Fara í efni

AUGLJÓS ÁFORM KÍNVERJA

Mér þóttu góðar hugvekjurnar ykkar Einars Benediktssonar um landvinningastefnu Kínverja og dæmalausar yfirlýsingar Núbós um tryggan 99ára leigusamning. Hvernig halda menn, að heimsmyndin liti út í dag, ef Hermann Jónasson hefði ljáð máls á því á sínum tíma, að leigja þjóðverjum land til að koma upp alþjóðlegum flugvelli eða flugvöllum auk veðurathugunarstöðva, eins og þeir Hitler og Goering töldu miklar líkur á að gæti orðið? Hermann lét ekki gjafir eða yfirlýsingar nafna síns, um að hér væri aðeins um að ræða aðstöðu fyrir Lufthansa með sérstökum samgöngubótum, sem við myndum fyrst og fremst njóta góðs af.
Ég minnist þess sem strákur á þessum tíma, hve mikla hrifningu hæfni þeirra þjóðverja, er hingað komu í heimsóknir og sýndu listir sínar í svifflugi og listflugi á litlum flugvélum vöktu. Þessir kappar voru sérlega prúðir og viðkunnanlegir.
Efalaust hafa ýmsir talið hættulítið og jafnvel vænlegt, að leyfa þýzkum að koma upp þessum samgöngubótum okkur að kostnaðarlausu auk þess sem gerð flugvallar á þeim tíma var líkleg til að skaffa fjölda manna atvinnu bæði við gerð mannvirkjanna og síðar við starfrækslu þeirra. Hermann Jónasson léði aldrei máls á þessu. Halda menn í dag, að þessi Núbó, sem Kínverjar beita nú fyrir sér í þessu landvinningamáli sé eitthvað annað en sú tálbeita, Lufthansa, var þegar þeir Hitler og Goering seildust til landvinninga hér í kreppunni forðum.
Hafa menn gert sér grein fyrir því, að jörðin Grímsstaðir á Fjöllum er sextíu sinnum stærri en Grímsey? Hvað myndi Einar Þveræingur segja um þau áform, sem nú eru uppi um landssölur og leigur? Hermanni Jónassyni munu hafa verið sendir minjagripir frá nafna hans Goering vegna opinberra samskita þjóðanna á þessum tíma. Þeir höfðu auðvitað engin áhrif á afstöðu Hermanns.
Kínverski forsætisráðherrann afhenti okkar forsætisráðherra minjagrip um heimsókn sína. Táknræna að vísu um þá hagsmuni, sem m.a krefjast aðstöðu fyrir Kínverja hér á Íslandi, þegar Norðurleiðin opnast.
Ekki verður öðru trúað en að forsætisráðherrann fari að öllu með gát í sambandi við augljós áform Kínverja um stórkostleg , ófyrirsjáanleg og varanleg ítök hér á landi.
Sveinn Snorrason