BÆÐI ÁGÆT, EN HVORUGT NÓGU GOTT!
Sæll Ögmundur !
Ég reyni að fylgjast með öllu sem ég sé um formannskjörið í Samfylkingunni. Margt vekur þar athygli mína og undrun. T.d. að engin skuli segja það sem mér finnst vera kjarni málsins, sem er að þau eru auðvitað bæði ágæt sem slík Ingibjörg og Össur en hvorugt þeirra er þó nógu gott. Gaman væri að heyra þitt álit.
Ég verð vör við það í kring um mig að margir hafa samúð með Össuri umfram Ingibjörgu. Hann sé búinn að berjast með Samfylkinguna gegn um allar hennar þrengingar og hafi komið henni þangað sem hún er. Menn minnast þess einnig að engin vildi byrja við stýrið þegar Samfylkingin var stofnuð nema hann. Ingibjörg lét þá hvergi sjá sig og stundaði það reyndar á þeim tíma að sverja Samfylkinguna af sér. Hún mun hafa sagt eitthvað á þá leið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2002 að hún væri í Kvennalistanum, kynni af þeim sökum að hafa verið færð inn í Samfylkinguna, en í þann flokk hefði hún aldrei gengið. Ingibjörg mun einnig hafa lagt á það mikla áherslu þegar samið var síðast um samstarfið í Reykjavík að vera ekki fulltrúi Samfylkingarinnar þar heldur utan flokka og samnefnari sem myndi líma hlutina saman næstu fjögur árin. Allir muna svo hvernig þau loforð héldu. Þegar hún nú kemur og vill taka við finnst mörgum að hún ætli að njóta eldanna sem aðrir hafa kveikt eða borða brauðið sem aðrir hafa bakað, sbr. litlu gulu hænuna. Þetta er svona "nú get ég" aðferðin. Ingibjörg á vissulega glæstan feril að baki sem hluti af sögu Kvennalistans og sem borgarstjóri, en hún er ekki hafin yfir gagnrýni og ýmsir eiga um sárt að binda eftir samstarf við hana. Það gildir um okkur sem unnum með henni innan kvennalistans en framganga hennar sérstaklega í EES málinu olli okkur mörgum miklum sársauka. Einnig eru sárindi innan R listans eftir viðskilnað hennar þar er mér sagt þó ég þekki það ekki eins vel.
Og þá að Össuri. Hann gat sér frægðar í upphafi sem róttækur uppreisnarmaður og ritstjóri á málgagni kommanna, Þjóðviljanum, en svo var hann allt í einu orðinn forustumaður hjá Alþýðuflokknum eins og ekkert væri. Og er þetta ekki saga hans í hnotskurn. Hann er fjörugur og hefur seiglast, en það er eins og eitthvert alvöruleysi og galgopaháttur sé alltaf stutt undan. Fínustu jakkaföt og bindi í stað þverslaufu breyta þessu ekki.
Að lokum verð ég að segja að ég er orðin afar þreytt á þessu langdregna kosningatilstandi hjá Samfylkingunni og hvernig fjölmiðlar elta þetta og draga á langinn svona rétt eins og dauðastríð Páfa. Getur þetta fólk ekki bara kosið sér formann eins og aðrir án þess að öll þjóðin þurfi að vera undirlögð með fréttum af því vikum saman. Þetta hefur nú líka fengið á sig hálfgerðan sápuóperublæ á köflum þegar heilum bekkjum skólakrakka er smalað inn í stjórnmálaflokk bara vegna atkvæðanna. Ekki finnst mér gaman að sjá menn nota sér trúgirni og reynsluleysi barna með þeim hætti, en það eru sjálfsagt engin lög sem banna slíkt.
En mér finnst sem sagt mergurinn málsins vera sá að hvorugt þeirra er sérstaklega álitlegt sem formaður í Samfylkingunni. Sá flokkur verður engu nær því að endurnýjast hugmyndalega eða kynslóðalega, það verða engin tímamót og ekki einu sinni farið út fyrir sömu fjölskylduna í Vesturbænum hvernig sem fer.
J.G. fyrrv. Kvennalistakona
P.s. Mér tókst með erfiðismunum að fá mig tekna af skrám Samfylkingarinnar árið 2001eftir að hafa lent þar inn sem félagi í Kvennalistanum. Ég hef ekki gengið í neinn flokk síðan þó mér líki margt vel hjá ykkur. Þú ert skeleggur í kjaramálum og Kolbrún stendur sig mjög vel í jafnréttismálum, baráttu gegn vændi og mörgu fleiru og þó ég sé ekki sátt við allt myndi ég kjósa ykkur núna. En það sem ég ætlaði að nefna er að sonur minn, sem er í tónlistarnámi, hann fékk allt í einu sendan atkvæðaseðil í þessari formannskosningu hjá Samfylkingunni án þess að hafa hugmynd um hvers vegna. Hann heldur helst að einn bekkjarfélagi sinn hafi skráð hann eða jafnvel einn kennarinn sem er í Samfylkingunni. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta geti verið svo ósvífið að börn þeirra sem einu sinni hafa verið í skránni hjá þeim fái send bréf. En spurningin er hvað getur maður gert? Þegar verið er að tala um þörfina fyrir lög um stjórnmálaflokka þá velti ég því fyrir mér myndu þau taka á svona löguðu? Veist þú um það Ögmundur?
Heil og sæl og þakka þér fyrir bréfið. Þú kemur víða við. Það er nú varla að ég þori að tjá mig um þessa formannskosningu í Samfylkingunni. Ég gerði það um daginn og var ég umsvifalaust vændur um afskipti af innanflokksmálum í öðrum flokki en þeim sem ég er í. Ég gerði þó ekki annað en taka vel í hugmyndir Össurar um vinstri stjórn, nokkuð sem við í VG lögðum áherslu á fyrir síðustu kosningar. Við töluðum þá um að Velferðarstjórn skyldi mynduð ef við fengjum ráðið. Nú talar Össur um Frjálslynda Velferðarstjórn. Ágætt. Síðan setti ég skoðanir formannsefnanna á pólitíska mælistiku og sagði að mín niðurstaða væri sú að Inibjörg Sólrún stæði lengra til hægri en Össur. Þetta er einfaldlega mitt mat.
þá er komið að þinni stóru spurningu, hvort þau séu ekki ágæt bæði tvö en hvorugt nógu gott. Ég held að þetta sé röng nálgun hjá þér. Þau kunna vissulega að vera ágæt, sá hluti staðhæfingarinnar gæti verið réttur og er það án efa. Hins vegar er það Samfylkingin sem er ekki nógu góður stjórnmálaflokkur. Alla vega gæti ég ekki hugsað mér að eiga heima í Samfylkingunni, þótt ég eigi þar marga ágæta vini.
Varðandi nauðungarflutningana inn í Samfylkinguna, þá hef ég einnig frétt af þessu. Mér segir hugur um að sögum af þessu tagi eigi eftir að fara fjölgandi.
Kv.
Ögmundur