsjáanlegt var að fyrstu fórnarlömdin yrðu hjúkrunarfólk á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og blórabögglar síðan fólk með skerta starfsorku sem ekki á annars kost en fá stuðning úr almannatryggingakerfinu.