Fara í efni

AUKA BER VEG HINS BEINA LÝÐRÆÐIS


Forseti Íslands flutti að mínu mati sitt besta nýársávarp til þessa. Hann fjallaði um lýðræðið og hvatti til opnari, gagnsærri og lýðræðislegri stjórnarhátta. Hann vildi sjá samfélag opinna skoðanaskipta, gagnrýndi duttlungastjórnun og flokksræði og vildi efla lýðræðið í hvívetna: "Nú er vaxandi stuðningur við að auka veg hins beina lýðræðis, að fólkið fái sjálft að ráða í ríkara mæli. Þá er rétt að hafa í huga að vilji þjóðarinnar er einmitt hornsteinninn sem stjórnskipan lýðveldisins hvílir á. Breytingarnar sem gerðar voru á stjórnarskránni 1944 og rúmlega 90% landsmanna samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu kveða á um að valdið sem áður var hjá Alþingi og konungi er fært þjóðinni. Forseta hins unga lýðveldis svo falið að tryggja þann rétt þótt ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana."
Menn velta því nú fyrir sér hvort forsetinn staðfesti Icesave-lögin eður ei. Þau sjónarmið heyrast að það sé ekki við hæfi að bera þetta tiltekna mál undir þjóðaratkvæði, það eigi bara við um önnur mál án þess að það sé skilgreint nánar hver þau eru. Í mínum huga er bara ein skilgreining sem máli skiptir: Lýðræðislegur vilji. Ef hann er fyrir hendi á að virða hann. Sá vilji birtist í tugþúsundum undirskrifta. Vinstrihreyfingin grænt frmaboð hefur alla tíð barist fyrir auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar - og þar með hinu beina lýðræði. Við vildum þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka, um sölu Landssímans, um einkavæðingu almannaeigna og fl. Nú gæti þjóðinni gefist tækifæri að sýna hug sinn gagnvart þvingunarvaldi fjármagnsins. Við skulum ekki gleyma því að við erum þegar búin að staðfesta að við viljum virða alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það gerðum við í sumar!
Tími hins beina lýðræðis er runninn upp. Tími er kominn til að forræðishyggju verði vikið til hliðar í íslenskum stjórnmálum! Það var kjarninn í áramótaboðskap Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Undir þann boðskap er heilshugar tekið.