Fara í efni

AUGLÝSINGAR ERU EKKI VONDAR

Stundum tala menn eins og auglýsingar séu í eðli sínu slæmar. Það er fráleit alhæfing. Allt er undir því komið hvernig þær eru úr garði gerðar, hvort þær eru upplýsandi og gefa rétt skilaboð um vöru og þjónustu eða annað sem auglýst er, eða eru eintómt glamur og byggja jafnvel á ósannindum. Mér finnst það síður en svo vera keppikefli að losna við auglýsingar úr Ríkisútvarpinu eins og nýr útvarpsstjóri, Páll Magnússon, talar um og margir hafa tekið undir. Ég væri því hins vegar fylgjandi að setja bann við kostun og setja strangari skilyrði um áreiðanleika auglýsinga, ekki aðeins í Ríkisútvarpinu heldur í öllum fjölmiðlum. Það væri verðugt verkefni Neytendasamtakanna að þrýsta á um slíkt í stíl Ralphs Naders hins bandaríska frá sjöunda áratug síðustu aldar. En mér er spurn, ef Páll Magnússon telur að RÚV geti verið án tæplega þriðjungs af heildartekjum sínum, hvar hyggst hann skera niður? Eða telur hann og menntamálaráðherra sem tekið hefur jákvætt í þessar hugmyndir, líklegt að veitt verði betur úr skatthirslum ríkisins en nú er gert?