Fara í efni

AUGLÝSINGAR SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS EKKI Í SAMRÆMI VIÐ VERULEIKANN

Birtist í Morgunblaðinu 12.05.07.
Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir að ungt fólk hafi aldrei haft það betra og að flokkurinn muni tryggja áframhaldandi stöðugleika með traustri efnahagsstjórn. Ég er hræddur um að sú kynslóð sem nú er að afla sér húsnæðis kannist ekki við þennan stöðugleika Sjálfstæðisflokksins. Eftir að húsnæðislöggjöfinni var breytt árið 1999 er nær útilokað fyrir lágtekju- og millitekjuhópa að eignast húsnæði og leigumarkaður er nú með afarkjörum. Það lágtekju- og millitekjufólk sem hefur látið slag standa á mögur ár í vændum ef ekki tekst að koma böndum á vexti og verðbólgu. Stjórnmálaflokkur sem með aðgerðum sínum í efnahagsmálum hefur dæmt heila kynslóð í hálfgildings skuldafangelsi ætti að tala varlega um stöðugleika og trausta efnahagsstjórn. Í morgun var tilkynnt að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 0,86% frá fyrra mánuði. Þetta er mun meira en hafði verið spáð. Þannig hækkaði verð á mat- og drykkjarvöru um 1,3% milli mánaða. Þetta vegur að sjálfsögðu inn í vísitölubundin lán fjölskyldna og fyrirtækja. Er þetta til marks um að "efnahagslegur stöðugleiki hafi skotið rótum" eins og segir í myndbandi Sjálfstæðisflokksins? Auglýsingar Sjálfstæðisflokksins eru blekkjandi því þær eru ekki í samræmi við veruleikann.